ARVO PÄRT – STABAT MATER
Hildigunnur Rúnarsdóttir · Elín Gunnlaugsdóttir · Tryggvi M. Baldvinsson
Laugardagur 30. mars kl. 17
Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran
Guja Sandholt messósópran
Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór
Unnsteinn Árnason bassi
Hlíf Sigurjónsdóttir fiðla
Martin Frewer lágfiðla
Þórdís Gerður Jónsdóttir selló
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir stjórnandi
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 4.000 kr.
Stabat mater eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt (1935) er miðpunktur tónleikanna en það var samið árið 1985, að beiðni Alban Berg Foundation. Upphaflega skrifaði Pärt verkið fyrir þrjá einsöngvara og strengjatríó en síðar útsetti hann það einnig fyrir kór og hljómsveit. Tónlistin er samin við hina frægu Maríubæn sem er sennilega eftir miðaldamunkinn Jacopo da Todi (1230-1306) sem fjölmörg önnur tónskáld, til dæmis Vivaldi, Rossini, Haydn, Pergolesi og Dvořák hafa einnig tónsett. Textinn lýsir sorgum Maríu Guðsmóður er hún stendur við kross Jesú Krists og fylgist með þjáningum hans og dauða. Ljóðmælandinn biður um að fá að deila með henni byrðum þjáningarinnar og fá að lokum að dvelja í paradís.
Verkið er samið í mínímalíska tintinnabuli-stílnum sem Arvo Pärt þróaði og er frægur fyrir. Hægt er að þýða orðið tintinnabuli sem „litlar bjöllur“ og þó svo að reglur stílsins séu strangar, er útkoman einstaklega tær. Tónverk Arvo Pärts hafa farið sigurför um heiminn á undanförnum áratugum og hefur hann verið mest flutta núlifandi tónskáld heims um árabil.
Á tónleikunum er stutta kammerverkið, Es sang vor langen Jahren, eftir Pärt einnig flutt en það er fyrir rödd, fiðlu og víólu. Ljóðið er eftir þýsk-rómantíska skáldið Clemens Brentano (1778-1842) og fjallar um sársaukafulla þrá eftir horfnum ástvini. Önnur verk á efnisskránni eru sálmar og söngljóð eftir íslensk tónskáld sem hvert um sig kallast á einhvern hátt við þema Stabat mater og trúna.
Flytjendur:
Jóna G. Kolbrúnardóttir hóf söngnám sitt við Söngskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan vorið 2014 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur. Sumarið 2018 lauk hún bakkalárgráðu við Tónlistarháskólann í Vín. Hún útskrifaðist með meistaragráðu vorið 2021 frá Óperuakademíunni við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Helene Gjerris og Susanna Eken. Jóna hefur verið sýnileg í tónlistarlífinu hérlendis síðustu ár. Hún hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og með nokkrum helstu kórum landsins. Jóna hefur farið með tvö hlutverk hjá Íslensku óperunni; Grétu í Hans og Gréta og Önnu í Brothers eftir Daníel Bjarnason. Hún fór með hlutverk Papagenu í Töfraflautunni eftir Mozart við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn haustið 2020.
Jóna er einn af stofnendum Kammeróperunnar sem er nýstofnað óperufélag á Íslandi. Markmið hennar er að skapa vettvang fyrir smærri óperuverkefni. Jóna syngur einnig í Kammerkvartettnum á vegum félagsins. Hún söng hlutverk Despinu í sýningu Kammeróperunnar, Così fan tutte - Óperukvöldverður, og í desember sl. söng hún hlutverk Grétu í Ævintýraóperan Hans og Gréta í Tjarnarbíó í uppsetningu Kammeróperunnar.
Jóna hefur mikinn áhuga á ljóðasöng og þeim töfrum og innblæstri sem ljóðin færa henni bæði í undirbúningsvinnunni og í tónleikasalnum. Hún hefur haldið fjölda ljóðatónleika er alltaf að vinna að nýju efni í þeirri grein.
