Hallgrímspassía

Hallgrímspassía Sigurðar Sævarssonar.
Flytjendur eru Kór Hallgrímskirkju og Kammersveit Reykjavíkur, með Unu Sveinbjarnardóttur, konsertmeistara ásamt einsöngvurum.
Steinar Logi Helgason stjórnar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel.

Einsöngvarar:
Jóhann Smári Sævarsson, Hallgrímur
Fjölnir Ólafsson, Jesú
Stefán Sigurjónsson, Pílatus
Þorsteinn Freyr Sigurðsson, Júdas
Hildigunnur Einarsdóttir, Mezzosópran
Þorbjörn Rúnarsson, Kaífas

Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 5.400 kr.

Hallgrímspassía er 75 mínútna óratoría samin árið 2007 af íslenska tónskáldinu Sigurði Sævarssyni.

Hallgrímur Pétursson 1614–1674
Hallgrímur er þekktasta sálmaskáld Íslands, en hann orti einnig mikið af veraldlegum ljóðum og vísum. Passíusálmarnir, hans helsta verk, hafa verið gefnir út oftar en nokkur önnur íslensk bók og þýddir á fjölda erlendra tungumála. Óháð trú og lífsskoðunum hefur fólk hrifist af þeim og notið þeirra. Enn þann dag í dag veita þeir ólíkum listamönnum innblástur til frekari sköpunar. Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni.

Hallgrímur er talinn fæddur á bæ afa síns og ömmu í Gröf á Höfðaströnd. Hann fluttist þaðan á biskupssetrið að Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans þjónaði sem hringjari. Hallgrímur gekk um hríð í Hólaskóla en fór ungur að heiman til Glückstad (nú í Norður-Þýskalandi) og þaðan til Kaupmannahafnar. Þar lærði hann í fyrstu til járnsmiðs en Brynjólfur Sveinsson, þá konrektor í Hróarskeldu, kom honum í Frúarskóla. Þegar Hallgrímur var á síðasta ári í náminu var hann fenginn til að hafa umsjón með hópi Íslendinga sem kominn var til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið leystur úr margra ára ánauð í Alsír. Hátt í 400 Íslendingar voru herleiddir í Tyrkjaráninu svokallaða 1627 en aðeins um tíundi hluti þeirra átti afturkvæmt til Íslands. Meðal hinna útleystu var Guðríður Símonardóttir (1598–1682). Milli Hallgríms og hennar tókust ástir og fljótlega var Guðríður orðin barnshafandi. Í kjölfarið sigldu þau til Íslands án þess að Hallgrímur næði að ljúka námi. Í nokkur ár bjuggu þau við sára fátækt á Suðurnesjum uns Brynjólfur, sem þá var orðinn Skálholtsbiskup, tók aftur til sinna ráða og vígði Hallgrím til prests í Hvalsnesi árið 1644. Það ögraði sumum að snauðum manninum væri þannig lyft upp í raðir embættismanna, en með visku sinni, trú og ræðusnilld náði Hallgrímur að sýna hvað í honum bjó. Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem var gott brauð á þeirrar tíðar mælikvarða. Þar blómstraði Hallgrímur og orti flest af því sem hann er kunnastur fyrir.

Þeim Guðríði fæddust nokkur börn en þó náði aðeins frumburðurinn Eyjólfur fullorðinsaldri, giftist og eignaðist afkomendur. Steinunn dóttir þeirra lést á fjórða ári og það var Hallgrími mikill harmur eins og lesa má í ljóðum sem hann orti eftir barnið. Þekktur er einnig steinn sem hann hjó nafn hennar í og er nú varðveittur í Hvalsneskirkju.
Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti var reist til að heiðra minningu Hallgríms Péturssonar og er stærsta kirkja á Íslandi. Hún er metnaðarfullur menningar- vettvangur hvort heldur innan hefðbundinna kirkjuathafna eða listrænna viðburða.

