Ryðjum Drottni beina braut – Þriðji sunnudagur í aðventu 2024

17. desember 2024

Guðspjall: Matt 11.2-10
Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta
annars?“ Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“ Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað: Ég sendi sendiboða minn á undan þér, hann á að greiða þér veg.

Guðspjallstextar aðventunnar koma úr ýmsu samhengi og ýmsum áttum ef svo má segja. Flest þekkjum við þá hefð að minnast innreiðarinnar í Jerúsalem á fyrsta sunnudegi í aðventu. Síðan er það um endalok tímanna á öðrum sunnudegi og nú er það svo Jóhannes skírari sem stígur inn á sviðið með sína spurningu til Jesú.
Allir eiga þessir textar þó það sameiginlegt að vekja hugrenningatengsl við það fyrirbæri að eitthvað mikilvægt sé í vændum. Eitthvað nýtt sem muni breyta lífi fólks og forgangsröðun. Er það dómur, er það sigur, er það ný veröld á nýjum forsendum?

Í textum biblíunnar má segja að gegnumgangandi stef sé von. Von um betri tíð, meira öryggi, meira frelsi.
Framganga Jóhannesar var í anda spámanna Ísraels sem við suma hverja þekkjum og rit þeirra hafa varðveist en vissulega hafa þeir verið fleiri sem hafið hafa upp raust síns og gagnrýnt valdhafa og lífsstíl síns fólks og goldið fyrir það með lífi sínu. Og orð þeirra síðan orðið gleymskunni að bráð. Nú hafði Jóhannes leyft sér að segja eitthvað um Heródes og konu hans sem ekki féll í kramið og því hafði hann verið hirtur upp og honum kastað inn í dimmt skot. Enn var hann samt sem
áður upptendraður af hinni brennandi þrá eftir því að Drottinn kæmi þjóð sinni til bjargar. Hann hefur sennilega rennt í grun, það sem síðar kom á
daginn að lífdagar hans yrðu ekki mikið fleiri. Kannski hefur hann einmitt þess vegna viljað fá fregnir af Jesú og því hvort nú sé loksins að rætast sú heita þrá að drottinn sendi heiminum lausnara sinn.
Jesús notar tækifærið til þess að ögra viðteknum hugmyndum og eiginlega þvinga fólkið til að hugsa hlutina og samhengi þeirra uppá nýtt rétt eins og hann gerði svo oft. Hvað fóruð þið að sjá spyr hann? Einhvern gaur á sparifötum. Nei sannarlega ekki, en orðin sem hann mælti þau voru mikilvæg og hafa lifað. Hann var jafnvel meira en spámaður.
Grunnþema þessa tíma aðventunnar er eftirvænting og von um betri daga. Og náttúran spilar með okkur í þessu hér á norðurslóðum með dvínandi birtu. Þar til viðsnúningur verður og hin margfrægu hænuskref taka að færa okkur agnarlítið lengri dag og meiri birtu. Þau taka undir þetta orðin hans Jóhannesar um Jesú. Hann á að vaxa en ég að minnka. Allt er í heiminum hverfult en grunnreglur Guðs þær vara og stefna upp, fram og í átt til ljóssins.
Búningur og klæðaburður Jóhannesar skírara hefur löngum fylgt frásögnum af honum hann var ekki spariklæddur eða eftir neinum viðteknum venjum. Þetta leiðir hugann að því hversu mikið hlutverk klæði okkar leika í lífi og samskiptum. Meðvitað og ómeðvitað sendum við skilaboð með því hvernig við klæðumst.
Þá kemur mér í hug þessi siður sem segja má að sé fremur nýr en það er að klæðast því sem kalla má ljótri jólapeysu. Siður sem svo sem vænta mátti er sagður upprunninn í henni ameríku og sennilega í sjónvarpsseríum.

Í fyrstu þá verð ég að viðurkenna að þetta fannst mér einstaklega furðulegt og eiginlega fáránlegt. Frá öllum sjónarhólum séð að heita má.
Hvaða tilgangi getur það þjónað að draga fram furðuflíkur og kenna þær við jólin. Ég játa að ég gat bara ekki skilið þetta.
Svo var það hér um daginn að ég mætti einhverjum í sannarlega ljótri jólapeysu og viðbrögðin voru þau að ég gat ekki stillt mig um að brosa og eiginlega hlæja, svona mest í laumi þó. Þá var eins og lykist upp fyrir mér ný sýn. Ekki var hún háspekileg en samt bísna mikilvæg. Er þetta ekki einmitt tilgangurinn, að laða fram bros og jafnvel hlátur, já skapa andrúmsloft glaðværðar og léttleika. Í stað formlegheita kemur léttleiki og frelsi.

Jóhannes skírari átti örugglega enga ljóta jólapeysu en hann var samt óvenjulega klæddur og hegðaði sér á vissan hátt undarlega og kom fólki framandi fyrir sjónir. Hann vakti athygli en markmið hans var ekki að vekja athygli á sjálfum sér heldur þeim boðskap sem hann brann fyrir. Hann hvatti fólk til að endurskoða líf sinn og lífsstíl og bauð því að stíga úr í fljótið til sín og takast á hendur táknræna hreinsun. Hann vildi ryðja braut fyrir því sem koma skyldi. Gera veginn breiðan og sléttan áður en englasveitin kæmi inn til lendingar.
Kannski er það einmitt kjarni málsins á aðventunni. Að ryðja brautir, við þekkjum það vel að ryðja vegi hér á landi þar sem stundum snjóar svo að allt situr fast. Það getur nefnilega líka gerst í eigin sálarlífi að allt sitji fast, hjólin spóla laus í skafli en við sitjum samt kyrr og komumst hvergi. Þá þarf að moka eða kalla til hjálp, einhver sem eru reiðubúin að leggja lið og styðja, sem koma setja band í og draga yfir hindrun og þá er hægt að halda áfram af eigin rammleik. Það versta sem hægt er að gera er að gera ekki neitt.

Í hinu trúarlega samhengi er markmið aðventunnar að ryðja braut að skoða huga sinn og leitast við að gera sér grein fyrir því hvað það er sem stendur í vegi fyrir því að ég geti gengið með opnum huga inn í undur jólahátíðarinnar. Tekið jólabarnið í faðminn og fundið kærleikann fylla hjartað. Og þeir eru þess eðlis margir af okkar góðu siðum. Að finna gjafir fyrir fólkið sitt, eitthvað sem við vonum að geti orðið þeim til gleði.
Að senda kveðjur til vina fjær og nær. Að gefa í hjálpar eða líknarstarf til handa þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Að skreyta prýða og lýsa upp heimili sitt. Að fara og kveikja ljós og setja litla skreytingu á leiði ástvina.

Allt eru þetta dæmi um jákvæða og dýrmæta siði sem einmitt eru til þess gerðir að ryðja braut, opna leið að eigin hjarta fyrir hinn sanna jólaanda, gleði og kærleika sem kemur með Jesúbarninu. Við skulum nota þá fáu daga sem enn eru til jóla í einmitt þetta, að opna og greiða leiðir í átt til annars fólks og í átt til trúarinnar, í átt til Guðs sem opinberar sig í litlu barni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.

Sr. Eiríkur Jóhannsson, prestur í Hallgrímskirkju