Þorsteinn Freyr Sigurðsson lauk mastersnámi í söng árið 2013 við Hanns Eisler í Berlín undir handleiðslu Prof. Scot Weir og eftir útskrift með Prof. Janet Williams, Jóni Þorsteinssyni og Hlín Pétursdóttur Behrens. Árið 2014 hóf Þorsteinn störf við Óperuhúsið Theater Ulm í Suður-Þýskalandi til ársins 2017 þar sem Þorsteinn söng fjölmörg aðalhlutverk. Síðan Þorsteinn flutti aftur til Íslands í byrjun árs 2017 hefur hann tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum. Þar má helst telja Spoletta í uppfærslu íslensku óperunnar af Tosca e. G. Puccini, ljóðaflokkinn Serenade no. 31 fyrir tenór og horn og nú svaninn í Carmina Burana með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg vorið 2023.
Þorsteinn er virkur meðlimur í ýmsum sönghópum þ.m.t. Schola Cantorum, Voces Mascolorum, kyrju og fleirum. Þorsteinn hefur stjórnað Drengjakór Reykjavíkur frá árinu 2019.
Unnsteinn Árnason hóf sinn tónlistarferil í Tónlistaskóla Mosfellsbæjar. Árið 2008 hóf hann nám við Söngskólann í Reykjavík, var fyrst undir leiðsögn Alexanders Ashworth og síðan Garðars Thórs Corters, Viðars Gunnarssonar og Krystynu Cortes píanóleikara. Árið 2012 fékk Unnsteinn styrk úr Menningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar og árið 2013 vann hann keppnina ,,Ungir Einleikarar“ og söng tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg, Hörpu. Á árunum 2013- 2017 stundaði Unnsteinn áframhaldandi söngnám við tónlistarháskólann í Vínarborg undir leiðsögn Karlheinz Hanser. Árið 2016 var Unnsteinn valinn til að taka þátt í “Young singers project” við eina mikilvægustu óperuhátíð í evrópu, Salzurger Festspiele .Unnsteinn varð síðan, að námi loknu, fastráðinn við Tiroler Landestheater í Innsbruck og starfaði þar til ársins 2021. Unnsteinn var valin efnilegasti ungi söngvarinn við Austurísku Tónlistarverðlaunin 2019 fyrir túlkun sína á Mr. Kofner í óperunni Der Konsul eftir Menotti. Á leikárinu 2021-2022 söng Unnsteinn Sarastro í Töfraflautunni í Innsbruck og hlutverkið Polyphem í Die Odyssee við óperuna í Zürich. Sumarið 2022 söng Unnsteinn við Bregenzer Festspiele, hlutverkin Comissario í Madame Butterfly og Walinoff/Governatore í Siberia eftir Umberto Giordano. Hann fór með hlutverk Guglielmos í Cosi fan tutte eftir í fyrstu uppfærslu Kammeróperunar í október 2022. Unnsteinn söng hlutverk Comissario í Madame Butterfly í uppfærslu Íslensku óperunnar 2023.
Guja Sandholt býr í Reykjavík og Amsterdam og starfar sem söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún komið fram á Íslandi, Hollandi, Englandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Eistlandi, Hong Kong og víðar. Nýlega söng hún hlutverk Leonore í uppfærslu Óperudaga á Fidelio-atlaga að óperu eftir Beethoven í leikgerð Bjarna Thors Kristinssonar; Juliu Child í Bon Appétit! eftir L. Hoiby og altsöngvara í leikgerð A. Hoex á Mattheusi unga. Sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á King Harald's Saga eftir Judith Weir á Reykholtshátíð og var í kjölfarið tilnefnd sem Söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.Guja hefur komið fram sem einsöngvari í óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Verdi, Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Arvo Pärt, Messías eftir Handel, Gloriu eftir Vivaldi og Messu í C eftir Beethoven. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum. Auk þess er hún í ljóðadúói með Heleen Vegter, ljóðapíanista. Á árunum 2011-2012 starfaði hún fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð.
Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama, Mozarteum-tónlistarháskólann og við Konservatoríið í Utrecht. Frá árinu 2017 hefur hún sótt einkatíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2021 með tvöfalda bakkalársgráðu í fiðluleik og söng með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Vorið 2023 lauk hún meistaranámi í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og vorið 2024 útskrifast hún úr Malko hljómsveitarstjóraakademíunni í Kaupmannahöfn. Ragnheiður söng og stjórnaði kammersveit (samtímis) á tónleikunum „Hvað syngur í stjórnandanum?“ á Óperudögum 2022 og frumflutti þrjú verk, samin fyrir tilefnið. Á Óperudögum 2023 söng hún verkið Kafka Fragments eftir Kurtág, ásamt fiðluleikaranum Rannveigu Mörtu Sarc.
