Sr. Irma Sjöfn er nýr sóknarprestur við Hallgrímskirkju

20. apríl 2023
Fréttir
Sr. Irma Sjöfn í góðum félagsskap Grétars og Ernu kirkjuvarða í Hallgrímskirkju.

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir verður formlega sett inn í stöðu sóknarprests í Hallgrímskirkju við messu sunnudaginn 23. apríl 2023 klukkan 11 og er hún fyrst kvenna til að gegna því leiðtogahlutverki við kirkjuna. Það verður prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, Helga Soffía Konráðsdóttir, sem annast innsetninguna.

Irma Sjöfn tók við starfi sóknarprests þann 1. apríl síðastliðinn þegar sr. Sigurður Árni Þórðarson lét af störfum og var sóknarnefnd Hallgrímskirkju einhuga í þeirri ákvörðun að fá Irmu Sjöfn í stöðuna en hún hefur verið prestur við Hallgrímskirkju í 8 ár. Hún kveðst taka við nýju hlutverki af mikilli gleði, tilhlökkun og þakklæti. „Ég hef brennandi áhuga á kirkjustarfi og Hallgrímskirkja er einstök í mínum huga. Þar spilar inn í fjölbreytt og vandað starf, kall eftir vönduðu helgihaldi og um leið kröfur um endurnýjun í hugsun,“ segir Irma sem mun leggja áherslu á predikun, helgihald og fræðslu í leiðtogahlutverki sínu. „Hér er líka gott nærsamfélag, trúfastur kjarnasöfnuður og frábært samstarfsfólk. Ég mun standa vaktina með fólki sem er svo mikilvægur hluti af menginu, „hinn almenni prestsdómur“, samkvæmt lútherskum skilningi og viðhorfi. Söfnuðurinn er magnaður; hlustar, hvetur og tekur þátt,“ segir Irma og minnir á að Hallgrímskirkja iðar af lífi alla daga. „Hingað koma þúsundir ferðamanna og stansa í stutta stund. Pílagrímar sem skynja fegurðina, skilja eftir bænarorð og loga á kerti á ljósberanum.“

Fyrsta konan

Þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem gegnir starfi sóknarprests í Hallgrímskirkju er sr. Irma Sjöfn reynslumikill prestur. Hún var vígð sem aðstoðarprestur í Seljaprestakalli árið 1988 og starfaði þar samfleytt til ársins 2001. „Mér hefur verið sagt að til dæmis í Seljahlíð hafi þurft að smala fólki í fyrstu messuna mína með eftirfylgni því það var enginn sérstakur spenningur fyrir kvenprestinum. Eiginlega bara engin eftirspurn,“ segir Irma og bætir við að þar hafi hún eignast síðar góða vini og samherja en margt hafi breyst þegar kemur að stöðu jafnréttismála en því miður ekki allt. „Kristinn boðskapur er jafnréttisboðskapur, jafnræðisboðskapur, kallar fram virðingu fyrir sköpunarverkinu sem var í árdaga sagt vera harla gott og hlýtur að laða fram fordómaleysi, virðingu fyrir samferðafólki eða löngun til að virða á lífsins leið hver sem manneskjan er. Í mínum huga er kirkjan samfélag sem snýst um kærleika Guðs, réttlæti og jafnrétti. Við þurfum að skora á hólm fordóma, rétt eins og Kristur gerði.“

Irma segir kirkjuna hafa það hlutverk að ganga í spor Krists og bjóða fólki að vera samferða á þeirri leið. „Kirkjan berst fyrir réttlæti, kallar eftir friði, umber ekki ofbeldi eða mismunum, kúgun eða misrétti. Hún er málsvari umhverfisverndar, náttúrunnar, gefur rödd þeim sem enga rödd eiga, styrk þeim sem upplifa vanmátt, von og ljós í sorg en upplifir gleði þeirra sem fagna og þakklæti.“

Hallgrímskirkja er minn staður

Irma segir það mikilvægt í sínum huga að rækta gleðina, gleyma aldrei þeirri gleði sem fylgir því að koma til starfa sinna og viðhalda trúarneistanum. „Starfið snýst um að halda utan um neistann sinn og gleyma ekki um hvað starfið snýst og missa ekki sjónar á markmiðunum. Rækta samfélagið við Guð sem kallar okkur til verka, Guð skapari, Kristur frelsari, Andinn sem hvetur og lífgar.“

Að sögn Irmu skiptir það máli að hlakka til að koma til vinnu sinnar, finna eftirvæntingu og áskorun. „Í dag er það sóknarprestsstarfið í samstarfi við hóp af hæfileikaríku fólki. Fólkið sem starfar í kirkjunni hefur mikinn metnað fyrir sinni kirkju og kirkjustarfi og einnig eru margir sjálfboðaliðar sem leggja hönd á plóg með gáfum sínum og krafti. Hallgrímskirkja er samblanda af hefðbundnum söfnuði og hlutverki sem þjóðarhelgidómur. Það er skemmtileg glíma framundan að láta þetta vinna saman,“ segir Irma og bætir við: „Þessi stöðuga áskorun er minn hvati og starf í kirkju á alltaf að vera í þróun, dvelja í núinu en alltaf á leið til framtíðar. Samtíminn er áskorun, fortíðin líka en framtíðin alltaf í sjónmáli og við erum á leið þangað. Og gleðin felst í ferðalaginu. Hallgrímskirkja er minn staður.“