Hjördís Jensdóttir kom brosandi inn í sólbjarta Hallgrímskirkju. Hún var komin í morgunmessu á miðvikudagsmorgni og flutti hugleiðingu dagsins. „Kirkjan er mér svo mikils virði“ sagði Hjördís eftir messu. „Eiginlega hefur hún verið mér akkeri í lífinu. Á COVID-tímanum einangraðist maður. Ástvinirnir vildu ekki smita mig og ég fór ekkert. En prestarnir voru alltaf með bænastundir í hádeginu. Ég gat því farið í kirkjuna. Þessar kirkjuferðir björguðu heilsunni á erfiðum tíma. Svo hefur það gefið mér mjög mikið að vera messuþjónn í sunnudagsmessunum, taka á móti fólki sem kemur í kirkjuna, flest brosandi. Mér þykir gott að geta flutt boðskap kirkjunnar í messunum og fara með bænir. Þetta er kirkjan mín og ég er svo þakklát fyrir stuðning starfsfólksins og samveru í kirkjunni minni.“
Hjördís Jensdóttir tekur þátt í starfi Hallgrímskirkju. „Þetta er samfélag,“ sagði Hjördís. Sjálfboðaliðarnir í kirkjunni eru á annað hundrað. Já, kærleikssamfélagið býður alla velkomna í Hallgrímskirkju, til helgihaldsins og bæta þarf í messuhópana. Hjördís mælir með kirkjustarfinu.
sáþ