Johann Sebastian Bach (1685 - 1750)
Johann Sebastian Bach fæddist inn í fjölskyldu sem ól af sér 53 vel þekkta tónlistarmenn í sjö kynslóðum. Jóhann hinn ungi lærði fyrst af föður sínum en þegar hann lést flutti hann til bróður síns sem var organisti og hélt námi sínu áfram hjá honum. Á þeim tíma sem Bach var uppi voru tónlistarmenn raunverulega verkamenn, þ.e.a.s. þeir skrifuðu tónverk eftir pöntunum og eftir því hvaða stöðu þeir gegndu. Bach var t.d hirðorganisti í Weimar og á þeim tíma samdi hann helstu orgelverk sín. Einnig má geta þess að hinir frægu Brandenburg konsertar voru samdir fyrir markgreifann af Brandenburg. Lengsta og mikilvægasta staða sem Bach gegndi var sem kantor við kirkju Sankti Tómasar við Leipzig og á því tímabili skrifaði hann megnið af allri kirkjutónlistinni sem í dag er afar vel þekkt. Hins vegar var hann ekki sérlega ánægður með þá stöðu, því mestur tími hans fór í að kenna, spila við messur, syngja við jarðarfarir og sinna öðrum hlutum sem staðan krafðist af honum. Það þýddi að hann hafði nánast engan tíma til að semja tónlist og féll honum það illa í geð. Auk þess var hann ekki góður kennari og átti í basli með að hemja piltanna í skólanum. Þrátt fyrir það samdi hann 295 kantötur á þeim 27 árum sem hann bjó í Leipzig. Hann giftist tvisvar á lífsleiðinni og eignaðist alls 20 börn. Síðustu árin var hann orðinn mjög sjóndapur og alveg blindur síðasta æviárið og lést svo 1750 í kjölfarið á misheppnaðri augnaðgerð sem átti að færa honum sjónina aftur.
Það sem gerði Bach að einstöku tónskáldi var sá hæfileiki hans að geta samið tónlist í sérhverjum af þeim mörgu stílum sem tíðkuðust á Barrok tímabilinu. Það var annars vegar vegna þess að hann sinnti um ævina ólíkum stöðum sem kröfðust ólíkrar tónlistar og hins vegar vegna þess hversu duglegur hann var við að læra og grandskoða alla þá tónlist sem hann komst í. Alla ævi gleypti hann í sig tónlist samtímamanna sinna og með því að liggja yfir þessum verkum (og oft útsetja verkin upp á nýtt fyrir önnur hljóðfæri), öðlaðist hann mikla yfirsýn á hinum ýmsu þjóðlegu og persónulegu stílum samtímans. Alla ævi fléttaði hann þessar hugmyndir við sinn eigin persónulega stíl.
Hitt er annað mál að á meðan Bach lifði var hann best þekktur fyrir að vera fremsti organisti Þýskalands og harpsíkordleikari, enda spilaði hann mikið og víða framanaf ævi sinni. Almenningur á þessum tíma kunni hinsvegar ekki að meta tónlist hans; þeim fannst hún gamaldags og vildi heldur heyra tónverk minni spámanna sem þá voru í tísku en eru nú flest fallin í gleymskunnar dá. Það var ekki fyrr en 80 árum eftir dauða Bachs að rykið var blásið af verkum hans og farið að flytja þau á ný og fljótlega uppúr miðri 19.öld var hann settur á þann stall sem honum bar: sem einn mesti snillingur tónlistarsögunnar.
Textinn er af síðunni www.tonmennt.com
Barokkbandið Brák hefur á undanförnum árum skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi. Hópinn skipa hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í upprunaflutningi á tónlist barokktímabilsins og vilja nýta þessa þekkingu til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Bandið var stofnað árið 2014 af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur og hefur síðan staðið fyrir fjölda tónleika í Reykjavík og víðar. Brák fær reglulega til liðs við sig íslenska jafnt sem erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða tónlist barokk- og endurreisnartímans nýju lífi. Þá hefur bandið einnig haft það að leiðarljósi að efla nýja tónsköpun fyrir upprunahljóðfæri með því að frumflytja reglulega verk eftir íslensk samtímatónskáld.
