23. júní kl. 12.00: Björn Steinar Sólbergsson, orgeltónleikar
20. júní 2018
Laugardaginn 23. júní kl. 12 leikur einn fremsti orgelleikari landsins og organisti Hallgrímskirkju, Björn Steinar Sólbergsson, verk eftir Bach-Vivaldi og hina frægu Gotnesku svítu Boëllmanns. Miðaverð 2.000 kr.
Johann Sebastian Bach 1685?1750 Konsert í a-moll, BWV 593 (Vivaldi)
Allegro Adagio Allegro
Léon Boëllmann 1862?1897 Suite Gothique, op. 25
Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik. Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna. Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geisladiska, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS, en sú hljóðritun hlaut einróma lof gagnrýnenda.
Björn Steinar er svo aftur á ferðinni sunnudaginn 24. júní kl. 17 með viðameiri efnisskrá sem inniheldur hrífandi verk eftir Widor, Mendelssohn, Pál Ísólfsson og hið heimsþekkta verk Brúðkaupsdagur á Troldhaugen eftir Grieg. Miðaverð 2.500 kr.
Miðasala er í kirkjunni klukkustund fyrir alla tónleika og á midi.is