Fimmtudaginn 7. apríl síðastliðinn skrifaði Reykjavíkurborg undir samning við Hallgrímskirkju um að taka þátt í fjármögnun á innsetningu eftir Ólaf Elíasson sem ráðgert er að verði bæði á 8. og 9. hæð í turni kirkjunnar sem stundum eru nefndar útsýnishæðirnar. Reykjavíkurborg greiðir Hallgrímskirkju samtals 20 milljónir króna í styrk sem deilist niður á þrjú ár. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, skrifuðu undir samninginn.
Borgarstjóri sagði Hallgrímskirkju eitt helsta kennileiti borgarinnar og það væri bæði framsækið og djarft að listaverk yrði nú hluti af klukkuturninum. Það væri til marks um það mikla traust sem Ólafur Elíasson nyti og ætla mætti að verkið muni vekja jákvæða athygli innanlands sem utan, vekja fólk til umhugsunar og setja svip sinn á Skólavörðuholt og nágrenni.
Við athöfn í turninum gerði Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur, grein fyrir helstu dráttum í turnverki Ólafs Elíassonar sem ber vinnuheitið „Örláti regnboginn“. Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar, greindi einnig frá umfjöllum sem átt hefur sér stað um að tryggja hreyfihömluðum aðgang að efstu útsýnishæðinni. Stigi sem tengir 8. og 9. hæðina er bæði brattur og ógreiðfær fyrir fólk með skerta hreyfigetu.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, og Haraldur Þorleifsson, athafnamaður og forsprakki í Römpum upp Reykjavík, voru viðstödd athöfnina og kynntu sér meðal annars teikningar Andrésar Narfa Andréssonar, arkitekts, af hugsanlegum lausnum á aðgengismálum í turninum.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Þjóðkirkjan hafa einnig gefið vilyrði fyrir styrkjum vegna undirbúnings á uppsetningu verks Ólafs Elíassonar með líkum hætti og Reykjavíkurborg. ekh
Myndir úr Hallgrímskirkju 7. apríl eru að baki þessari vefslóð:
https://www.flickr.com/photos/56754544@N00/albums/72177720297938821