ORGELTÓNLEIKAR – Olivier Messiaen – Fæðing Frelsarans / La Nativité du Seigneur

ORGELTÓNLEIKAR – Olivier Messiaen – Fæðing Frelsarans / La Nativité du Seigneur
26. desember – Annar í jólum kl. 17 
Björn Steinar Sólbergsson, orgel

Orgeltónleikar á annan í jólum, 26 desember, kl. 17.
Björn Steinar Sólbergsson organisti í Hallgrímskirkju flytur eitt frægasta orgelverk allra tíma hið magnaða La Nativité du seigneur eða Fæðing frelsarans. Níu hugleiðingar fyrir orgel eftir Olivier Messiaen.


Miðasala hafin í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir  3.900 kr.

La Nativité du Seigneur „Fæðing Freslsarans“ er án efa þekktasta og mest leikna verk sem Olivier Messiaen samdi fyrir orgel. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar það um atburði jólanna og tileinkaði Messiaen verkið sérstaklega Maríu Guðsmóður. Verkið er níu hugleiðingar og í því fáum við að upplifa þekkt minni fagnaðarboðskaps jólanna; María syngur vögguvísu fyrir nýfætt Jesúbarnið, gleðisöngur englanna - hinna himnesku hersveita, fögnuður hirðanna sem dansa og leika á hjarðpípur, úlfaldalest vitringanna líður áfram í næturhúminu og fylgir Betlehemstjörninni og lotning vitringanna þegar þeir krjúpa fyrir hinum nýfædda frelsara. En jafnframt eru djúpar guðfræðilegar hugsanir eins og í köflunum; Fyrirheit, Orðið, Jesús sættir sig við þjáningu og Börn Guðs.

Verkið var samið í Grenoble 1934 og myndar ákveðinn vendipunkt í tónsmíðaferli Messiaens. Þetta var fram að þeim tíma langlengsta orgelverkið hans og þar kynnti hann nýjungar sem áttu eftir að skapa honum sérstöðu meðal tónskálda.

La Nativité du Seigneur – Fæðing Frelsarans

Níu hugleiðingar fyrir orgel

1. La Vierge et l´Enfant - Meyjan og barnið
2. Les Bergers – Hirðarnir
3. Deissens éternelles – Fyrirheit
4. Le Verbe – Orðið
5. Les Enfants de Dieu - Börn Guðs
6. Les Anges – Englarnir
7. Jésus accepte la souffrance - Jesús sættir sig við þjáningu
8. Les Mages – Vitringarnir
9. Dieu parmi nous - Guð meðal vor

1. Meyjan og barnið
Jesaja 7,14. Jesaja 9,5. Sakaría 9,9.

Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og lítillátur.
Þessi hugleiðing er þrískipt. Í upphafi og endi horfir hin unga móðir á hinn nýfædda son sinn með aðdáun. Í miðkaflanum dansar hún af fögnuði og þar heyrist skreytt útgáfa af Gregor-söngnum, Puer natus est nobis – Barn er oss fætt!

2. Hirðarnir
Lúkas 2,16 og 20

Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð.
Byrjunin er hæg. Við sjáum fyrir okkur hirðana þar sem þeir krjúpa fyrir framan Jesúbarnið og úti fyrir glitra stjörnurnar á himnum. Síðar rísa þeir upp og halda aftur dansandi út í hagana, leikandi á hjarðpípur sínar.

3. Fyrirheit
Efesusbréfið 1,5

Fyrir fram ákvað hann að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi.
Sá var náðarvilji hans.
Hægur kafli – Guð hefur ætlað okkur hlutdeild í eilífðinni.

4. Orðið
Sálmarnir 2,7. Jóhannes 1,1

Ég vil kunngjöra úrskurð Drottins, hann sagði við mig: „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Miðja verksins og undirstaða boðskapar jólanna - Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.

5. Börn Guðs
Jóhannes 1.12. Galatabréf 4,6

En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. En þar eð þið eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu okkar sem hrópar: „Abba, faðir!“
Gleðidans hins Kristna manns sem er sannfærður um frelsun sína.

6. Englarnir
Lúkas 2,13-14

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum.
Fyrsti fagnaðarsöngur jólanna, Gloria in excelsis sunginn af englunum.

7. Jesús sættir sig við þjáningu
Hebreabréfið 10,5-7

Því er það að Kristur segir þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn.
Jesús svarar kalli Föðurins og undirgengst fórnina fyrir mannkynið.

8. Vitringarnir
Matteus 2,9

Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög.
Tignarleg úlfaldalestin líður hægt yfir eyðimörkina. Það er nótt og stjörnurnar tindra, en bjartast skín stjarnan sem á eftir að leiða þá til Betlehem.

9. Guð meðal vor
Síraksbók 24,9-10. Jóhannes 1,14. Lúkas 1,46-47

Hann skóp mig í öndverðu á undan heimi og menn munu um aldur minnast mín.
Ég þjónaði honum í helgri tjaldbúð Og þér mun veitast gleði og fögnuður og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss. Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Þessi hugleiðing er í þremur hlutum.

1) Kraftmikið stef sem stendur fyrir Orðið sem kemur frá Föðurnum og verður hold.
2) Kærleiksstef – altarisgangan þar sem Kristur sameinast „Kirkjunni“.
3) Gleðistef – lofsöngur Maríu túlkaður með fuglasöng.

Stefin þrjú eru þróuð og fléttuð saman. Í lok kaflans heyrum við svo glæsilega
tokkötu sem líkur verkinu.