Sunnudaginn 1. ágúst er guðsþjónusta kl. 11.00 í Hallgrímskirkju.
Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða.
Organisti er Kjartan Jósefsson Ognibene. Sem forspil leikur hann "Upp skapað allt í heimi hér" e. Jesper Madsen og sem eftirspil "Fantasíu" e. Jean Langlais.
Forsöngvarar eru Guja Sandholt, Hugi Jónsson, Margrét Hannesdóttir og Þorsteinn Freyr Sigurðsson.
Sálmar sunnudagins eru:
Upp skapað allt í heimi hér nr. 34 í sálmabók
Á meðan sól og máni lýsa nr. 841 í sálmabók
Það sem augu mín sjá nr. 842 í sálmabók
Gefðu að móðurmálið mitt nr. 532 í sálmabók
Kórsöngur eftir prédikun er forni sálmurinn "Alta trinita beata"
Prédikunarefni sunnudagsins er úr Lúkasarguðspjalli 16. kafla en guðspjall dagsins er :
"Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef ekki er hægt að treysta yður fyrir eigum annarra, hvernig getur Guð þá treyst yður fyrir því sem hann ætlar yður að eiga sjálf? Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Fjallað verður um hið smáa í lífinu og að vera trúr í því smæsta og þeim smæstu. Það hefur verið sagt að sannur auður samanstandi ekki af því sem við náum að nurla saman eða safna heldur því sem við gefum frá okkur.
Umhverfisvá og sóun eru svo næsti bær við og hlutverk okkar í sístæðri sköpun Guðs að vera "Gæslumenn lífsins" eins og dr. Björn Björnsson fyrrum prófessor við Guðfræðideild HÍ orðaði svo fallega.
Veltum fyrir okkur hvar auðævi lífsins finnast og hlustum eftir gæslufólki lífsins á ferð með skapara sínum og frelsara og hvert með öðru.