HLJÓMEYKI 50 ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR
Sunnudagur 14. apríl kl. 17
Hljómeyki
Erla Rut Káradóttir stjórnandi
Miðar fást í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.500 kr.
50 ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR Sönghópurinn Hljómeyki hefur verið starfandi nær samfleytt í 50 ár. Hann var stofnaður af nokkrum félögum úr Pólýfónkórnum sem langaði til að syngja örlítið öðruvísi tónlist en stóri kórinn var að vinna með. Hópurinn starfaði undir stjórn Ruthar Little Magnússon fyrstu árin.
Til að halda upp á hálfrar aldar afmæli kórsins var valið úr þeim verkum sem hafa verið samin fyrir hópinn og/eða verið frumflutt af honum. Það var ekki auðvelt verk að velja enda hafa flest helstu tónskáld Íslendinga samið verk fyrir kórinn. Flutt verða meðal annars verk eftir Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Önnu Þorvaldsdóttur auk margra fleiri.
Auk þessa mun kórinn halda upp á afmælið með samsöngstónleikum með þjóðlegu ívafi í Dómkirkjunni 17. júní. Þar verða meðal annars frumfluttar tvær þjóðlagaútsetningar Hafliða Hallgrímssonar sem hann tileinkar kórnum.
Sönghópurinn Hljómeyki var stofnaður árið 1974. Hópurinn skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi – allt frá fjölradda kórtónlist endurreisnarinnar, yfir í stór verk með sinfóníuhljómsveitum og allt til íslenskrar rokktónlistar samtímans. Kórinn tekur iðulega þátt í hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist, svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum ásamt því að syngja á hátíðum svo sem Reykholtshátíð, Sumartónleikum í Skálholti og Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Hljómeyki hefur pantað og frumflutt mikinn fjölda tónverka, bæði íslensk og erlend og hafa mörg þeirra verka ratað á efnisskrár bæði íslenskra og erlendra kóra.
Stjórnandi Hljómeykis er Erla Rut Káradóttir
Erla Rut Káradóttir stundaði nám í söng og píanóleik frá unga aldri og síðar orgelleik. Hún hefur lokið kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og BA-gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020 þar sem eitt af aðalfögum hennar var kórstjórn. Kennarar hennar í kórstjórn voru m.a. Magnús Ragnarsson og Hörður Áskelsson. Hún hefur fjölbreytta reynslu af kórastarfi, bæði hefur hún sjálf sungið í kórum og sem stjórnandi og meðleikari. Auk þess hefur hún lokið BA-gráðu í mannfræði. Erla Rut er organisti við Háteigskirkju og stjórnandi kóra kirkjunnar, Kordíu og Perlukórsins.
Erla Rut hefur verið stjórnandi Hljómeykis frá haustinu 2022.
Hallgrímskirkja - Þinn staður!