Brauð lífsins

27. mars 2022
Fréttir
Mynd sáþ

Ég spurði móður mína einu sinni hvort hún hefði einhvern tíma fengið svo lítið að borða í uppvextinum að hún hefði svelt. Hún svaraði neitandi og sagðist vera af fyrstu kynslóð Íslendinga sem hefði ekki einhvern tíma soltið. En foreldrar hennar hefðu oft verið svöng. Og afi og amma pabbamegin hefðu soltið líka. Hún minnti mig svo á að það væri ástæða fyrir því að í Faðirvorinu er beðið: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Hungur er skelfilegt og hefur fylgt mannkyninu allar aldir. Það er hræðilegt þegar fólk sveltur. Daglegt brauð, sultur aldanna, hungur heimsins. Þessar vikur lifum við bakfall í tíma. Vegna Pútínstríðsins er brauðskortur allt í einu yfirvofandi í veröldinni. Hveitiverð hefur skyndilega hækkað ógnvænlega síðustu daga. Hveitiskortur verður víða í heiminum á þessu ári, jafnvel brauðþurrð. Úkraína og Rússland eru ekki aðeins brauðkörfur Evrópu heldur heimsins einnig. Hveitið sem þar er ræktað er mikilvægt allri heimsbyggðinni. Ársásarstríð Pútínstjórnarinnar drepur ekki aðeins fólk og sprengir hús heldur skaddar brauðgerð alls heimsins. Pizzubakstur veraldar mun raskast en er þó ekki aðalvandinn, heldur að hungrið. Sultur mun læðast um veröldina og sérstaklega meðal öreiganna. Þau sem eru fátæk og á jarðrinum munu svelta. Við munum borga meira fyrir hveitið en hin fátæku munu ekki hafa efni á pizzum, súrdeigsbrauði, rúnnstykkjum, pítubrauði eða bara einföldu venjuelgu brauði.

Kornþurrð og hveitiskortur er í nútíð eins og í fornöld alvörumál. Jesús kenndi okkur að minna Guð á daglega brauðið. „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ Þegar kornuppsprettan íPalestínu brást svalt fólk og dauðinn kom í kjöfarið. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lifa. Brauð er tákn lífs. Ólíkt Pútín er Jesú ekki minnst fyrir stríð, heldur fyrir að gefa fólki mat og drykk. Hann gaf og útdeildi brauði, kenndi gjafmildi og að við værum systkin sem bærum sameiginlega ábyrgð. Hann bauð fólki að gefa með sér. Brauð handa hungruðum heimi er stefna kristinna manna. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, sem gerir fólki gott. Að allir fái að borða og lifa vel er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið friðar og fæðu. Svo róttækt er erindi kristninnar og svo árangurstengt er það líf, sem okkur er boðið að lifa. Þegar við brjótum brauðið í kirkjunni boðum við frið, frelsi, réttlæti og mannvirðingu. Það er sprengikraftur í því táknræna atferli. Einfaldur gjörningur en varðar alla heima, víddir og veraldir.

Brauðundur á fjalli

Texti dagsins er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð norður í landi, hátíð sem nærri því endaði með ósköpum. Fyrirhyggjuleysið var talsvert og maturinn búinn. Mótshaldararnir urðu verulega skelkaðir og vissu ekki hvernig væri hægt að leysa málið. Kostnaðurinn við matarkaup var nærri árslaun og fjárráðin voru lítil samkvæmt budduskoðun lærisveinanna. Sagan greinir frá því, að Jesús notaði tækifæri til kennslu í lífsleikni. Ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og lagði saman. Útkoman af tveir plús fimm var ekki sjö, heldur matur fyrir fimm þúsund karla auk ótilgreinds fjölda kvenna og barna. Öll guðspjöllin segja margföldunarsöguna en með mismunandi móti. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna ávallt með sínum ákveðna hætti. Tvendir einkenna þetta guðspjall. Í því er ógjarnan sagt frá bara einu heldur fremur pörum í spennu. Ekki er bara talað um ljós, heldur par ljóss og myrkurs. Lífsáhersla guðspjallsins er í andófi gegn dauða. Svo er trú rædd með vísan til veruleika vantrúar. Jóhannes var dramadrottinn. Tilgangur þessa dramatíska ofurstíls guðspjallins er að beina sjónum fólks til Jesú, að gera sér grein fyrir að í honum var og er lausn lífsgátunnar, ljós í myrkri, sannleikurinn.

Á fjallinu með fólkinu

Fólkið á fjallinu var komið með sultarverk. Þau vissu að enginn skyndibitastaður var í nágrenninu, engar pítur eða pizzur. Svo báru Jesúsveinarnir körfur um og útdeildu fátækrabrauði og fiskmeti líka. Nóg handa öllum. Gyðingar þekktu sögu sína og vissu, að svona máltíðarundur vísaði beint til sögu hungraðra hebrea á leið frá Egyptalandi og um eyðimörk. Til þeirra hungruðu ferðalanga fauk brauðefni af himni. Inntak mettunarsögunnar í eyðimörkinni var að þegar kraftaverk yrði og fólk fengi að borða væri Guð að baki undrinu.

Þegar allir verða svo mettir er farið að hugsa um hvað eigi að gera við undramanninn, sem margfaldaði brauð og fisk. Ekki vissu þau að hann yrði brátt krossfestur, hæddur og deyddur. Þau þekktu ekki sögu Vesturlanda í kjölfar reynslunnar af lífgun hans. Ekki gátu þau ímyndað sér kenningarnar um hann, sem heimsbyggðin býr við. Hver var þessi Jesús? Hann var flottur í brauðgerðinni. Hann gæti kannski orðið fínn landbúnaðarráðherra, nema bara fyrir þá sök, að hann gerir sig sekan um offramleiðslu. Hvað gerir saddur múgur við mann, sem hefur gefið þeim brauð og sögur? Jú, hyllir og vill gera hann að leiðtoga, jafnvel að einvaldi. En þegar menn ætluðu að krýna hann hvarf hann bara. Þegar menn vildu veita Jesú Kristi veraldarvöld gufaði hann upp. Jesús hafði engan áhuga á valdi þessa heims. Hann var ekki, er ekki og verður ekki eins og Hitler, Stalín og Pútín.

Jesús gefur lífið

Þegar Jóhannesarfrásögnin er skoðuð sést, bæði í guðspjallstexta dagsins og líka í öllum sjötta kaflanum, að Jesús túlkar líf sitt og tilveru með ákveðnu móti. Í þessum kafla segir hann um sig: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús efli líf. Hann er forsenda lífs og næring þess lífs. Hvaða afstöðu höfum við til hans? Trúum við því eða er Jesús eitthvað annað, t.d. góðmenni, siðferðisviðmið eða spekingur?

Samfélagsmyndun – hópur - kirkja

Annað stóratriði í þessum texta er, að lífgjöf Jesú hefur félagslegar afleiðingar. Jesús skapar hópkennd, tengir fólk saman og hvetur til að fólk líti á sig sem einn lífshóp. Það hefur líka afleiðingar í starfi kirkjunnar. Öllum, sem koma í þessa kirkju, er ljóst að borðið í kirkjunni, altarið, er miðja hússins. Altarisgangan er endurtekning máltíðar á fjallinu, máltíðum Jesú, þegar hann braut og brýtur brauðið og gefur sínum lærisveinum. Sú máltíð er máltíð hans. Þegar við göngum til altaris erum við samfélag Jesú Krists, vinir hans.

Brauðið og kærleikurinn

Hið þriðja í textanum eru hagnýtar afleiðingar í lífi þeirra, sem trúa og eru hluti hópsins. Það eru verkin, sem oft er nefnt kærleiksverk. Brauð handa hungruðum heimi, brauð handa fólki. Allir eiga að njóta grunnréttinda t.d. matar, öryggis, vatns og annarra lífsgæða. Vegna þess að við njótum lífgjafar Jesú, gefum við af gæðum okkar til að hungraðir fái næringu og þyrstir fái drukkið gott vatn. Aðferð Jesú er okkur fyrirmynd. Hann sendir ekki fólk frá sér svangt, heldur notar allt sitt til að gefa það sem fólk þarfnast. Með sama hætti látum við fólk okkur varða og gefum þeim mat og gæði til lífs.

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Allir þarfnast tengsla við fólk, tilfinninganæringar, líkamlegrar hreyfingar, gæfu í lífi og starfi. Þú þarfnast þess að einhver sjái þig og meti og játi þér mikilvægi þitt. Svo er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Jesús gaf brauð og var lífgjafi. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Sprengjur Pútíns slasa og deyða. En sprengikraftur brauðs og víns er mun meiri því þar birtist máttur lífsins sem er sterkari en dauðinn.

Lexía 5. Mós. 8.2-3. Pistill Róm. 5.1-5. Guðspjall Jóh. 6.1-15