Hallgrímssöfnuður á afmæli og er áttatíu ára. Árið 1940 ákvað Alþingi að stofna þrjár nýjar sóknir í Reykjavík og þar á meðal var Hallgrímssókn. Fyrstu árin var helgihald í Austurbæjarskóla. Bygging Hallgrímskirkju hófst svo árið 1945 og þremur árum síðar var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt. Í lok október er ártíðar Hallgríms Péturssonar og vígslu kirkjunnar minnst.
Hallgrímskirkja er mikið hátíðahús og vaninn að efna til litríks helgihalds og menningarviðburða. En gleði kirkju og samfélags eru nú skorður settar. Hvernig er hægt að fagna á þessum sóttvarnatíma? Kirkjan er hverfiskirkja og þjóðarhelgidómur. Hallgrímskirkja er komin á ofurskrár heimshúsa topp tíu, topp fimmtíu og topp hundrað. Hún er á ofurlistum um mikilvæga ferðamannastaði, hrífandi kirkjur og mikil steinsteypumannvirki. Hún er líka á lista the Guardian sem eitt af tíu mikilvægustu tilbeiðsluhúsum heims. Fólk nær sambandi hvort sem það leitar sjálfs sín, friðar, vonar eða Guðs.
Þó auglýstar athafnir verði ekki í kirkjum þjóðarinnar í október eru kirkjurnar opin bænahús. Alla daga er opið í Hallgrímskirkju milli 11 og 14. Það er gott að sækja í kyrru Hallgrímskirkju til að stilla huga, íhuga, kveikja kerti, hlusta á tónlist orgels eða veðurs og njóta síbreytilegs ljósaleiks himinsins utan glugganna. Að fara í kirkju styrkir fólk, líka á álagstímum. Í stað þess að láta skuggana lita sálarlífið getum við ákveðið að leggja rækt við það sem skiptir okkur máli og það sem gleður og eflir. Hallgrímskirkja er hlið himins fyrir okkur öll. Verið velkomin.
Grein Sigurðar Árna í Morgunblaðinu 20. október. Árni Sæberg/Mbl tók myndina af Hallgrímskirkju sem birtist með greininni.