Hinar mörgu myndir af orði Guðs, sáðkorni, frelsi, vanafestu og endurnýjun og lífi.
Náð, miskunn og friður frá Guði og Kristi Jesú, Drottni okkar. Amen
Þarna gengur hann um og hendir dýrmætu sáðkorninu út um allt, engin regla, engin mörk, engar plægðar rásir sem sáðkorninu er ætlað að falla í.
"Ég ætla að rækta þennan blett, ekki leggja sáðkornið í reglulegar fallegar raðir heldur kasta því að gleði og kappi út um allt þar sem það nær rótfestu, um allan heim." gæti verið í huga sáðmannsins.
Það er mikið frelsi og fegurð í sögunni af sáðmanninum (guðspjalli dagsins í dag)
, það er frelsi og þessi fallega áminning um að orðið fer þar sem því er haldið á lofti, talað, lesið, spekúlerað, spáð í. Það finnast alltaf kærleiksorð, stundum áminningarorð, sjaldan myrk en oftast björt. Orð í munni venjulegs fólks, orð í munni Jesú, fulltíða Móse, Aron bróður Móse, orð úr munni Guðs, engla, Serafa sem voru hæstir í englavirðingastiganum, sungu guðdómlega, Kerafa sem voru aðeins neðar, konu við brunn, litla Móse sem vaggar í vöggu á nílarfljóti, Debóru dómarakonu sem sat undir döðlupálma og dæmdi, kvenna sem dönsuðu af gleði með tambúrínur, Mirjam. Orð frá Mörtu og Maríu Lasarusi sem fékk líf, Pétri, hvatvísa postulanum, Jóhannesi, Leví, hugrökku Naomí og Rut, tengdadótturinni,
Þetta er orð Guðs, þvílík auðlegð.
Svo segir fólk líka margt fallegt um orð Guðs.
Steinunn Jóhannesdóttir, ein af lesurunum sem hafa lesið inn rit Biblíunnar, segir í B+ blaði Biblíufélagsins um orð Guðs:
„Þessi fornu textar hjálpa mér að sjá mitt eigið líf í samhengi við líf kynslóðanna...oft mjög erfið lesning og kröfuhörð en býður líka upp á miskunnsemi og huggun. Aftur og aftur erum við áminnt um að bera kærleikann hvert til annars því mannkynið er í vanda statt eins og oft áður..
Þess vegna kallast hún (Biblían) við sögur okkar, líf okkar, samtímann sem þarf að muna frið og kærleika Guðs til að við rötum“
Þegar við syngjum þá heyrum við ort um orð Guðs, traust til þeirra.
Við sungum um þau í sálmum Vilborgar Davíðsdóttur skáldkonu fædd 1965, hér í upphafi:
“Ég lít þig Drottinn í gleði tærri þú ert mér nærri”
“Ég lít þig Drottinn er degi hallar og mig þú kallar”
Við sungum líka sálm annarrar skáldkonu, Filippíu Kristjánsdóttur eða Hugrúnar, fædd 1905 - 60 ára aldursbil.
„Með þér er gott hér að ganga, götuna fram á leið,“
„svo þegar leið minni lýkur,
legg upp í hinsta sinn, hvað þá verður mér hvíldin góð….“
Það leikur andi orða Biblíunnar um hvert orð sem þessar skáldkonur hafa sagt um Guð, ort um Guð.
Þetta er orð Guðs.
Stundum verða orð Biblíunnar okkur eins og gamalt nöldur.
Orðin of kunnugleg, eins og maki þinn eða vinur eða vinkona þegar þú þekkir alla venjurnar og vanan, hvernig tannkremstúpan er kreist, hvar setið er við matarborðið, stefnuljósið aldrei notað, ostaskerinn á borðinu, eða skónum ekki raðað eða bara eitthvað svona smágert og smávægilegt. Þú rekur þig í gegnum daginn þekkir hvert orð og spor viðkomandi – svona næstum…
En þú lætur þér líka annt um þetta vanafasta, óbreytanlega, þessu sem er alltaf eins
Er það ekki hluti þess að sakna og syrgja þegar þetta hverfur og er ekki lengur.
