Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2024
Laugardagur 17. ágúst kl. 12.00 - 12.30
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, orgel Akureyrarkirkja
Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, selló
Aðgangseyrir 2.700 kr.
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn,
tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna og kennir börnum orgelsmíði í verkefninu
Orgelkrakkar. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri.
Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og hefur haldið námskeið og fyrirlestra í tónlist. Sigrún situr í stjórn félags íslenskra
organista, FÍO. Hún hefur einnig verið listrænn stjórnandi Tónlistarfélags Akureyrar, setið í undirbúningsnefnd fyrir Norrænt
kirkjutónlistarmót í Reykjavík árið 2012, og var framkvæmdastjóri Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju árin 2009-2017.
Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árin 2016 og 2022.
Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir nam tónlist og sellóleik við Tónlistarskólana á Akureyri og í Reykjavík og lauk einleikaraprófi vorið 2000. Þá hélt hún til frekara náms í Frakklandi, sérhæfði sig í barokktónlist og útskrifaðist frá Parísarkonservatoríinu sem barokksellóleikari vorið 2006.
Steinunn hefur síðan leikið með mörgum helstu barokkhópum Frakklands: Les Basses Réunies, La Maîtrise du Centre de Musique Baroque de Versailles, Ricercar Ensemble, Les Folies Françoises... og Íslands: Nordic Affect, Barokkbandinu Brák, Alþjóðlegu Barokksveitinni í Hallgrímskirkju.
Steinunn er stofnandi fransk-íslenska barokk- og indípopphópsins Corpo di Strumenti/SÜSSER TROST og meðlimur í þjóðlagauslasveitinni Gadus Morhua Ensemble. Steinunn er skáld, tónskáld og lagasmiður og hefur gefið út fjórar ljóðabækur, plötuna Ljúfa huggun ásamt SÜSSER TROST með eigin lögum og ljóðum og plötuna Peysur og Parruk ásamt Gadus Morhua Ensemble. Steinunn er einnig forsprakki TÓLF TÓNA KORTÉRSINS, norðlenskri tilraunasenu í tónlist á Listasafninu á Akureyri, og leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
Steinunn kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og er deildarstjóri klassíkrar deildar hans.