Ragnheiður vann söngkeppnina Vox Domini 2022, söng einsöngshlutverkið í 4. sinfóníu Mahlers með Ungfóníunni í mars 2023 og söng og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar í maí 2023. Þá hefur hún stjórnað Barnastund Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sjónvarpsupptökum hljómsveitarinnar og strengjasveitarupptökum á nýjustu plötu Bjarkar, Fossora. Sem fiðluleikari hefur hún leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit MÍT, gegnt stöðu konsertmeistara helstu ungsveita landsins og leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur einnig lokið meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og unnið sem verkefnastjóri, t.d. fyrir Óperudaga. Ragnheiður var valin „bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.
Hlíf Bente Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Klettafjöllum Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York. Á námsárum sínum vann hún með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada. Haustið 2014 kom geisladiskurinn DIALOGUS út hjá MSR Classics í Bandaríkjunum með einleiksverkum í hennar flutningi, sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Maria Nockin, gagnrýnandi Fanfare Magazine, tilnefndi þann disk „CD of the year 2015“. Síðar endurútgaf sama útgáfufyrirtæki tvöfaldan geisladisk, frá árinu 2008, þar sem hún lék allar sónötur og partítur fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Hafa báðir þessir diskar hlotið mikið lof gagnrýnenda. Hlíf er annt um íslenska menningu og sögu klassískrar tónlistar á Íslandi og sá til dæmis um útgáfu geisladisks 2020 með fiðluleik Björns Ólafssonar úr fórum RÚV. Hún hefur staðið fyrir tónleikum þar sem leiknar voru gamlar sögulegar upptökur, sem að hennar undirlagi voru yfirfærðar og hljóðhreinsaðar af þessu tilefni. Hlíf hefur verið umsjónarmaður Sumartónleika Listasafns Sigurjóns frá upphafi.
Martin Frewer fiðluleikari og stærðfræðingur fæddist á Englandi. Eftir útskrift frá Oxford stundaði hann framhaldsnám í fiðluleik við Guildhall School of Music & Drama.
Árið 1983 var Martin ráðinn til starfa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, síðan þá hefur hann tekið virkan þátt í tónlistarflutningi hér á landi.
Martin er laginn útsetjari. Hann leikur með og heldur utan um strengjasveitina Spiccato.
Þórdís Gerður Jónsdóttir er sellóleikari sem hefur þá sérstöðu að leika jöfnum höndum sígilda tónlist og jazz. Sígildan sellóleik nam hún við Listaháskóla Íslands á árunum 2014-2017 og í konunglega danska konservatoríinu í Árósum, en þaðan lauk hún meistaragráðu sumarið 2021. Þórdís lauk burtfararprófi frá jazzdeild Tónlistarskóla FÍH vorið 2015 en í náminu lagði hún áherslu á spuna og tónsmíðar. Þórdís er ásamt Sigrúnu Harðardóttur stofnmeðlimur kammerhópsins Caudu Collective en í starfi hópsins er lögð áhersla á skapandi hlutverk flytjandans. Þórdís hefur leikið reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2018, hún var fastráðin þar veturinn 2021-2022, og hefur verið í leikhúshljómsveitum við Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið. Hún gaf út hljómplötuna Vistir með hennar eigin jazz-tónsmíðum og útsetningum vorið 2021. Síðustu misseri hefur Þórdís hefur lagt sérstaka áherslu á að frumflytja á Íslandi sjaldheyrð eldri erlend verk, sem dæmi frumflutti hún á Íslandi 100 ára sónötu fyrir selló og píanó eftir Kurt Weill, ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2020 og í maí 2023 frumflutti hún á Íslandi þrjár svítur eftir Ernest Bloch. Vorið 2014 lauk Þórdís námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og viðbótardiplómu í lýðheilsuvísindum vorið 2019. Hún er nú í meistaranámi í barnahjúkrun og starfar á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins á milli tónleika.
HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!