Hallgrímspassía var frumflutt í Hallgrímskirkju árið 2007 af kammerkórnum Schola Cantorum og Caput hópnum undir stjórn Harðar Áskelssonar og fór Jóhann Smári Sævarsson með hlutverk Hallgríms. Passían var flutt aftur árið 2010 af sömu flytjendum og hljóðrituð það ár. Útgáfan var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta platan í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Sigurður Sævarsson
tónskáld

Sigurður Sævarsson stundaði söngnám við Tónlistarskóla Keflavíkur hjá Árna Sighvatssyni. Þaðan lá leiðin í Nýja tónlistarskólann þar sem kennarar hans voru Sigurður Demetz Franzson og Alina Dubik. Árið 1994 hóf Sigurður söng- og tónsmíðanám við Boston University og lauk þaðan mastersgráðu í báðum greinum 1997. Við komuna heim hóf hann störf við kennslu þar til hann var ráðinn skólastjóri Nýja tónlistarskólans. Helstu viðfangsefni Sigurðar í tónsmíðunum hafa tengst mannsröddinni. Hann hefur samið fjölda kórverka, allt frá stuttum a cappella verkum yfir í óratoríur. Mörg þeirra hafa verið gefin út á plötu. Má þar nefna Hallgrímspassíu. Upptakan var tilnefnd sem besta platan í flokki klassískrar og samtímatónlistar. Árið 2022 kom út plata frá Harmonia Mundi útgáfunni þar sem flutt voru Requiem, Magnificat og Nunc dimittis eftir Sigurð. Platan fékk lofsamlega dóma gagnrýnanda, fékk meðal annars fimm stjörnur frá Freya Parr gagnrýnanda BBC Music Magazine. Rick Anderson hjá AllMusic endar gagnrýni sína: And I simply can't praise Sævarsson's Requiem setting highly enough; although the piece is thoroughly modern, it nevertheless invokes a timeless sense of reverence, regret, and devotion. A must-have for all library collections.

Kór Hallgrímskirkju

Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú tæplega 60 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Á síðustu tónleikum sínum, sem haldnir voru á pálmasunnudag, flutti hann til dæmis ný verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Finn Karlsson, auk eldri meistaraverka á borð við föstumótettur Francis Poulenc.

Kórinn hefur átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák og staðið með því fyrir flutningi á verkum eftir Bach, Telemann, Haydn og Mozart. Kór Hallgrímskirkju kom í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í október síðastliðnum á tónleikum sem helgaðir voru verkum Önnu Þorvaldsdóttur og hlutu mikið lof. Steinar Logi Helgason er stjórnandi kórsins.

 

Kammersveit Reykjavíkur

 

Una Sveinbjarnardóttir
konsertmeistari

 

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur ásamt 12 hljóðfæraleikurum, sem flestir voru nýkomnir heim frá námi erlendis og störfuðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Óhætt er að fullyrða Kammersveitin hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan.
 
Kammersveit Reykjavíkur kemur fram í misstórum hópum, allt frá 3 til 35 manns, en stærð hópsins ræðst af þörfum tónverkanna hverju sinni. Meðlimir Kammersveitarinnar eru virkir þátttakendur í tónlistarlífi Íslendinga enda meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum öðrum hljómsveitum auk þess að stunda tónlistarkennslu. Enn hafa þeir að leiðarljósi það takmark að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að leyfa áheyrendum að hlýða á fyrsta flokks flutning tónbókmennta frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Markmið stofnenda Kammersveitarinnar eru því jafn mikið í gildi í dag og þau voru fyrir þremur áratugum.
 
Kammersveitin er kunn fyrir fjölbreytt verkefnaval og góðan flutning. Hún hefur frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka sem samin hafa verið fyrir hana og ennfremur staðið fyrir íslenskum frumflutningi þekkra erlendra verka, þ.á.m. Pierrot Lunaire, Serenöðu, Kammersinfóníu nr. 1 og fleiri verka eftir Arnold Schönberg, Kvartetts um endalok tímans og Des Canyons aux Étoiles eftir Olivier Messiaen, Façade eftir William Walton, Fratres, Te Deum og fleiri verk Arvo Pärts.
 
Kammersveitin hefur fengið ýmsa þekkta stjórnendur til liðs við sig. Einkum hefur hún unnið náið með Paul Zukofsky, Reinhard Goebel, Jaap Schröder og Vladimir Ashkenazy píanóleikara og stjórnanda. Starfsemi Kammersveitar Reykjavíkur rúmar jafnt tónleikahald innanlands sem utan og einnig upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur leikið á fjölmörgum tónlistarhátíðum erlendis. Kammersveit Reykjavíkur hefur komið fram fyrir Íslands hönd við fjölmörg tækifæri erlendis, t.d. á heimssýningunum í Lissabon 1998 og í Hannover árið 2000, sem og við opnun sendiráðs Íslands í Tokyo. Í maí 2003 fór Kammersveitin í tónleikaferð til Belgíu og Rússlands í boði Vladimirs Ashkenazys, þar sem hann kom fram bæði sem einleikari og stjórnandi. Í október 2004 flutti Kammersveitin efnisskrá með íslenskum verkum á Íslenskum menningardögum í París, Islande de glace et de feu.
Kammersveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2004 fyrir geisladiska sína með Brandenborgarkonsertum Johanns Sebastians Bachs, þar sem Jaap Schröder leiddi hljómsveitina.
 
