Minning

14. febrúar

Sr. Karl Sigurbjörnsson biskup lést þann 12. febrúar á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík, 77 ára að aldri.

Ævi hans er samofin sögu Hallgrímssafnaðar og byggingu Hallgrímskirkju, og sú saga nær allt til bernskuára þegar faðir hans, Sigurbjörn Einarsson, var prestur hér í sókninni og framundan var bygging Hallgrímskirkju. Sú saga hófst reyndar áður en Karl var borinn í þennan heim en þegar kirkjan var vígð, 1986, þá var sr. Karl hér sóknarprestur. Í Hallgrímskirkju var hann vígður til embættis biskups Íslands árið 1997.

Karl var farsæll sálusorgari síns safnaðarfólks og svo margra annarra. Minni hans var óbrigðult á fólk, sögu, listaverk, kirkjugripi, sálma og kirkjutónlist. Þess naut söfnuðurinn hér og svo margir aðrir.

Kímnigáfa og broslegar frásögur Karls vöktu gleði og kátínu. Hann var sóknarprestur sem gekk í takt við söfnuð sinn og fólk og í öll störf hvort sem var að hreinsa mótatimbur á byggingarárum, styðja við starf kvenfélagsins og hlúa að barna- og æskulýðsstarfi eða vera ráðgjafi þegar kom að listrænum þáttum og skreytingum í kirkjubyggingunni af einstakri smekkvís.
Þeirri smekkvísi ber margt merki hér í kirkjunni þar sem ljósið fær að streyma óáreitt inn um háa glugga og minna okkur á þann sem er ljós heimsins bæði í gleði og sorg, Jesú Krist.

Prédikun sr. Karls varð mörgum til blessunar og umhugsunar um boðskap trúarinnar. Prédikun sem var í anda þess sem Hallgrímur Pétursson yrkir í 35. Passíusálmi

„Gefðu að móðurmálið mitt,
minn Jesú, þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt út breiði“

Hallgrímssöfnuður þakkar störf sr. Karls, trúmennsku og vináttu alla tíð með orðunum úr
1. Korintubréfi 15:57.

„Guði sé þakkir, sem gefur okkur sigurinn fyrir Drottinn Jesú Krist!“
Þeirri sterku upprisutrú miðlaði Karl Sigurbjörnsson með prédikun sinni, sálusorgun og störfum.Hallgrímssöfnuður og starfsfólk Hallgrímskirkju vottar fjölskyldu sr. Karls og ástvinum innilega samúð.
--------------------------------------
Sr. Karl fæddist 5. febrúar 1947 í Reykjavík.
Hann var sonur dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups og Magneu Þorkelsdóttur.
Karl var sjötti í röð átta systkina. Hann ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og síðar cand. theol frá Háskóla Íslands.
Sr. Karl vígðist til prestþjónustu í Vestmannaeyjum þann 4. febrúar árið 1973 og var skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík þann 1. janúar 1975 og þjónaði þar í tæp 23 ár. Sr. Karl var kjörinn biskup Íslands árið 1997 og tók við 1. janúar árið 1998 og gegndi því embætti í 14 ár. Hann þjónaði eftir það um tíma í Dómkirkjuprestakalli.
Sr. Karl var skipaður heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Hann gegndi ýmsum trúnarðarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna, sat í stjórn Prestafélags Íslands, var kirkjuþingsmaður og í kirkjuráði áður en hann var kjörinn biskup Íslands.

Eftir hann liggja fjölmargar bækur og rit, frumsamin og þýdd.
Eftirlifandi eiginkona hans er frú Kristín Þórdís Guðjónsdóttir.
Börn þeirra eru Inga Rut, sem er gift sr. Sigurði Arnarsyni, Rannveig Eva og Guðjón Davíð kvæntur Ingibjörgu Ýr Óskarsdóttur.-
Barnabörnin eru átta talsins.

Eftir: Sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur sóknarprest í Hallgrímskirkju