Orgel & klarínett tónleikar

17. júlí 2017

EXULTAVIT


Einar Jóhannsson, klarínett
Douglas A. Brotiche, orgel


Fimmtudaginn 20. júlí kl. 12


Tónlist eftir: J.S. Bach, Jónas Tómasson, Otto Olsson, Tartini.


Einar Jóhannesson fæddist í Reykjavík og nam klarínettleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Gunnari Egilson og í The Royal College of Music í London þar sem kennarar hans voru Bernard Walton og John McCaw. Þar vann hann til hinna virtu Frederick Thurston verðlauna. Árið 1976 vann Einar samkeppni um þátttöku í “Live Music Now“ sem Sir Yehudi Menuhin stofnaði og hlaut síðar Sonning verðlaunin fyrir unga norræna einleikara. Einar er einn þeirra klarínettleikara sem fjallað er um í bók breska tónlistarfræðingsins Pamelu Weston Clarinet Virtuosi of Today. Hann
er tíður gestur á tónlistarhátíðum víða um heim og hefur leikið fyrir útvarps- og sjónvarpsstöðvar margra landa. Einar hefur frumflutt fjölda verka sem eru sérstaklega skrifuð fyrir hann, jafnt einleikskonserta, kammerverk og verk fyrir einleiksklarínett. Einar var 1. klarínettleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1980?2012. Hann er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur sem hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi. Einar er einnig félagi í miðaldasönghópnum Voces Thules.

Douglas A. Brotchie er fæddur í Edinborg í Skotlandi en er orðinn íslenskur ríkisborgari eftir meira en þrjátíu ára dvöl hér á landi. Hann byrjaði að læra á orgel um fermingaraldur og strax við sextán ára aldur var hann ráðinn organisti og kórstjóri við Balerno sóknarkirkjuna í útjaðri Edinborgar. Douglas var annar organisti Dómkirkju Krists Konungs (Landakotskirkju) í mörg ár,
organisti Hallgrímskirkju í eitt ár í leyfi Harðar Áskelssonar og organisti Háteigskirkju frá 1999 til 2011. Hann hefur haldið tónleika víða um Evrópu bæði sem einleikari og meðleikari, þ.á m. í Skotlandi, Ungverjalandi og Þýskalandi. Hann hefur oft komið fram sem organisti í sjónvarpi og útvarpi hérlendis og hefur leikið inn á fjölda geisladiska.

Upplýingar um Alþjóðlega Orgelsumarið í Hallgrímskirkju HÉR.

Hádegistónleikar – 30 min: 2.000 ISK