Brák hefur hlotið góðar viðtökur jafnt áheyrenda og gagnrýnenda og verið lofuð fyrir líflegan og fjölbreyttan tónlistarflutning. Hópurinn hefur margsinnis verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki sígildrar og samtímatónlistar, ýmist sem Tónlistarflytjandi ársins eða fyrir Tónlistarviðburð ársins. Brák hreppti verðlaunin fyrir tónleikana Brák og Bach sem fram fóru í Eldborgarsal Hörpu í september 2020.
Alfia Bakieva, konsertmeistari er Tatari og stundaði nám við tónlistarskóla í Novosíbírsk áður en hún hélt til Salzburgar þar sem hún lagði stund á barokkfiðluleik hjá Enrico Onofri og Hiro Kurosaki við Mozarteum tónlistarháskólann. Hún leikur á ýmis önnur hljóðfæri auk fiðlunnar og er einn stofnenda þjóðlagasveitarinnar Ekiyat. Bakieva hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, til dæmis fékk hún Günter Bobel verðlaunin „Addicted to Bach“ í Weimar í fyrra. Hún kemur fram sem leiðari og einleikari með ýmsum hljómsveitum svo sem Musica Aeterna, Il Pomo d’Oro, Ensemble Hemiolia, Concerto Scirocco, Cappella Mediterranea, Dresden Festspiel Orchester og Le Concert des Nations. Hún hljóðritaði Árstíðir Vivaldis með síðastnefndu hljómsveitinni undir stjórn Jordi Savall og kom platan út nýlega á vegum Alia Vox. Bakieva leikur á fiðlu sem Francesco Rugeri smíðaði árið 1680 í Cremona.
Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú um 60 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Á síðasta starfsári flutti hann til dæmis ný verk eftir Báru Grímsdóttur, Finn Karlsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Kórinn hefur átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák og staðið með því fyrir flutningi á verkum eftir Bach, Telemann, Haydn og Mozart. Kór Hallgrímskirkju kom í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í október í fyrra, á tónleikum sem helgaðir voru verkum Önnu Þorvaldsdóttur og hlutu mikið lof. Steinar Logi Helgason er stjórnandi kórsins.
Steinar Logi Helgason lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja Tónlistarskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og tók þar kirkjuorganistapróf en lauk síðar bakkalárgráðu af kirkjutónlistarbraut Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði stjórnandanám til meistaraprófs við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan í lok árs 2020. Hann hefur stjórnað fjölda kóra og starfað víða sem organisti, píanóleikari og stjórnandi. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2021 ásamt Cantoque Ensemble sem tónlistarhópur ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Steinar Logi tók við stöðu kórstjóra Hallgrímskirkju haustið 2021.
Harpa Ósk Björnsdóttir er fædd og uppalin í Kópavogi. Hún hóf nýlega störf sem einsöngvari við Theater Basel í Sviss, þar sem hún syngur í vetur hlutverk Woglinde í Niflungahring Wagners, Frasquitu í Carmen eftir Bizet, Füchslein í Das schlaue Füchslein eftir Janáček og Rapunzel í Into the Woods eftir Sondheim. Fyrr á árinu lauk hún meistaranámi við óperudeild bæverska leiklistarháskólans August Everding, við Prinzregententheater-óperuhúsið og Tónlistarháskólann í München, en áður nam hún við Tónlistarháskólann í Leipzig. Harpa hóf ung að læra söng í Langholtskirkju hjá Þóru Björnsdóttur, því næst við Söngskólann í Reykjavík og síðan í Listaháskóla Íslands hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur og Kristni Sigmundssyni. Hún þreytti frumraun sína með Íslensku óperunni árið 2019 í hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart en síðan hefur hún meðal annars sungið við óperurnar í Leipzig, Halle og Grimma og við Prinzregententheater München. Hún var einn sigurvegara í keppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ, Ungir einleikarar, og hún hlaut titilinn „Rödd ársins“ í keppninni Vox Domini. Fyrr á þessu ári komst Harpa í úrslit alþjóðlegu Wilhelm Stenhammar keppninnar í Norrköping í Svíþjóð.
