Einar Karl Haraldsson hefur tekið við formennsku í sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Jóhannes Pálmason hefur verið formaður sóknarnefndar í þrjá áratugi. En Jóhannes verður nú varaformaður og Guðlaugur Gunnarsson sóknarnefndarmaður verður gjaldkeri.
Hver er Einar Karl Haraldsson? Hann hefur verið virkur í safnaðar- og lista-starfi Hallgrímskirkju í nær fjóra áratugi. Hann var valinn í sóknarnefnd árið 2002 og hefur gegnt hlutverki gjaldkera og síðar einnig varaformanns. Einar Karl hefur gegnt margvíslegum störfum í þágu þjóðkirkju og hjálparstarfs. Hann var formaður stjórnar Hjálparstarfs kirkjunnar á árunum 2000 2006. Hann hefur setið bæði á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar og á Alþingi Íslendinga. Á síðari árum hefur Einar Karl beitt sér að umhverfismálum og hefur frá 2017 ásamt öðrum haft umsjón með Tímabili sköpunarverksins sem er umhverfisverkefni þjóðkirkjunnar. Hann er einnig í kjaranefnd þjóðkirkjunnar sem er nefnd á vegum kirkjuþings.
Einar Karl stundaði nám á stjórnmálafræði í Svíþjóð og í Frakklandi og markaðs- og útflutningsfræði við EHÍ. Hann hefur gegnt fjölbreytilegum störfum sem útvarpsmaður, verið ritstjóri hér heima og á norrænum vettvangi, verið framkvæmdastjóri, aðstoðarmaður ráðherra og ráðgjafi í almannatengslum.
Sóknarnefnd og starfsfólk Hallgrímskirkju óska nýjum formanni, nýjum varaformanni sem og gjaldkera blessunar. Hallgrímskirkja nýtur starfa fjölda sjálboðaliða og störf í sóknarnefnd eru mikilvæg störf í lífi safnaðar og kirkju.