Laugardaginn 15. júlí kl. 12 -Tónlist eftir: J. Rutter, J.C. Bach, J. StraussS JR. & D. Bedard.
Sunnudaginn 16. júlí kl. 17 - Tónlist eftir: M.Mussorgsky, P. Tchaikovsky, Dunayevsky & fleiri rússnesk skáld.
Denis Makhankov lauk framhaldsnámi í orgelleik árið 2013 frá N.A. Rimsky Korsakov ríkistónlistarháskólanum í St. Pétursborg. Meðan á námi hans stóð hlaut hann fyrstu verðlaun í ýmsum keppnum ungra listamanna, m.a. í Kaliningrad, Moskvu og í heimaborg sinni. Þá hefur hann tekið þátt í mörgum meistaranámskeiðum m.a. í Finnlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Denis hefur komið fram á tónleikum og orgelhátíðum víða í Rússlandi en einnig í Evrópu og síðan árið 2014 hefur hann myndað dúó með Dinu Ikhinu. Á síðustu árum hefur hann verið listrænn stjórnandi og lagt grunninn að orgelhátíðum í Eistlandi og í vesturhluta Rússlands. Denis hefur lagt sig fram við að kynna orgeltónlist víða í Karelia-héraði Rússlands (landamæri að Finnlandi) og hefur hann og Dina fengið viðurkenningar fyrir framtak sitt.
Dina Ikhina stundaði fyrst nám við L.V. Sobinov Saratov ríkistónlistarháskólann og árið 2011 lauk hún MMus í orgelleik við tónlistardeild háskólans í St. Pétursborg og árið 2014 lauk hún einnig framhaldsnámi í orgelleik frá N.A. Rimsky Korsakov ríkistónlistarháskólanum í St. Pétursborg. Hún hefur unnið nokkrar orgelkeppnir og tekið þátt í meistaranámskeiðum, m.a. í Hollandi, Austurríki og Þýskalandi. Dina hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og með öðrum, víða í Rússlandi og í Evrópu. Þá hefur hún síðan 2014 myndað dúó með Denis Makhankov.
Dina Ikhina er listrænn stjórnandi nokkurra orgelhátíða í Eistlandi og í Karelia héraðinu upp við finnsku landamærin. Hún tekur einnig þátt í að skipuleggja orgelhátíðir til að safna peningum til að endurgera gömul orgel á svæðinu. Hún hefur hlotið viðurkenningar fyrir framtak sitt á þessu sviði. Frá 2013 hefur hún kennt orgelleik við N.A. Rimsky-Korsakov ríkistónlistarháskólann.
Upplýingar um Alþjóðlega Orgelsumarið í Hallgrímskirkju HÉR.