Halldór Bjarki Arnarson stundaði nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og hlaut síðar tvær bakkalárgráður, eina í hornleik og aðra í semballeik frá tónlistarháskólunum í Hannover og Den Haag. Halldór lauk meistaranámi í semballeik árið 2022 frá Schola Cantorum Basiliensis í Sviss og hlaut fyrir lokatónleika sína námsverðlaun úr sjóði Walters & Corinu Christen-Marchal. Í kjölfarið lagði hann stund á nám í sögulegum spuna á sembal og orgel við sama skóla. Í ár tók hann við stöðu organista við Kirkju heilags anda í Suhr, Sviss. Halldór er fastamaður í tónlistarhópnum Amaconsort sem hreppti fyrstu verðlaun í hinni virtu Van Wassenaer keppni í Utrecht sumarið 2021. Íslenskir tónleikagestir þekkja hópinn frá Sumartónleikum í Skálholti, 15:15 í Breiðholtskirkju og Reykjavík Early Music Festival 2024. Halldór spilar einnig með Ensemble histoire future í verkefninu Musica Transalpina sem rannsakar tengingu tónlistar og náttúrulífs í Ölpunum. Hann hefur komið fram á virtum tónlistarhátíðum, svo sem Luzern Festival, Amsterdam Grachtenfestival, Laus Polyphoniae Antwerpen og FIAS Madrid. Halldór stígur reglulega á svið á Íslandi og hefur m.a. haldið einleikstónleika í Hörpu og í Salnum í Kópavogi auk þess að spila með Barokkbandinu Brák, Kammersveit Reykjavíkur og Kammeróperunni svo eitthvað sé nefnt.
Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið BA-prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands þar sem hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur hefur verið áberandi á vettvangi kirkjutónlistar og m.a. farið með einsöngshlutverk í Messíasi og Júdasi Makkabeusi eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríunni eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hún hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokkbandinu Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka svo sem eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir söng ársins í flokknum sígild og samtímatónlist.
Bragi Bergþórsson er fæddur árið 1981 í Reykjavík. Hann hóf ungur tónlistarnám á fiðlu og píanó en söng í fyrsta skipti á sviði í barnakór í óperunni Othello í Íslensku óperunni árið 1992. Hann söng einnig með Hamrahlíðarkórnum en sneri sér að söngnámi árið 2002 í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Þórunni Guðmundsdóttur. Árið 2004 hélt hann til Lundúna þar sem hann stundaði nám hjá Rudolf Piernay við Guildhall School of Music and Drama. Þar hlaut hann meistaragráðu árið 2005 og lauk síðan námi frá óperudeild skólans sumarið 2007. Að loknu einkanámi í Berlín var hann fastráðinn sem lýrískur tenór hjá óperuhúsinu í Stralsund (Theater Vorpommern) og starfaði þar á árunum 2011–2015. Bragi hefur á fjölbreyttum ferli tekið þátt í fjölda uppsetninga á óperum og óperettum en einnig sem einsöngvari í kórverkum.
Fjölnir Ólafsson hóf nám í klassískum gítarleik tíu ára gamall en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus-gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014. Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika, hérlendis og erlendis. Hann hefur sungið einsöngshlutverk í mörgum óratoríum, svo sem í Messíasi og Júdasi Makkabeusi eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu Bachs, og í sálumessum Brahms og Faurés. Þá hefur Fjölnir komið að frumflutningi nýrrar tónlistar, auk þess sem hann hefur lagt mikla rækt við ljóðasöng. Á óperusviðinu hefur hann farið með mörg hlutverk, m.a. við Saarländische Staatstheater og hjá Íslensku óperunni. Fjölnir hefur þrívegis unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum og hann var valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2013.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!