Á köldum klaka?
Ritningarlestur sem liggur til grundvallar hugvekju ( 5Mós 10.17-21)
Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.
Alvarleg áminning
Þetta eru strengileg áminningarorð til þjóðarinnar, þessarar litlu og fámennu þjóðar, nánast þjóðarbrots sem Guð hefur tekið í fóstur. Hann hefur fylgt henni eftir og gefið henni góð ráð og frelsað hana úr ánauð og gefið henni land að lifa á og rækta. Hann er sá mesti meðal Guða hann er Drottinn drottnanna. Hann er því ekki endilega sá eini en hann er sá sem lætur sér annt um okkur.
Nú er komin betri tíð en samt…
Það má geta sér þess til að þessi orð hafi ratað á blað þegar aðstæður þjóðarinnar voru orðnar betri en áður var, fólkið orðið öruggara um sig og kjör þeirra betri. Þá er talið mikilvægt að minna á að ekki hafi það alltaf verið þannig og það sé reyndar enn á meðal þeirra einstaklingar sem eigi erfitt. Hverjir eiga sérstaklega erfitt? Þarna er upptalin þrenning sem víða er að finna saman í textum biblíunnar. En það er munaðarleysinginn, ekkjan og aðkomumaðurinn. Hvað á þetta fólk sameiginlegt? Í samfélagi þessa tíma var ekkert félagslegt kerfi til staðar. Hið félagslega öryggisnet sem hélt utan um fólk var fjölskyldan, stórfjölskyldan og þar voru ýmsar skyldur. Þau sem féllu þar fyrir utan gátu því lent í erfiðleikum ef eitthvað bjátaði á.
Það þarf ekki djúpa hugsun til að sjá að þau sem þarna eru talin upp geti staðið höllum fæti. Kona sem varð ekkja, sérstaklega ef hún átti ekki börn gat lent á köldum klaka engum bar þannig beinlínis skylda til að hugsa um hennar kjör. Hið sama gilti um barn sem missti báða sína foreldra og sömuleiðis aðkomumaður sem engan þekkir í þessu landi hefur kannski hrakist þangað undan ofríki eða til að bjarga lífi sínu.
Hver er staðan í dag?
Þið megið ekki gleyma ykkar eigin fortíð segir Drottinn, leggið rækt við upprunann og gleymið heldur ekki að líf ykkar og góðar gjafir eru frá Guði komnar. Haldið ykkur fast við hann.
Þessi orð eru alls staðar sígild og eiga sannarlega við hér á landi í nútímanum. Það er ekki langt síðan þessi fámenna þjóð sem hér bjó, lifði að heita má öll við hungurmörk, það þurfti ekki nema óvenju harðan vetur og kalt vor til að bæði mennn og skepnur dæju í hundraða, jafnvel þúsundatali. Hið sama gilti ef hafísinn sigldi upp að ströndum landsins. Og lokaði lífsbjörg hafsins.
Og það er ekki langt síðan þetta var, langafar og langömmur þeirra sem nú eru á miðjum aldri þekktu þetta vel. Þekktu örbyrgðina. Þúsundir flýðu land í lok nítjándu aldar og fluttust til vesturheims.
Ástæðulaust að hreykja sér upp
Það er því ekki síður ástæða til þess fyrir okkur sem nú lifum hér á landi að minnast fortíðarinnar og ef við ætlum að vera með hroka og stærilæti vegna núverandi kjara okkar, að við minnumst þess að við erum öll komin af fólki sem fyrir örstuttu síðan lap dauðan úr skel, átti ekki málungi matar, skalf úr kulda í lélegum klæðum í hriplekum moldarkofum. Erlendir ferðamenn sem komu til landsins fylltust hryllingi yfir því sem þeir sáu.
Við getum en hvað viljum við
Okkur er því ekki síður þarft en hinni guðs útvöldu þjóð áður og fyrr að minnast sögu okkar og gefa gaum að þeim sem höllum fæti standa, sinna aðkomumanninum sem hingað er kominn um langan veg í leit að öryggi, oft með skelfilega reynslu í farteski sínu. Hann á engan að hér og er uppá okkur kominn nú. Í okkar aðstæðum í dag er fullkomin geta til að skapa umhverfi sem skilur engan eftir á köldum klaka. Spurningin er fremur: Höfum við vilja til að hlýða á sígild ráð heilagrar ritningar og leitast við að breyta eftir þeim?
Eiríkur Jóhannsson