Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Birgi Ásgeirssyni. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Björn Steinar Sólbergsson er organisti. Umsjón með barnastarfi hafa Rósa Hrönn Árnadóttir, Sunna Karen Einarsdóttir og Guðjón Andri Rabbevåg Reynisson. Kaffisopi eftir messu.
Verið hjartanlega velkomin.
Textar:
Lexía: Jes 49.13-16
Lofsyngið himnar, fagna þú jörð,
þér fjöll, hefjið gleðisöng
því að Drottinn hughreystir þjóð sína
og sýnir miskunn sínum þjáðu.
En Síon segir: Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,
múra þína hef ég sífellt fyrir augum.
Pistill: 2Kor 2.14-17
En Guði séu þakkir sem fer með mig í óslitinni sigurför Krists og lætur mig alls staðar breiða út þekkinguna um sig eins og þekkan ilm. Því að Guði til dýrðar er ég ilmur sem flyt Krist bæði til þeirra sem frelsast og til þeirra sem glatast. Þeim sem glatast er ég banvænn daunn til dauða, hinum lífgandi ilmur til lífs. Og hver er til þessa hæfur? Ekki er ég eins og hinir mörgu er pranga með Guðs orð heldur flyt ég það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs með því að ég er í samfélagi við Krist.
Guðspjall: Mrk 14.3-9
Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum. Og þeir atyrtu hana.
En Jesús sagði: Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.