Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins í þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum.
Prédikun Sigurðar Árna á þriðja sunnudegi eftir páska er að baki þessari smellu.