Á undanförnum árum hefur Kammersveit Reykjavíkur lagt áherslu á upptöku og útgáfu þeirra fjölmörgu tónverka sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana. Ætlunin er að geisladiskarnir endurspegli þá listrænu samvinnu sem Kammersveitin hefur átt við helstu listamenn landsins í gegnum tíðina.
 
Í árslok 2009 tók Rut Ingólfsdóttir þá ákvörðun að stíga til hliðar sem konsertmeistari og framkvæmdarstjóri Kammersveitarinnar og láta stjórnina í hendur nýrri kynslóð tónlistarfólks.
Una Sveinbjarnardóttir er nú konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur.

Heiðursforseti: Rut Ingólfsdóttir
Umsjónarmaður útgáfu: Rut Ingólfsdóttir
Verkefnastjórn/Verkefnavalsnefnd: Áshildur Haraldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Matthías Birgir Nardeau, Richard Korn, Rúnar Óskarssonog Una Sveinbjarnardóttir

Una er fiðluleikari og tónskáld. Hún hefur unnið með Björk, Jóhanni Jóhannssyni og Atla Heimi Sveinssyni auk fjölda annarra listamanna. Una er stofnfélagi Siggi String Quartet og eigin tónsmíðar heyrast á öllum hennar plötum. Sem einleikari og í samstarfsverkefnum og sem konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og SÍ leggur hún áherslu á flutning nýrrar tónlistar, sinnar og annarra. Hún sækir hugmyndir í tungumál og ljóð, hrynjandi og hreyfingu orða og setninga sem svo sameinast andrúmsloftinu. Verk hennar eru mínímalísk en samt ekki.
www.unasmusic.com

Jóhann Smári Sævarsson
bassi

Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London.

Að námi loknu réði Jóhann Smári sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu: Köln, Bonn, Nürnberg, Saarbrücken, Würzburg, Regensburg, Kaiserslautern, Passau, Berlinar Fílharmoníuna, Prag, Bregenz, Glyndbourn, Royal Albert Hall, Sadlers Wells Theater í London, Dublin Grand Opera, Scottish Opera, Borgarleikhúsið í Reykjavík, Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna. Hann hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum, meðal annarra Bernard Haitink, Kent Nagano, James Conlon og Gennadi Rozhdestvensky, og þekktum hljómsveitum á borð við London Philharmonic, BBC Concert Orchestra, Gurzenich Orchester, Berliner Sinfonie og WDR útvarpshljómsveitina í Köln. Jóhann hefur sungið óperuhlutverk í 85 óperuuppfærslum á ferlinum. Meðal verka á tónleikum eru Requiem Verdis, Requiem Mozarts, 9. sinfónía Beethovens, 8. sinfónía Mahlers og Sköpunin eftir Haydn.

Jóhann hefur haldið ljóðatónleika hérlendis og erlendis. Jóhann Smári var tilnefndur sem rödd ársins 2010 til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir söng sinn í Vetrarferðinni og sem Hallgrímur í Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar með Schola Cantorum og Caput hópnum undir stjórn Harðar Áskelssonar. Árið 2008 hlaut Jóhann starfslaun listamanna í eitt ár og nú 2023 í 6 mánuði. Jóhann Smári er kórstjóri Karlakórs Keflavíkur, Söngsveitarinnar Víkingar og Hátíðarkórs Norðuróps. Jóhann hefur verið virkur í Íslensku sönglífi frá því hann kom heim 2008, sungið mörg hlutverk í Íslensku óperunni, sungið einsöng með Kammersveit Reykjavíkur, Caput hópnum, óperukórnum í Reykjavík, Háskólakórnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og á Listahátíð svo eitthvað sé nefnt. Sem stjórnandi hefur Jóhann Smári stýrt fluttningi á óperunum „Cunning litle Vixen“ og „Brúðkaupi Figarós“ Þá stjórnaði Jóhann flutningi á Mozart Requiem 2022 og Verdi Requiem 2023 með Hátíðarkór Norðuróps. Jóhann hefur einnig leikstýrt fjölda óperusýninga, Brúðkaup Fígarós, Toscu, Eugine Onegin, Cunning litle Vixen og Fiðlarinn á þakinu.

