HALLGRÍMSHORFUR
8. september til 24. nóvember 2024
Hallgrímshorfur er myndlistarsýnig á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur, sem fædd er árið 1984. Í þeim túlkar hún arfleifð 17. aldar listamannsins Hallgríms Péturssonar og vitnar meðal annars í kunna sálma hans og líf. Hann beitti áhrifamiklu orðafari en hún fangar augnablik í ljósmynd. Báðir listamennirnir tjá sterkar tilfinningar með mennskri hlýju, kímni og alvöru, túlka ástina, sorgina, andlega upphafningu og hversdagslega tilveru.
Á sex ljósmyndarenningum í fordyrinu sýnir Hallgerður okkur leiftur frá kirkjustöðum sem tengjast Hallgrími en kirkjurnar eru síðari tíma byggingar. Myndirnar eru frá fæðingarstað hans Gröf á Höfðaströnd, Hólakirkju í Hjaltadal þar sem hann ólst upp, frá kirkjunum sem hann vígðist til, fyrst Hvalsneskirkju á Hvalsnesi og síðar Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Einnig ljósmyndir frá kirkju sem reist var að Saurbæ en er nú í Vindáshlíð í Kjós og frá Hallgrímskirkju sem reist var Hallgrími til heiðurs og er nú umgjörð sýningarinnar.
Þegar gengið er inn í kirkjuna er sjónum og hugsunum beint upp á við. Þar hanga loftkennd tjöld með áprentuðum ljósmyndum Hallgerðar, tákn andrýmis innan kirkjunnar, listarinnar og alheimsins. Á hliðarveggjum í augnhæð eru innrömmuð ljósmyndapör sem leiða hugann inn á við. Myndirnar túlka tilvistarlegar vangaveltur jarðlífsins og tilfinningalegar áskoranir. Hallgerður speglar sjálfa sig í Hallgrími og áhorfendur sig sjálfa í verkunum.
Í kór kirkjunnar er sjónum beint út og hugurinn reikar fram og tilbaka í tíma, til fortíðar, nútíðar og framtíðar. Í fjórum af fimm gluggum eru filmur með myndum af útsýni frá kirkjustöðunum fjórum sem Hallgrímur tengdist.
Miðjuglugginn er hreinn og út um hann má sjá það sem blasir við fyrir utan Hallgrímskirkju. Saman við Skólavörðuholtið rennur landslag Skagafjarðar, Reykjaness og Hvalfjarðar. Útsýni Hallgríms, er fært inn í okkar stað og stund til íhugunar.
Inga Jónsdóttir, sýningarstjóri
HALLGRÍMUR PÉTURSSON 1614–1674
Hallgrímur er þekktasta sálmaskáld Íslands, en hann orti einnig mikið af veraldlegum vísum og ljóðum um sína daga. Kunnastur er hann fyrir Passíusálmana fimmtíu um pínu Jesú Krists og dauða. Þeir hafa verið íslensku þjóðinni hjartfólgnari en nokkurt annað skáldverk, verið gefnir út meira en hundrað sinnum, oftar en nokkur önnur íslensk bók og þýddir á fjölda erlendra tungumála. Árlega eru Passíusálmarnir lesnir í Ríkisútvarpinu á föstunni og fluttir í mörgum kirkjum á föstudaginn langa. Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni og er á heimsminjaskrá UNESCO. Einlægni, trúarþel, djúp viska, orðkynngi og málsnilld eru aðalsmerki Passíusálmanna. Óháð trú og lífsskoðunum hefur fólk hrifist af þeim og notið þeirra. Enn þann dag í dag sækja listamenn innblástur í þá og önnur verk Hallgríms. Slík verk eru oft að sjá og heyra í Hallgrímskirkju í dagskrám sem helgaðar eru minningu Hallgríms Péturssonar. Í tilefni 350 ára ártíðar hans er í ár efnt til ýmissa viðburða, þar á meðal Hallgrímshátíðar dagana 20.–27. október.
HALLGERÐUR HALLGRÍMSDÓTTIR f. 1984
Myndlist Hallgerðar vakti snemma verðskuldaða athygli og í framhaldinu hafa henni boðist ýmis áhugaverð tækifæri til að sýna verk sín. Hún lauk MA gráðu í myndlist frá Valand listaháskólanum í Gautaborg og hafði áður lokið námi frá listaháskólanum í Glasgow með áherslu á ljósmyndun. Auk þess að fást við eigin sköpun hefur Hallgerður einnig sýnt færni í sýningarstjórnun og ritun.
Hallgerður er mjög meðvituð um sögu ljósmyndunar, eiginleika hennar sem miðils og tækifærin sem felast í tækninni. Af tilfinninganæmi, látleysi og einlægni fangar hún augnablik með ljósmyndinni og útfærir á einstakan hátt. Á sýningunni Hallgrímshorfur veitir hún áhorfendum aðgang að persónulegum hugleiðingum um líf og list tveggja einstaklinga ólíkra tímaskeiða, en 370 ár aðskilja Hallgrím Pétursson og Hallgerði Hallgrímsdóttur.
Fleiri upplýsingar um listakonuna má finna á heimasíðunni hennar: https://hallgerdur.com/
HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR!