75 ára afmæli Hallgrímssafnaðar

25. október 2015
Sr. Karl Sigurbjönsson, fyrrum biskup og áður sóknarprestur Hallgrímskirkju, prédikaði í hátíðarmessunni 25. október, 2015. Prédikun hans er hér á eftir.
Gleðilega hátíð!

Það er sem guðspjall dagsins tali beint til okkar á afmælishátíð, þessi orð fyrirheita og vonar:  „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru... Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra“  Þetta þurfum við einmitt að heyra. Okkur er svo gjarnt að líta á hlutverk kirkju og safnaðar sem sáningarstarf. Þá er þreytan og uppgjöfin á næsta leiti, grýtt og ófrjó jörð og óvænt hret sem gera erfiði manns að engu. Sjónarhorn uppskerunnar er hins vegar þrungið fögnuði og þakklæti, vonarbjartri framtíðarsýn.  Það stýrði för þeirra sem stóðu að stofnun Hallgrímssafnaðar. Mitt í stórviðri heimstyrjaldarinnar var hafist handa að mynda söfnuð og reisa helgidóm í minningu þess manns sem þjóðin mat mest sem andlegan föður og sálnahirði í sorg og gleði, Hallgrím Pétursson. Það var stefnumörkun um að ausa af lindum þess besta, sem andlegur arfur þjóðarinnar geymdi, og veita frjómagni þess yfir hrjósturlönd menningar og samfélags. Guði sé lof fyrir það og fyrir það góða fólk, sem enn heldur þeirri iðkun og starfsemi uppi, og leggur lið með einum eða öðrum hætti! „Einn sáir og annar upp sker...Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“

Hallgrímssöfnuður var húsnæðis og aðstöðulaus þegar hann var stofnaður og mörg fyrstu starfsárin. En hafði fengið viðameira verkefni á herðar lagt en nokkur söfnuður fyrr og síðar í Íslandssögunni: að reisa þjóðarhelgidóminn. Það varð löng vegferð og ströng og jarðvegurinn næsta grýttur. Um það má lesa í hinni fögru og fróðlegu bók, Mínum Drottni til þakklætis, saga Hallgrímskirkju, sem kemur út í dag – og innilega til hamingju, höfundur og aðstandendur allir - . Já, það er baráttusaga, þar sem iðulega var ófæran ein sem við blasti.

„Kirkja er ekki hús heldur fólk,“ er sagt. Það hljómar svo satt og rétt. Ég hef oft tekið undir það, ja, en nú er ég hreint ekki svo viss. Þetta er hálfsannleikur, eins og stórar staðhæfingar eru nú oft og einatt. Vissulega er kirkja umfram allt atburður þar sem safnast er saman um borðhald sem hinn krossfesti og upprisni Kristur býður til, atburður þar sem við fáum að líta „gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp...“ En húsið, helgidómurinn er samt sem áður nauðsynlegur þeim atburði. Hús Guðs stendur fyrir samhengi staðar, stunda og samfélags. Það geymir minningar og sögur sem mynda hljómbotn fyrir reynslu manns af samfundum við og lærisveinafylgdinni með Kristi. Trú og andlegt líf sem lætur sig engu varða hefðir og siði og helgidóma verður sjálfhverft, tilfinningabundið og mun ekki geta af sér afkomendur, yfirfærist ekki yfir til næstu kynslóðar. Húsið, helgidómurinn og iðkun hans og athöfn skiptir máli. Það vissu þau sem stóðu að stofnun Hallgrímssafnaðar.
„Einn sáir og annar upp sker... Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“

Á 75 ára sögu Hallgrímssafnaðar hefur íslenskt samfélag gengið gegnum meiri umbyltingar en á nokkru öðru tímabili sögunnar. Mörgum finnst sem napurt haustmyrkur grúfi yfir kristni þessa lands um þessar mundir og hretin lemji og trúin finni ekkert skjól. Haust. Já, en orðið haust merkir uppskera! Í myrkri moldar dylst fræ sem spírar og bíður þess að vaxa fram á nýju vori barmafullt af fyrirheitum um nýja uppskeru. Forgengileikinn er þungaður von og framtíð.

