Steind glermynd yfir inngangi í kirkjuna, glerlistaverk í hurðum inn í kirkjuskipið, prédikunarstóll og skírnarfontur eru verk listamannsins Leifs Breiðfjörð.
Í skreytingu prédikunarstólsins eru innfelldar glermyndir af eiginhandarriti Hallgríms Péturssonar af Passíusálmunum og auk þess táknmyndir Guðs föður, sonar og heilags anda. Bakhlið stólsins er glermynd sem sýnir fangamark Krists, grísku stafina X P og á báðar hliðar þess eru stafirnir alfa og omega, sem minna á orðin í opinberunarbókinni 21.6: „Ég er alfa og ómega, upphafið og endirinn.“ Yfir stólnum er hattur og á hann er skorið versið: „Láttu Guðs hönd þig leiða hér…“ úr 44. Passíusálmi. Undir hattinum er dúfa, táknmynd heilags anda. Litir glerflatanna eru hinn græni litur vonarinnar, vaxtar og þroska og fjólublár litur iðrunar, föstuliturinn. Prédikunarstóllinn er gjöf frá Sigurbirni Einarssyni, biskupi, sem var fyrsti prestur Hallgrímssafnaðar.
Skírnarfontur kirkjunnar frá 2001 er úr íslensku stuðlabergi og tékkneskum blýkristal. Í kristalinn eru letruð ritningarorð úr Markúsarguðspjalli 16.16: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða“. Á steininn er letrað bænavers eftir Hallgrím Pétursson: „Vertu Guð faðir faðir minn“. Skírnarfonturinn er gjöf Kvenfélags Hallgrímskirkju. Fonturinn var vígður 1. sunnudag í aðventu 2001.
Í kirkjuskipinu vinstra megin – þegar horft er inn eftir kirkjunni – er skúlptúrinn Píslarvottur eftir myndhöggvarann Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Gegnt því er lítið bronslíkneski til minningar um Hallgrím Pétursson eftir myndhöggvarann Einar Jónsson (1874–1954), og á vinstri hönd þegar gengið er út úr kirkjuskipinu er Kristslíkneski eftir sama höfund, sem hann gaf kirkjunni árið 1948. Líkneskið sýnir Jesú Krist eftir skírnina í ánni Jórdan.
Vinstra megin við altarið er mynd af Maríu guðsmóður með barnið eftir Guðmund Einarsson (1895–1963) og á kórveggjum eru íkonar gegnt hvor öðrum eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur (f. 1963) af erkienglunum Gabríel og Mikael.
Aðalinngang Hallgrímskirkju prýða veglegar bronshurðir, sem mynda neðsta hluta gler- og bronslistaverks Leifs Breiðfjörð. Þær voru settar upp í janúar/febrúar 2010. Hurðirnar voru helgaðar á pálmasunnudegi, 28. mars, árið 2010. Hurðirnar eru gjöf frá velunnurum Hallgrímskirkju.
Á hurðum kirkjunnar eru tákn úr sögu kristni og kirkjulistar. Meginform er fjórblað, sem er mikilvægt tákn listaverksins alls. Í fjórblaðaformi hurðanna er ímynd Krists til hægri og mannsins til vinstri. Þyrnikóróna fléttast um þessar myndir. Þannig er þjáning mannsins um leið þjáning Krists. Flétta þyrnikórónunnar endar í hurðarhúninum. Þar ná saman hendur Guðs og manns. Að innanverðu myndar hurðarhúnninn krossmark, sameiningartákn kristninnar.
Hluti fjórblaðaformsins er lagður rauðu ítölsku glermósaiki. Það minnar á Jesú Krist, elsku hans og fórn. Fjórblaðaformið myndar krossmark, hið sígilda tákn krossfestingar Krists, dauða og upprisu. Fletirnir fjórir á innanverðum hurðunum tákna fagnaðarerindið og eru einnig tákn kirkjunnar, sem meðtekur orð Guðs. Erkienglarnir fjórir, Mikael, Gabríel, Rafael og Úríel eiga þar hver sitt tákn.
Á hurðinni standa orðin: Komið til mín. Þau eru hvatningarorð Jesú Krists til allra manna og fyrirheit um eilífan kærleika hans.
Yfir dyrunum er inngönguvers Hallgríms Péturssonar:
Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.
Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.
(Ps. 24).