Hallgrímskirkja hefur allt frá vígslu kirkjunnar 1986 staðið fyrir metnaðarfullu tónlistalífi. Sérstök áhersla er lögð á kirkjutónlist, listræn gæði, nýsköpun, fjölbreytni auk samstarfs við íslenska og erlenda listamenn. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á samstarf við menningarstofnanir og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandið Brák, Listaháskóla Íslands, Iceland airwaves, Myrka músíkdaga og Óperudaga.
Skipulag tónleikahalds kirkjunnar er fjórskipt og skiptist í eftirfarandi tónleikaraðir: Vetur og Vor, Orgelsumar, Haust í Hallgrímskirkju og Aðventa & Jól. Á árinu 2023 voru haldnir 39 tónleikar í kirkjunni og aðsóknin rúmlega 10.000 áheyrendur. Gert er ráð fyrir 40 tónleikum á ári eða fleirum.
Þrír starfsmenn koma að skipulagningu og utanumhaldi tónlistarstarfsins í Hallgrímskirkju auk kirkjuhaldara og kirkjuvarða. Björn Steinar Sólbergsson, organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju, Steinar Logi Helgason, kórstjóri og organisti og Sólbjörg Björnsdóttir tónleika- og kynningarstjóri.
Með tilkomu Klais orgelsins 1992 varð vendipunktur í tónlistarlífi kirkjunnar þar sem hægt var að bjóða uppá orgeltónleika á heimsmælikvarða.
Frá árinu 1993 hefur verið haldin alþjóðleg orgelhátíð í júlí og ágúst þar sem fram koma íslenskir og erlendir orgelleikarar.
Kórorgel kirkjunnar er 10 radda og smíðað af Th. Frobenius og Sønner Orgelbyggeri A/S í Lyngby í Danmörku og vígt í desember 1985. Orgelið þjónaði helgihaldi kirkjunnar allt þar til Klais orgelið va vígt í desember 1992. Á árinu 2024 var Frobenius kórorgelið endurbyggt og stækkað í 20 raddir. Þessi stækkun gjörbreytti hljóðfærinu og opnaði ótal nýja möguleika í tónleikahaldi kirkjunnar sem skipa henni sess meðal þekktustu kirkna Evrópu.
Klaisorgelið er við vesturgaflinn í Hallgrímskirkju. Það er notað við helgihald kirkjunnar auk þess sem það hefur hlotið almenna viðurkenningu sem frábært tónleikahljóðfæri. Það er einnig stærsta orgel á Íslandi. Það var vígt í desember 1992, smíðað af Johannes Klais orgelsmiðjunni í Bonn í Þýskalandi.
Frobenius kórorgelið í Hallgrímskirkju var byggt af Th. Frobenius og Sønner Orgelbyggeri A/S í Lyngby í Danmörku og vígt í desember 1985.
Kórorgelið var endurbyggt og stækkað í 20 raddir og vígt á hvítasunnudag 19. maí 2024.
Nánari upplýsingar um orgelin í Hallgrímskirkju má finna að baki þessarar smellu.
Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú tæplega 60 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Á síðustu tónleikum sínum, sem haldnir voru á pálmasunnudag, flutti hann til dæmis ný verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Finn Karlsson, auk eldri meistaraverka á borð við föstumótettur Francis Poulenc.
Kórinn hefur átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák og staðið með því fyrir flutningi á verkum eftir Bach, Telemann, Haydn og Mozart. Kór Hallgrímskirkju kom í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í október síðastliðnum á tónleikum sem helgaðir voru verkum Önnu Þorvaldsdóttur og hlutu mikið lof. Steinar Logi Helgason er stjórnandi kórsins.
Nýsköpun hefur alla tíð verið leiðarljós í tónlistarstarfi kirkjunnar. Fjöldi tónskálda hafa samið verk fyrirkirkjuna, ma. kórverk, orgelverk, en einnig stærri verk fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Má nefna að búið er að panta ný verk sem frumflutt verða í ár (2025) eftir Finn Karlsson, Arngerði Maríu Árnadóttur, Huga Guðmundsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Daníel Þorsteinsson, Báru Grímsdóttur og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur.
Gert er ráð fyrir að um 400 flytjendur komi fram á tónleikum á vegum Hallgrímskirkju það sem eftir lifir af árinu 2024 meðal annars; Kór Hallgrímskirkju, Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandið Brák, Umbra ensemble auk fjölda íslenskra og erlendra organista, söngvara og hljóðfæraleikara.
Hallgrímskirkja er oft kölluð þjóðarhelgidómurinn á Holtinu. Hún er staðurinn þar sem þjóðin safnast saman á við hin ýmsu tilefni, bæði í gleði og sorg. Hún er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins en áætlað er að um 20% ferðamanna sem koma til Íslands heimsæki kirkjuna. Hallgrímskirkja hefur sérstöðu af mörgum ástæðum. Sökum hönnunar hennar, staðsetningar og sem ein af höfuðkirkjum landsins.
Hallgrímskirkja er í senn, tilbeiðslustaður, ferðamannastaður og tónleikahús. Miklar væntingar eru gerðar til kirkjunnar sem tónleikastaðar og hafa tónleikagestir getað gengið að því sem vísu að tónlistarflutningur sé á hæsta gæðastigi þar sem fjölbreytt og glæsileg kirkjutónlist hljómar og fremstu tónlistarmenn koma fram. Hallgrímskirkja hefur síðustu árin lagt mikið upp úr því að þjóna þessu hlutverki sínu og teljum við að langtímastyrkur fyrir tónleikaflutning til þriggja ára muni efla tónlistarlífið og styðja kirkjuna til að blómstra og þroskast enn frekar sem þungamiðjustofnun í íslensku menningarlífi.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!