Það er ekki aðeins umhverfið hér á holtinu sem er óþekkjanlegt, heldur mannlífsflóran í borginni. Hallgrímssókn er miðborgarsamfélag af sama toga og finna má í borgum nágrannalandanna. Umhverfið hér einkennist af sívaxandi ferðamennsku og þar hefur Hallgrímskirkja mikið aðdráttarafl, sem ein af tíu athyglisverðustu kirkjubyggingum heims samkvæmt erlendum ferðamannavef. Fyrir löngu orðin tákn höfuðborgarinnar, ef ekki landsins alls, þessi minningarkirkja Passíusálmaskáldsins, sem signir borg og land krossins merki. Fjölbreytnin eykst og æ fleiri setjast hér að frá fjarlægum álfum og menningarheimum. Það er vel. Ég hef orðað það sem svo að ég vilji fremur sjá samfélagið sem íslenskan lyngmó en snöggt sleginn golfvöll. En það er kirkjunni áskorun þegar þeim fækkar stórum sem finna sig hluta af samfélagi hennar, fjölmenningin skapar kirkjunni nýjar aðstæður, gesturinn og útlendingurinn sem knýja á okkar dyr er áður óþekkt áskorun.

Í Gamla testamentinu er okkur einu sinni boðið að elska náungann, en um fjörutíu sinnum erum við hvött til að elska útlendinginn. Hann birtist þar enn og aftur sem verkfæri Guðs sem bjargar, frelsar og læknar. Jesús setur Samverjann fram sem fyrirmynd í dæmisögu sinni sem er áhrifamesta saga allra tíma. Af Jesú lærum við að við erum sjálf gestir og útlendingar, háð miskunnsemi annarra, jafnvel af hendi þeirra sem okkur hefur verið kennt að forðast. Jesús segir að við mætum honum í gestinum og þeim sem eru utangarðs, í þeim nakta og hungraða og fjötraða. Gesturinn og útlendingurinn eru gjafir til samfélagsins en ekki byrði. Slíkt samfélag, slíka menningu ber kirkjunni að móta og rækta innan sinna raða og í umhverfi sínu.

Enn og aftur fáum við fréttir af því að níðst sé hér á aðfluttu vinnuafli, fólki, sem hingað er flutt frá framandi löndum og meðhöndlað sem réttlausir þrælar.  Þetta er myrk bakhlið velsældar Vesturlanda. Ástæða er til að hafa áhyggjur af vaxandi umburðarleysi sem bitnar á múslimum sem og Gyðingum. Gamla Grýla gyðingahatursins er hreint ekki dauð. Og ekki síður er ástæða til að hafa áhyggjur af hinni guðlausu veraldarhyggju, sem hatast við trúarbrögð og trúariðkun, einatt undir grímu víðsýnis og umburðarlyndis, og mótar í vaxandi mæli viðhorf ungs menntafólks. Trúarbrögðin gegna mikilvægu hlutverki í mannlegu samfélagi og geta verið ómetanlegt afl til lækningar og heilsu heiminum okkar ef áhrif mildi og miskunnsemi fá að ráða för. Án slíkrar trúar er mannkyn varnalaust gegn öflum sem álíta að máttur og megin mannsins eigi að ráða og að réttur, réttlæti og sannleikur sé á bandi hins auðuga og volduga og háværa. Ekkert vald, engin áhrif hafa fært heiminum viðlíka gæði og ljós og andi Jesú Krists. Tilvera, iðkun og athöfn kirkjunnar er ætlað það hlutverk framar öllu að greiða þeim áhrifum veg til heilla fyrir menningu og samfélag.

Fyrir réttum fjörutíu árum, þegar ég var nýorðinn prestur hér við Hallgrímskirkju, kynntist ég öldruðum manni sem átti hér oft leið um og hafði tekið ástfóstri við kirkjuna. Hann hét Hans Mann Jakobsson og var Gyðingur. Hann tók það upp hjá sjálfum sér að ganga hér reglulega kringum kirkjuna og hreinsa rusl og halda umhverfinu hreinu, en það var þá óhrjálegt byggingasvæði eins og við munum mörg. Oft áttum við tal saman og hann sagði mér sögu sína. Hann hafði komið hingað ásamt móður sinni, systur og mági, sem flóttamaður undan heiftaræði Hitlers. Saga hans var áhrifarík. Ég fyrirvarð mig þegar hann lýsti þeim móttökum sem þau fengu hér.  Enn og aftur var reynt að reka þau úr landi að boði yfirvalda, sem voru staðráðin í að Ísland skyldi vera hreint af Gyðingum. Alls konar gott fólk vissi vel af þessu og lokaði á samvisku sína. Alls konar hagsmunir í húfi í litlu, fátæku landi í viðjum kreppunnar. Verkalýðsfélögin kröfðust þess að þeim yrði vísað úr landi og til síns heima. „Til síns heima,“ þar sem búið var að dæma þetta fólk til dauða á grundvelli kynþáttar og trúar og verið var að smíða gasklefa til að þurrka það út endanlega!

Embættismenn munduðu penna sína og stimpla. Góða og grandvara fólkið vissi ekki og vildi ekki vita. Þau er svo nístandi sönn og afhjúpandi orð þýska prestins Martin Niemöller, sem sat í fangabúðum nasista: „Fyrst komu þeir að ná í kommúnistana. En ég var ekki kommúnisti, svo ég sagði ekkert. Þá tóku þeir jafnaðarmennina, en ég var ekki jafnaðarmaður svo ég gerði ekkert. Svo komu þeir að sækja verkalýðsleiðtogana, en ég var ekki verkalýðsleiðtogi og gerði því ekkert. Svo sóttu þeir Gyðingana, en ég var ekki Gyðingur og lét það afskiptalaust. Og þegar þeir sóttu mig, þá var enginn eftir sem gat talað máli mínu.“

Árið 1940, árið sem Hallgrímssókn var stofnuð, var gefin út skipun um að handsama Hans Mann og móður hans, og draga nauðug í skip til flutnings til Þýskalands. Áður en að því yrði hernámu Bretar Ísland svo ekki var unnt að framfylgja þessari stjórnvaldsákvörðun.

Þegar ég kynntist Hans Mann hafði hann þó nýlega hlotið íslenskan ríkisborgararétt. Það snart mig hve hann var þrátt fyrir allt þakklátur Íslendingum fyrir hælið sem hann hlaut hér, „í landinu sem Guð valdi mér,“ sagði hann. Þrátt fyrir alla illsku og hatur sem hann hafði mátti reyna þá bar hann ekki kala til nokkurs manns, öðru nær. Hvað maður hefur oft þurft að minna sig á það! Virðing hans fyrir þessum helgidómi og Gyðingnum Jesú frá Nasaret var heil og einlæg, það fór ekki milli mála.

Hans kvæntist og eignaðist góða konu. Þegar hún féll frá kom það í minn hlut að jarðsyngja hana. Ég gleymi aldrei stundinni yfir gröf hennar í kirkjugarðinum. Þegar ég hafði farið með bænarvers Hallgríms Péturssonar, sem gjarna hefur orðið við slíkar aðstæður á Íslandi, þá gekk Hans fram, rétti fram hendur sínar og vaggaði sér fram og aftur eins og Gyðinga er háttur og söng veikum rómi hina fornu gyðinglegu bæn, Kaddish, bæn syrgjenda, á hebresku. Þar er þetta viðlag: „Hans háleita nafn sé blessað héðan í frá og að eilífu“ - á hebresku: „Yehei shmëh rabba mevarakh lealam ulalmey almaya.“   Ég finn enn og aftur kökkinn í hálsinum þegar þessi veika rödd rauf grafarkyrrðina, þrungin sorg yfir missi lífsförunautar, en líka harmi vegna allra þeirra mörgu sem hann hafði misst, já fjölskyldu og nágranna og trúsystkina sem mættu dauða sínum í útrýmingarbúðunum. Löngu síðar, nú fyrir réttum tíu árum, var haldin samkirkjuleg friðarbæn hér í Hallgrímskirkju í minningu stríðsloka. Minnugur þessarar stundar í kirkjugarðinum forðum fékk ég Gyðing sem hér býr til að tóna þar þessa sömu, fornu bæn í minningu fórnarlamba helfararinnar. Ég hef lifað margar stórar stundir og undursamleg tónverk undir hvelfingum Hallgrímskirkju, en fátt hefur snortið mig eins djúpt og þetta.

