Hreinsar sár

11. september 2022
Fréttir

Gamall biskup var að deyja í Laukagarðinum á Hólum í Hjaltadal. Dauðinn kom að óvörum og hinn aldni kirkjuhöfðingi leið útaf og var innan stundar örendur. Áður en hann var allur, bærðust varir hans og þeir, er næstir stóðu og lutu niður, heyrðu andvarp hans. Það sem hann greinilega sagði var: „Kirkjan mín, Drottinn minn. Kirkjan mín, Drottinn minn.” Orðin brutust út sem djúptjáning á þeirri stund sem skildi milli lífs og dauða, heims og himins. Andvarpið hefur lifað í sögu okkar og borist yfir margra alda haf, einu orðin sem lifðu af vörum þessa guðsmanns fyrir norðan. Var þetta lofsöngur eða sorgartjáning, fyrirbæn eða sjálfsásökun? Þeir áttu einir niðurstöðuna, biskupinn og Guð. Hvað er að vera mennskur? Hvert er einkenni hennar? Hvað er hlutverk fólks?

Vegurinn frá Jerúsalem var rykugur, gulur, eins og yfirlýst mynd. Hann var fáfarinn og hættulegur. Það voru fífldjarfir menn sem fóru leiðina einir því ræningjarnir áttu griðland í eyðimörkinni, komu og fóru með skyndingu. Þetta vissi fólk vel. En ferðalangurinn í dæmisögu Jesú var samt á ferðinni niður gil og skorninga í átt til Jeríkó í dalnum við Jórdanfljót. Skyndilega voru ræningjarnir komnir og umkringdu manninn, slitu af honum klæði og fjármuni, börðu, stungu og skildu eftir við vegarkantinn. Hrægammarnir hnituðu hringa hátt í lofti og hlökkuðu yfir tilvonandi bráð. Það var þó bið á að þeir steyptu sér. Prestur musterisins í Jerúslaem var á ferð á útibúið í Jeríkó. En hann mátti ekki vera að miskunnarverkum og fór hratt hjá. Skóhljóð heyrðist að nýju og von mannsins kviknaði að nýju. Þar fór levítinn sem var frægur fyrir guðsþjónustuhald í musterinu. Einnig hann var á hraðferð. Síðast kom Samverji, sem var annars flokks borgari í löndum Gyðinga, eiginlega útlendingur. Hann stöðvaði asna sinn og vann líknarverkið, batt um sárin, gaf manninum að drekka og reiddi hann í sjúkraskýli. Hinum slasaða var borgið frá fullkominni niðurlægingu. Glæpagengið var fyrst, síðan fulltrúar hins opinbera átrúnaðar og síðast ógnuðu ránsskepnur himins og nætur.

Þetta er mögnuð saga sem Jesús sagði til að kenna guðfræðingi list trúarinnar. Sá vildi skilja skoðanir Jesú og spurði hinnar sístæðu spurningar: „Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Jesús þekkti bæði spurninguna sem og svör fræðinganna. Hann vissi vel að hornsteinn í trúarhugsun Gyðinga var hið fornkveðna: Elska til Guðs og elskan til annarra. En hvað merkir að elska Guð og elska fólk? Svörin voru mörg og lagabálkar fræðinganna skýrir. En Jesús dró út kjarnann og lagði í þessa snilldarsögu. Vegurinn til Jeríkó var óhappavegur. Ræningjar tóku sína tolla og engum lögum varð komið yfir þessi börn eyðimerkurinnar. En prestarnir, þjónar musteranna urðu að fara til í Jeríkó. Þeir urðu að hlýða vaktkerfinu og urðu að fara til musterisins þar neðra til þjónustu. Auðvitað urðu þeir að taka með sér pyngju til að greiða fyrir næturgistingu og mat. Jesús þekkti líka reglurnar sem prestarnir urðu að hlýða. Þeir máttu t.a.m. ekki snerta lík né heldur dauðvona menn til að saurgast ekki og klúðra þar með helgihaldinu. Guðfræðingurinn spurði: „Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Hann þekkti líka hvernig átti að svara spurningunni. En Jesúsagan opinberaði honum veikleika kenningarinnar. Hann hefur væntanlega sjálfur farið Jeríkóleiðina, þekkti því óttann við ræningjana og skildi sneiðina. Helgihaldið og reglurnar um afskipti presta af sjúkum voru til að hindra ferðalanga við að liðsinna deyjandi manni. Guðsdýrkun samtíðarinnar var ekki í þágu fólks heldur gömmunum hin besta hjálp. Prestarnir héldu áfram að stika niður til Jeríkó með spurn í hug. „Hvernig á ég að lifa til að öðlast eilíft líf?” En særður maður lá hjálparlaus við vegarbrún. Elskan var í böndum lífsheftandi kenninga. Það er ekki trú heldur vantrú.