Eins og þessi vanafasti gamalkunnugi félagi kemur dæmisagan af sáðmanninum til móts við okkur á Biblíudegi.
Það er kannski búið að þurrausa frásöguna hjá Lúkasi af þessum sem fór út að sá..
Fjöldi fólks sem var reyndar komið saman. Ef þau voru komin til að fá tilsögn og fræðslu í hagnýtri guðfræði þá fengu þau einhverskonar draumsýn eða dæmisögu um hversdagslega hluti þar sem Guðsríkinu er lýst eins og kunnuglegum vanabundnum hlut í akuryrkjusamfélagi samtíma Jesú.
Meistarinn reynir að segja þeim að þetta hversdagslega sem þau umgangast hvern dag, hversdagslegt líf þeirra eru umbúnaður um æðri og meiri sannleika. Hin gróðurskotna líking dæmisögunnar af ræktandanum mikla sem leggur sæði í jörðu og svo gerist eitthvað. Allt snýst þetta um hið lifandi orð sem á að lifa af fárviðri heimsins og mannfólksins sem teygir og togar á sambandi sínu við Guð. Þetta snýst líka um ábyrgð þess sem tekur við, hversu lifandi verður orð Guðs í lífi hans eða hennar. Okkur hættir til að einblína á jarðveginn eða telja hvað eru margir fuglar í mínum garði, hversu mikil klöpp, hversu margir þyrnar. Hvernig tek ég svo vel til í mínu lífi, hversu pottþétt verður mín framganga sem jarðvegur fyrir Guðs orð. Hverju áorka ég – en þá hlyti hún að heita dæmisagan um hinn fullkomna jarðaveg.
Það heitir hún ekki !
Heldur fjallar um lífsmátann sem býr í sáðkorninu og þann sem sáir endalaust. Gefst ekki upp heldur í gleði og gjafmildi feykir sáðkornum allsttaðar líka þar sem ekkert vex eða ætti að vaxa.
Það er gaman að skoða á konudegi að inngangurinn að sögunni um “sáðmanninn” er um þær sem styrktu boðun Jesú með fjármunum sínum og styrk. Heyrðu kannski dæmisöguna fyrst. Lúkas guðspjallamaður segir frá í upphafi 8. kafla að 12 hafi verið með honum og hópur kvenna…
Það læðist sú hugsun að mér – hann var vitur frelsarinn.
Jesús tók með sér kvenfélagið, þær Jóhönnu, Súsönnu, Maríu frá Magðdölum (Lúk. 8:1)
Þær voru styrktaraðilar – konurnar sem komu að gröfinni, fyrstu upprisuvottarnir.
Kirkjur hafa gjarnan orðið til og verið vegna kvennanna. Þær eru nafngreindar, þær eru styrkar stoðir, vinkonur Jesú,samstarfskonur og en svo eru það líka aðrar konur, sem komu út umhverfi þeirra fyrirlitnu og jaðarsettu...
Biblían á nöfn þeirra, nafnleysi og sögur og af hverju að vera upptekin af því jú þetta eru fyrirmyndir, í gegnum aldirnar. Þetta er orð Guðs.
Eina mótvægið við guðleysi og trúarandstöðu eru orðin okkar um orð Guðs. Frásögurnar sem hafa ekki gildi nema þær séu sagðar. Hefur þú velt fyrir þér sögu þinni.
Þegar þú heyrir sögur Biblíunnar, langar þig þá að deila þinni sögu, þinni reynslu, þinni trú ?
Er það ekki þannig sem andi Guðs hreyfir við veröldinni í gegnum okkur og tökum þátt í Guðs heimi með sögunum okkar.
