Dómkórinn í Reykjavík - J.S. Bach: Messsa í h-moll

Dómkórinn ásamt kammersveit undir stjórn Kára Þormar, Dómorganista, flytur h-moll messu Bachs. H-moll messan er síðasta kórverk Bachs og það eina þar sem allur latneskur texti messunnar er sunginn. H-moll messan telst til stærstu verka tónbókmenntanna, en í henni bregður fyrir öllum helstu stílbrigðum Bachs og kórinn syngur í fjórum, fimm, sex og átta röddum. Hún er talin eitt áhrifaríkasta verk tónlistarsögunnar og snertir enn þann dag í dag hjartastreng tónlistarunnenda.

Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Hildigunnur Einarsdóttir, mezzosópran, Þorbjörn Rúnarsson, tenór og Jón Svavar Jósefsson, bass-barítón.

Dómkórinn syngur við messur í Dómkirkjunni og er ef til vill þekktastur fyrir að syngja inn jólin á aðfangadagskvöld í útvarpi allra landsmanna ár hvert. Kári Þormar hefur stjórnað kórnum frá árinu 2010. Kórinn hefur meðal annars farið í söngferðir til Þýskalands, Frakklands og Portúgal og tók síðast þátt í alþjóðlegri kórakeppni í Salzburg 2019 þar sem hann hreppti silfurverðlaun og vakti mikla athygli fyrir fágaðan flutning og fallegan hljóm.