Hádegistónleikar - Erla Rut Káradóttir, organisti og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran

HÁDEGISTÓNLEIKAR 
Laugardagur 6. apríl kl. 12

Erla Rut Káradóttir orgel
Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran

Aðgangseyrir 2.500 kr.

Erla Rut Káradóttir stundaði frá unga aldri nám í suzuki söng í Suzukitónlistarskólanum og píanóleik hjá Önnu Þorgrímsdóttur í Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Síðar hóf nún nám í orgelleik og hefur lokið kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og BA-gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020 þar sem aðalkennari hennar var Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju.
Hún starfar sem organisti Háteigskirkju og er stjórnandi kóra kirkjunnar, Kordíu og Perlukórsins. Auk þess hefur hún stjórnað sönghópnum Hljómeyki frá árinu 2022 og komið fram með Hljómeyki m.a. á Myrkum músíkdögum og Reykholtshátíð.
Erla kemur reglulega fram sem meðleikari, sérstaklega með kórum og barnakórum, og tekur þátt í kammerverkefnum. Hún hefur haldið tónleika á orgelsumri í Hallgrímskirkju og tekið þátt í ýmsum samspilsverkefnum sem orgelleikari. Auk þessa hefur hún lokið BA-gráðu í mannfræði.

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópransöngkona, lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og hélt svo áfram námi í Amsterdam þar sem hún lauk mastersprófi í óperusöng árið 2015.
Hrafnhildur hefur á undanförnum árum sungið á fjölda tónleika og tónlistarhátíða hérlendis, m.a. á Óperudögum í Reykjavík, með Sinfóníuhljómsveit Íslands við ýmis tækifæri, á Reykholtshátíð, Músík í Mývatnssveit, Listahátíð í Reykjavík, Sumartónleikum í Sigurjónssafni, Kammermúsíkklúbbnum og Sönghátíð í Hafnarborg. Einnig hefur hún komið fram með Íslensku óperunni í La Traviata árin 2019 og 2021 og sem einsöngvari á tónleikum Karlakórs Reykjavíkur, Samkórs Kópavogs og Domus Vox. Í Hollandi kom hún reglulega fram á tónleikum og í óperusýningum á árunum 2014 - 2018 en þar má meðal annars nefna hlutverk Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós, Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir Mozart, Echo í Ariadne auf Naxos eftir R. Strauss, Thérèse í Les Mamelles de Tirésias eftir Poulenc og Alcina úr samnefndri óperu Händels. Hrafnhildur hefur sungið Vier letzte Lieder eftir R. Strauss með nokkrum hljómsveitum og einnig sungið fjölda kirkjutónverka eins og t.d. Gloria eftir Poulenc, Requiem eftir Mozart, Jólaóratoríu og Mattheusarpassíu eftir J. S. Bach, Petite Messe Solennelle eftir Rossini og Stabat Mater eftir Pergolesi.
Hrafnhildur stjórnaði kvennakórnum Vox feminae árin 2019 - 2022 og Borgarkórnum á árunum 2020-2022.

HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR!