Alþjóðlegt orgelsumar - Tónleikar á fimmtudegi og um helgina

06. júlí 2016

Fimmtudagur kl. 12


Konur og Klais


Orgelverk eftir kventónskáld leikin í Hallgrímskirkju


Orgelverk eftir konur verða leikin á Klais-orgel í Hallgrímskirkju fimmtudaginn 7. júlí kl. 12, en þá heldur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti Akureyrarkirkju, tónleika á Alþjóðlegu orgelsumri. Tónskáldin eru fædd í Evrópu og Bandaríkjunum á 19. og 20. öldinni og eru verkin afar fjölbreytt, en öll eiga tónskáldin það þó sameiginlegt að hafa samið fjölda sönglaga.

Elst kvennanna er Fanny Mendelssohn Hensel, fædd 1805 í Þýskalandi, en hún var systir Felix Mendelssohns. Florence B. Price var fyrsta bandaríska konan af afrískum uppruna sem fékk verk eftir sig flutt af sinfóníuhljómsveit árið 1933 og Emma Lou Diemer er bandarískur organisti á og prófessor emeritus í tónsmíðum. Þá er á dagskránni verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur frá 2012 sem ber heitið Konan og drekinn, sem hún skrifaði að beiðni Þjóðkirkjunnar út frá versum úr Opinberunarbókinni.



Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.

Sigrún starfar nú sem  organisti  við Akureyrarkirkju, við Möðruvalla­klausturs­kirkju í Hörgárdal og kennir við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager. Sigrún er framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju og Kirkju­lista­viku í Akur­eyrar­kirkju.

Aðgöngumiðar eru seldir klukkustund fyrir tónleika í anddyri kirkjunnar og kosta 2000 kr.

 

 

 

Laugardag kl. 12 og sunnudag kl. 17

Orgelfranska fyrir byrjendur

Kári Þormar leikur franska orgeltónlist um helgina í Hallgrímskirkju

„Franska fyrir byrjendur“ segir dómorganistinn Kári Þormar að tónleikar sínir á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju gætu kallast, en hann hefur sett saman efnisskrá með aðgengilegum frönskum orgelverkum frá 19. og 20. öldinni. Mikil og rík orgelhefð er í Frakklandi og víst að af nógu er að taka þegar velja á stórfengleg orgelverk til flutnings.

Elst tónskáldanna er César Franck, fæddur 1822, sem var mikilvirkt tónskáld og kennari í París og þekktur fyrir gríðarlega færni í spuna. Yngsta tónskáldið er hinn líbansk-franski Naji Hakim sem fæddist 1955 og tók árið 1993 við af sjálfum Messiaen sem organisti í Kirkju heilagrar þrenningar í París. Auk þess mun Kári leika verk eftir Widor, Langlais, Alain og Boëlman.

TónleikarKári Þormar, Dómorganisti Kára verða laugardaginn 9. júlí kl 12 og sunnudaginn 10. júlí kl 17.  Aðgöngumiðar verða seldir klukkustund fyrir tónleika í anddyri kirkjunnar og á midi.is. Miðverð á laugardegi er kr 2000 og kr 2500 á sunnudeginum.

Kári Þormar, sem var meðal fyrstu orgelnemenda Harðar Áskelssonar á nývígt Klais-orgel Hallgrímskirkju, lauk burtfararprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar og síðar lauk A kirkjutónlistarnámi frá Robert Schumann háskólanum í Düsseldorf með 1. einkunn. Kári hefur haldið fjölda orgeltónleika, bæði hér heima og erlendis, þar á meðal á alþjóðlegri orgelhátíð í Álandseyjum og á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Mühlhausen í Þýskalandi. Hann hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi sem organisti, píanókennari og kórstjóri en á þeim vettvangi var hann tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna með Kór Áskirkju fyrir geisladiskinn Það er óskaland íslenskt. Kári tók við stöðu dómorganista árið 2010. Hann hefur sérhæft sig í flutningi á verkum frönsku orgelmeistaranna, eins og sést á prógrammi hans í sumar þar sem hann leikur verk eftir Boëllmann, Alain, Franck, Langlais, Widor og hinn líbansk-franska Naji Hakim.