Jóhann Smári er listrænn stjórnandi óperufélagsins Norðuróp.


Fjölnir Ólafsson
barítón

Fjölnir Ólafsson barítón hóf nám í klassískum gítarleik 10 ára gamall en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus-gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014.
Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika, hérlendis og erlendis. Hann hefur sungið einsöngshlutverk í fjölda óratoría og tónleikaverka, svo sem Messíasi og Júdasi Makkabeusi eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu Bachs og sálumessum Brahms og Faurés. Þá hefur Fjölnir komið að frumflutningi nýrrar tónlistar, auk þess sem hann hefur lagt mikla rækt við ljóðasöng. Á óperusviðinu hefur hann farið með fjölda hlutverka, m.a. við Saarländische Staatstheater og hjá Íslensku óperunni.
Fjölnir vann til verðlauna í keppnunum „International Richard Bellon Wettbewerb 2011“, „International Joseph Suder Wettbewerb 2012“ og „Walter und Charlotte Hamel
Stiftung 2013“. Hann var valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2013."

Stefán Sigurjónsson
bassi

Stefán Sigurjónsson lærði söng hjá Jóni Þorsteinssyni við Söngskóla Sigurðar Demetz og við Tónlistarháskólann í Utrecht. Hann hefur sungið með atvinnukórum og ýmis einsöngsverkefni í Hollandi, Bandaríkjunum og Íslandi.

Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór

Þorsteinn Freyr Sigurðsson lauk mastersnámi í söng árið 2013 við Hanns Eisler í Berlín undir handleiðslu Prof. Scot Weir og eftir útskrift með Prof. Janet Williams, Jóni Þorsteinssyni og Hlín Pétursdóttur Behrens.
Árið 2014 hóf Þorsteinn störf við Óperuhúsið Theater Ulm í Suður-Þýskalandi til ársins 2017 þar sem Þorsteinn söng fjölmörg aðalhlutverk. Þorsteinn hefur einnig víðtæka reynslu af ljóðasöng og óratoríu.
Síðan Þorsteinn flutti aftur til íslands í byrjun árs 2017 hefur hann tekið þátt í ýmsum verkefnum. Þar má helst telja Spoletta í uppfærslu íslensku óperunnar af Tosca e. G. Puccini, ljóðaflokkinn Serenade no. 31 fyrir tenór og horn og svaninn í Carmina Burana með sinfóníuhljómsveit íslands í Eldborg vorið 2023.
 
Þorsteinn er virkur meðlimur í ýmsum sönghópum þ.m.t. Schola Cantorum, Voces Mascolorum, Kyrja og fleirum.
Þorsteinn hefur stjórnað Drengjakór Reykjavíkur frá árinu 2019.
 

 

Þorbjörn Rúnarsson tenór

Þorbjörn Rúnarsson tenór, hóf söngferil sinn barn að aldri í Skólakór Garðabæjar og hefur alla tíð síðan verið syngjandi. Sumurin 1989-1992 var hann einn af fulltrúum Íslands í Heimskór æskufólks, World Youth Choir, þar sem ungir söngvarar alls staðar að úr heiminum koma saman og syngja.
Þorbjörn hóf söngnám hjá Sigurði Demetz og síðar hjá W. Keith Reed á Egilsstöðum. Þorbjörn söng Almaviva greifa í Rakaranum í Sevilla og Beadle Bamford í Sweeney Todd hjá Íslensku Óperunni. Einnig söng hann Tamínó í Töfraflautunni, og Ferrando í Cosi Fan Tutte hjá Óperustúdíói Austurlands. Þorbjörn hefur sungið hlutverk guðspjallamannsins í Jólaóratoríu og Jóhannesarpassíu Bachs með fjölda kóra, bæði á Íslandi og erlendis. Hann hefur einnig sungið einsöngshlutverk í ýmsum kórverkum, messum og óratoríum.
Þorbjörn hefur sungið með fjölda kóra og sönghópa, s.s. Kór Íslensku Óperunnar, Cantoque Ensemble, Schola Cantorum, Hljómeyki, Mótettukórnum, Söngsveitinni Fílharmóníu, Kór Langholtskirkju, Kammerkór Austurlands og svo mætti lengi telja.
Þorbjörn er einn stofnfélaga Kórs Hallgrímskirkju.

Hildigunnur Einarsdóttir
alt

Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir söng ársins í flokknum sígild og samtímatónlist.