Spurningar um líf og eilífð eru frómar og góðar, en svörin verða að vera þannig að sjúkir hljóti hjálp og nauðstaddir líkn. Það sem Jesús benti á er að við reynum flest að bjarga okkur sjálfum en á kostnað samferðarmanna. Það er eigingjörn afstaða sem eflir menn á himinferðinni, en heyrir engin hróp við veginn. Trúarlíf, kirkjulíf og guðsdýrkun eru ekki til, ef náunginn gleymist. Fagrir helgisiðir eru flótti, ef menn deyja við heimreiðar kirkna. Guðsdýrkun kemur fram í hvernig þjónustan við sjúklinga og smælingja þessarar jarðar er. Heilbrigð trú sér flóttafólk og þau sem verða fyrir hrottum og vondum kerfum. Guðfræðingurinn skildi sögu Jesú. En boð Jesú er skýrt. „Far þú og gjör slíkt hið sama…. bjarga öllum þeim sem gammarnir hlakka yfir.” Þannig talar elskan og knýr til ábyrgðar.

Það er hægt að skilja ást, vit, réttlætissókn og siðferði þessarar Jesúsögu og dást að snilld höfundarins. Heyrum við í hinum smáu og hrjáðu við veginn en viljum ekki líkna? Ræðum við bara vandann eða förum að dæmi Samverjans? Erum við nægilega vakandi þegar þjáning manna blasir við okkur? Hvernig er kirkja samtímans? Er hún árvökul í umhyggju sinni fyrir sjúkum og sorgmæddum? Er hún í framvarðarsveit í réttlætismálum þessa heims? Þurrkar hún tárin af hvörmum hinna hungruðu og hrelldu og stoppar blóðsugur samfélagsins?

Kunnum við að losa fjötra kenninga og fordóma. Við erum fjölskylda Guðs. Erindi okkar er að bera fréttir til manna um að þessi heimur er ekki leiksoppur grimmra örlaga, heldur í góðum höndum. Við erum vörslufólk veraldarinnar sem Guð hefur gefið líf og elskar. Okkur er falið að feta í fótspor hans, sem var hinn eini miskunnsami Samverji, sem kom í heim manna til að líkna og lækna algerlega.

Kirkjan mín, Drottinn minn. Hver er hún og hvað verður hún? Hvernig get ég öðlast eilíft líf? Saga dagsins á erindi við okkur öll. Hún er sem sannleiksspegill sem sýnir okkur hver við erum. Er líf þitt hraðferð til einhvers áfangastaðar til að messa, áfangastaðar sem hét Jeríkó í sögu Jesú en getur borið eitthvað íslenskt nafn? Heyrir þú vein, sérðu sár, veistu af ræningjum en flýtir þér samt burt? Ertu bara teflonmanneskja? Er þín ferð til eilífðarverkanna svo hröð að þú hefur ekki tíma til að hlúa að lífinu? Það er sú elskuvera sem Jesús vill fá okkur til að hugsa um. Biskupinn á Hólum stundi upp við skil tíma og eilífðar: „Kirkjan mín, Drottinn minn. Kirkjan mín, Drottinn minn!“ Jesús vill, að við öll séum farvegir ástar Guðs, að við lifum án afneitunar og förum líknandi um vegi heimsbyggðar. Í lok guðspjallsins segir Jesús: „Far þú…. og gjör slíkt hið sama ...“ Þjónusta við Guð og þjónusta við menn, það er sameiginlegt elskuverk okkar allra. Að vera maður er að elska.

1Mós 4.3-16a; 1Jóh 4.7-11; Lúk 10.23-37 13. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. A-röð. Dagur kærleiksþjónustunnar. m&t sáþ