Athvörf

06. nóvember 2020
Hún sat framarlega í kirkjunni.
Baksvipurinn og slegið hárið vöktu athygli, sérstaklega þessa dagana þegar fáir leggja leið sína í kirkjuna.  Svo kom hún gangandi til móts við mig,  gríma huldi hálft andlitið en í augunum spurn.
Hún heilsaði á ensku, sagði nafnið sitt og hvaðan hún væri og hvort ég gæti beðið með henni.  Beðið fyrir afa hennar sem var nýlega látin og átti að jarðsyngja í heimalandinu á þeirri stundu sem við stóðum þarna milli bekkjanna.
Engin heimferð í boði fyrr en síðar.
Hún komst ekki til að kveðja og athvarfið fyrir sorg hennar og kveðju var kirkjan.
Við  minntumst afa sem hún saknaði sárt og gat ekki hvatt.
Báðum Guð að vera nálægan, styðjandi, umvefjandi í kærleika sínum.
Bænin er athvarf og orð um það sem hvílir á okkur, við þráum og við söknum.



Nærvera konunnar og saga minnti mig á að kirkjan er athvarf.  Staðurinn þangað sem þú kemur með tilfinningar og lífsreynslu sem enginn annar staður er frátekinn fyrir.   Allt það fallega og líka það erfiða

Kirkja er ekki bara stofnun, skrauthýsi eða hús heldur samfélag um bæn, hugsanir,  samhug og kærleika.   Kirkjan er athvarf.  Athvarf fyrir okkar fallegustu minningar og kveðjustundir
Athvarf líka fyrir okkar sárustu hugsanir og lífsreynslu.

..og unglingar velja að að koma til kirkjunar og taka þátt í fermingarfræðslu og síðan láta ferma sig.  Kirkjan er athvarf fyrir stefnumót þeirra við Guð í samhengi kirkjunnar.  Í fermingarfræðslu fyrir u.þ.b. tveimur árum voru þau mætt hingað í kórkjallara kirkjunnar og við ræddum um hvernig Guð birtist okkur,  hver er mynd okkar af Guði.  Er hann kærleiksríkur,  umhyggjusamur, almáttugur.  Þau fengu blað með lýsingarorðum ...bæði jákvæð og neikvæð.

Þeirra verkefni var að setja hring utan um orðin sem þeim fyndist síst eiga við um Guð.  Það var eitt orðið sem þau völdu mörg og sem sat eins og eftir í huganum. Orðið sem umræðir var áhugalaus.
Guð er aldrei áhugalaus um þig eða mig, sköpun sína eða náunga.

Kirkja er samfélag sem gengur í spor Krists hér á jörðu með, kærleika og réttlæti og umhyggju að leiðarljósi gagnvart þeim sem eiga ekki öruggt athvarf.
Ofbeldi á heimilum er mynd af skjólleysi, skuggablettur á samfélagi sem gleymir vernd sinni.  Þau sem líða undan heimilisofbeldi eiga ekki athvarf á heimili sínu. Ofbeldi sviptir fólk öryggi og þá er ekkert athvarf aðeins skuggi sem skýlir engum heldur tekur frá þeim sem síst skyldi öryggi og athvarf.
Skuggi vængjanna sem segir frá í Sálmum Gamla testamentisins skýlir fyrir sólarhitahita landanna þar sem Biblían varð til og frelsarinn gekk um.
Skuggi ofbeldis er andstæða við skjólið og er bara myrkur.  Í þessu myrkri eru bæði börn og fullorðnir.  Verndum þau, hlustum á þau, gefum þeim rödd sem enga rödd hafa.

Biðjum fyrir þeim sem finna enga aðra leið en ofbeldi út úr angist sinni og vanmætti.
----------

Sálmur 36 fjallar um öruggt skjól og athvarf
Drottinn, til himna nær miskunn þín,til skýjanna trúfesti þín.
Réttlæti þitt er sem hæstu fjöll, [
dómar þínir sem reginhaf.
Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð,
mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
Þau seðjast af nægtum húss þíns
og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna
því að hjá þér er uppspretta lífsins,
í þínu ljósi sjáum vér ljós.