Tveir framúrskarandi íslenskir trompetleikarar og margverðlaunaður franskur orgelleikari koma fram á Kirkjulistahátíð íkvöld, miðvikudaginn 5. júní kl. 20.
Segja má að Jóhann Nardeau og Baldvin Oddsson hafi slegið í gegn á Hátíðarhljómum um síðustu áramót í Hallgrímskirkju og nú koma þeir aftur til Íslands og leika með David Cassan sem vann m.a. fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu orgelkeppninni í Chartre í Frakklandi 2017.
Þeir félagar leika mörg fegurstu verk tónbókmenntanna eftir Charpentier o.fl. og Cassan leikur hina gullfallegu tríósónötu nr. 1 eftir J.S. Bach, úr Pieces for a musical clock eftir Georg Friedrich Händel og Árstíðirnar eftir Vivaldi í umskrift fyrir orgel ásamt því að spinna í barokkstíl!
Fullt verð er 4.900 kr. og er afsláttur til öryrkja, eldri borgara og nemenda, en listvinir fá 50% afslátt.
Miðasala er í kirkjunni og við innganginn og einnig á midi.is.
Baldvin Oddsson hóf trompetnám við Tónskóla Sigursveins fimm ára gamall og lauk þaðan framhalds-og burtfararprófi með tónleikum í Seltjarnarneskirkju tíu árum síðar. Baldvin hefur síðan verið við tónlistarnám í Bandaríkjunum, fyrst við Interlochen Arts Academy í Michigan, þá við San Francisco Conservatory of Music og loks veturlangt hjá trompeteinleikaranum Stephen Burns í Chicago. Baldvin lauk námi frá Manhattan School of Music árið 2016. Í Michigan fór hann með sigur af hólmi í einleikarakeppni skólans og lék í kjölfarið einleik með skólahljómsveitinni. Baldvin sigraði einnig í keppni ungra einleikara með Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék einleik með hljómsveitinni, auk þess sem hann lék margoft með trompetdeild hljómsveitarinnar. Baldvin kom fram á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju árið 2013 ásamt kennara sínum, trompetvirtúósinum Stephen Burns. Þá lék hann á Hátíðarhljómum við áramót í Hallgrímskirkju í lok árs 2017 og 2018 og kom fram á Alþjóðlegu orgelsumri í kirkjunni árið 2018.
Franski orgelleikarinn David Cassan er einn helsti orgelleikari yngri kynslóðarinnar í Evrópu. Hann nam við tónlistarháskóla í Caen og Lyon, en meðal kennara hans voru Thierry Escaich og Philippe Lefebvre. Cassan er eftirsóttur konsertorganisti og hefur komið fram með flestum helstu hljómsveitum Frakklands og haldið tónleika í fjölmörgum löndum. Hann leggur sig helst eftir verkum eftir Johann Sebastian Bach og eftir frönsk tónskáld frá 19. og 20. öld. Cassan hefur sérstakt dálæti á orgelspuna og leikur reglulega undir þöglum kvikmyndum á orgel eða píanó. Hann hefur hlotið mörg verðlaun í orgelkeppnum, til að mynda í Chartres í Frakklandi, St Albans á Englandi og í Haarlem í Hollandi. Í kjölfar sigra sinna hefur hann verið beðinn um að sitja í dómnefndum í slíkum keppnum. Cassan heldur meistaranámskeið fyrir orgelnemendur víða um lönd og kennir orgelleik og orgelspuna við tónlistarháskóla í Nancy og Saint-Maur-des-Fossés í Frakklandi. David Cassan er aðalorganisti (titulaire du Grand-Orgue) við Oratoire du Louvre-kirkjuna í París.