Baráttukonur í Biblíunni

30. janúar 2021
Næstkomandi þriðjudag, 2. febrúar, tökum við upp þráðinn hér í Hallgrímskirkju þar sem frá var horfið í október í fræðsluerindum presta Hallgrímskirkju .  En aðstæður vegna Covidfaraldurs setja okkur takmörk enn um sinn svo fræðslunni verður streymt á Facebooksíðu kirkjunnar og hefst kl. 12.05  næsta þriðjudag.
Efni fræðslunnar að þessu sinni er „Baráttukonur í Biblíunni“
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prestur í Hallgrímskirkju annast fræðsluna og segir frá merkiskonum Biblíunnar  næstu 4 þriðjudaga milli kl. 12.05 og 12.55

2. mars næstkomandi tekur Sr. Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur við keflinu og efni fræðslunnar sem hefst þá er „Ástarsaga og Passíusálmar“ og hann mun fjalla um ástina og lífsgleðina í Passíusálmunum.
Fræðsludagskrá Hallgrímskirkju í febrúar og mars :

Baráttukonur og fyrirmyndir í Biblíunni

Biblían segir okkur hetjusögur og hversdagssögur úr lífi ótal kvenna. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Hallgrímskirkjuprestur, talar um nokkrar af konunum sem birtast okkur í Biblíunni. Í hraðferð um heim Biblíunnar leitum við þær uppi. Við hittum vinkonur, mæður, ömmur, mæðgur, systur, tengdamæður, ekkjur, ljósmæður,  farandverkakonur, bændur, spámenn og dómara.

Þriðjudagur, 2. febrúar  kl. 12.05
Konur sem þorðu
Debóra, Jóseba og systir Móse ásamt Siffru og Púu eru konur sem þorðu. Við förum yfir sögur þeirra. Leggjum leið okkar að Níl og lítum undir Debórupálma....

Þriðjudagur, 9. febrúar kl. 12.05
„Ég vil líkjast Rut...“
Við rifjum upp kunnuglegan barnasöng og veltum því fyrir okkur af hverju viljum við líkjast Rut. Rut var einstök og því kynntist Naómí sem einnig verður fjallað um.  Einnig verður fjallað um kanverska konu og nafnlausar konur Biblíunnar í framhaldi af sögu Rutar og Naomí.

Þriðjudagur, 16. febrúar kl. 12.05   (Sprengidagur)
Marta og María í Betaníu
Lærisveinar og postular, vinkonur Jesú og veisluhaldarar. Hverjar voru þær? Við lítum við í eldhúsinu þeirra og kíkjum í pottana.
Sr. Sigrún Óskarsdóttir heimsækir okkur og segir frá veitingunum sem voru í boði í Betaníu

Þriðjudagur 23. febrúar kl. 12.05
Unglingurinn sem breytti heiminum
Við skoðum sögu Maríu eða Miriam - ungu konunnar sem sagði já við jái Guðs.
Hver var hún?  Breytti  hún heiminum ?

---------

Ástarsaga og Passíusálmar

Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Sigurður Árni Þórðarson, Hallgrímskirkjuprestur, fjallar um ástina og lífsgleðina í Passíusálmum og lífi hjónanna Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms Péturssonar.

Þriðjudagur 2. mars kl. 12,05

Passíusálmarnir klassík Íslands?
Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Við vitum að Hallgrímur var mikils metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju?

Þriðjudagur 9. mars kl. 12,05

Hallgrímur og Guðríður
Hvernig var ævi Skagfirðingsins sem fór utan og víða? Hver var skaphöfn hans, lífsreynsla og ferill? Hvernig hafði Guðríður Símonardóttir, kona Hallgríms, áhrif á list og efni Passíusálmanna?

Þriðjudagur 16. mars kl. 12,05

Hvað eru passíusálmar?
Hvernig bókmenntir eru sálmar um písl Jesú Krists? Hver er tilgangur slíkra bókmennta? Hver er sérstaða Passíusálma Hallgríms Péturssonar? Hafa þeir gildi í samtíð okkar umfram það að vera meistaraverk trúarskálds?

Þiðjudagur 23. mars kl. 12,05

Eldhjarta Passíusálmanna
Passíusálmarnir eru sem hjarta og æðakerfi fólks á ferð. Hvernig er hjartsláttur sálmanna og til hvers? Rætt verður um inntak þeirra og áherslur.