Þessi minning hefur leitað svo á mig undanfarið í umræðunni um hælisleitendur og flóttamenn, og stöðu kirkju og trúar. Og svo hefur því verið haldið á lofti að Passíusálmarnir séu mótaðir af Gyðingahatri. Virt alþjóðastofnun hefur hvatt Ríkisútvarpið til að hætta að útvarpa lestri þeirra af þeim sökum. Er Hallgrímur sekur um gyðingahatur? Í Passíusálmunum eru Gyðingar, samlandar Jesú, vissulega nefndir til sem dæmi um trúarhroka og harðúð. Við Íslendingar megum minnast okkar hlutar í gyðingaandúð og fordómum og læra af Hallgrími!  Því þegar hann vísar til Gyðinga í Passíusálmunum þá er það til að áminna sjálfan sig og vara okkur við. Hann er ekki að setja sjálfan sig á háan hest siðgæðislegra og trúarlegra yfirburða. Nei. Hann yrkir:
Ókenndum þér, þó aumur sé,

aldrei til leggðu háð né spé.

Þú veist ei hvern þú hittir þar,

heldur en þessir Gyðingar.

 

Sjálfan slær mig nú hjartað hart;

hef ég án efa mikinn part

af svoddan illsku ástundað.

Auðmjúklega ég meðgeng það.   (Ps.14)

Og eins segir hann:

Eg má vel reikna auman mig

einn í flokk þeirra manna,

sem í kvölinni þjáðu þig,

það voru gjöld syndanna.

En þú sem bættir brot mín hér,

bið þú nú líka fyrir mér,

svo fái eg frelsun sanna. (Ps.34)

Svona tekur Hallgrímur sér stöðu í hópi þeirra sem hrópuðu dauða og fordæming yfir Jesú: „Ég er engu betri en þau,“ segir hann, og varar okkur við. Það er svo auðvelt að sjá gestinn og aðkomumanninn sem ógn. Enn í dag mætum við óþekktu fólki, sem leitar á náðir okkar. Og enn í dag horfum við upp á hliðstæður atburðanna í Jerúsalem þegar Jesús stóð þar bundinn fyrir dóm. Gætum þess að við gerumst ekki lagsmenn þeirra sem gefa óvild og hatri lausan tauminn, þeirra sem þegja þunnu hljóði og leyfa hrópum ofstopans að taka yfir eða þeirra sem slæva samvisku sína af hlýðni við valdið.
„Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“

Þegar ég stend hér nú á merkum tímamótum í sögu Hallgrímssafnaðar er mér efst í huga þakklæti fyrir þau ár sem ég átti hér, já frá barnæsku og svo um næstum aldarfjórðung sem prestur. Þar naut ég þess að skera upp það sem aðrir sáðu til og erfiðis hinna ótal, ótal mörgu. Guð launi það og blessi. Ég sé fyrir mér andlit þeirra mörgu sem ég naut samstarfs við, forvera míns og fermingarföður, séra Jakobs, séra Ragnars Fjalar, samstarfsmanns míns næstum allan starfstíma minn, forystufólks safnaðarins, umfram allt Hermanns Þorsteinssonar, sem stóð í eldlínunni, og svo sé ég fyrir mér fólkið sem birti alla litaskala mannlífsins og sem kom með gjafir sínar stórar og smáar til byggingar og prýði Hallgrímskirkju. Nöfnin öll eru skráð í huga Drottins og hjarta, hann blessi þau og alla sína þjóna og verkfæri lífs og liðin. „Einn sáir og annar upp sker.“ Já, orð Hans til Hallgrímssafnaðar á sjötíu og fimm ára afmæli eru ótvíræð og vonarrík: „Ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru... Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“  Dýrð sé Guði…

Hallgrímskirkja, 25. okt. 2015,  21.sd. e. trin. 75 ára afmæli Hallgrímssafnaðar

Jóh 4.34-38