Ekkert gerist af sjálfu sér. Guð vinnur sín verk í gegnum fólk og tilv eru okkar hér í veröldinni.
Þess vegna megum við ekki týna frásögunum, ekki þinni eða minni, ekki annarra. Þú ert líka þessi jarðvegur þangað sem orðin rata, Guðs orð
Fleiri orð um orð Guðs:
Það er fallega orðað hjá Jóni Kalmann Stefánssyni í bókinni „Himintungl yfir heimsins ystu brún“ Sagan sem segir frá grimmilegum morðum á Vestfjörðum, Baskavígunum 1615, sögumaðurinn í bókinni er prestur á Meyjarhóli, Pétur. Hann segir um erindi sitt til sóknarbarna
„ég færi þeim orð sem þau geta máske hnýtt utan um sitt hjarta, utan um sinn kvíða og fundist um stund veröldin ögn tryggari staður.“
Orð Guðs, hnýtt utan um hjartað og kvíðann.
Huggunarorð, orð um traust.
Traust til kvenna og styrkur þeirra. Orð Guðs
Lögun líkama hennar var þannig að hún var eins og neydd til að horfa á jörðina. Breytingin verður í krepptum líkama hennar.
Hún gat aðeins séð óhreinindi götunnar sem hurfu undir fætur hennar. Hún gat ekki litið upp og séð möguleikana. Gat ekki séð brosið á andliti samferðafólks. Gat ekki horft upp í himininn....Jesús kallaði á hana og inn á mitt gólf samkunduhússins
Konur voru vanalega við hliðar samkunduhússins, sátu á inngreyptum steinbekkjum sem voru meðfram hliðum samkunduhússins. Jesús hlýtur að hafa gengið að henni og leitt hana inn á mitt gólfið, sagt henni að hún væri laus við það sem hefði lamað líkama hennar á þennan hátt. Þá gat hún horft upp og fram fyrir sig. Ljós í orð Guðs
Á steinhörðu samkunduhússgólfinu var eins og fræið bæri ávöxt, kannski í sprungum margþvældra hellnanna.
Braut sér leið og náði að vaxa og blómstra og konan sem gekk niðurlút var reist við vegna orða Guðs.
Þess vegna eru það sögurnar – um tengslin við Jesú Krist. Guðs orð sem færir birtu inn í líf þeirra sem eru lotin, fyrirlitin, horft fram hjá, fórnarlömb fordóma, reiði.
Kannski þurfum við að muna það áfram það sem okkur þykir sjálfsagt í dag því enn eru staðir í veröldinni þar sem konur eru ekki vígðar sem prestar að ég tali ekki um aðrar kirkjudeildir.
Hvernig förum við með orð Guðs ? Ljós þess og von.
--------
Þorgeir Sveinbjarnarson tjáir fallega hugsun um hvernig sáð er ljósi og myrkri í sama reit.
“Eins og þú sáir”
Jörð þín liggur
í landi tímans
Í sama reitnum lifir
ljós og myrkur
Í sömu moldu sprettur
Sumar og vetur
Sáir þú ljósi?
Syngur jörðin þín
birtuskær vorljóð
eða haustsöngva
skugghljótt?
Margbrotinn ljóðtextinn, sáðkorn sem leggst í moldu, jörðina þína, vex og dafnar í hjúpandi myrkrinu. Ljósið þarf til að það vaxi.
og spurning Þorgeirs í ljóðinu er
Sáir þú ljósi ?
Sérðu ljós í orðum Guðs ? Biblíunni..
Konurnar mörgu sáu það, karlarnir sáu það.
Skynjuðu kraftinn í frækorninu sem fauk út í loftið út hendi þess sem sáði
Guð sáir ljósi og lætur jörðina syngja birtuskær vorljóð
Þetta er sagan um sáðkornið, orð Guðs sem er lifandi
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda.
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Biblíudagurinn og konudagurinn 2025
Guðspjall: Lúkas 8.4-15
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.
Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.