„Getur einhver frá Hallgrímskirkju tekið á móti amerískum hóp?“ Svona spurning berst oft í tölvupóstum. Alls konar hópar koma í kirkjuna og sumir óska eftir fá prest eða starfsmann kirkjunnar til að kynna starf hennar, húsagerð, listina í kirkjunni eða íslenska kristni og trúarlíf. Hallgrímur Pétursson, líf hans og list er líka efni sem margir hafa áhuga á. Í dag kom hópur frá Wonder Voyage, sem er bandarísk ferðaskrifstofa. Shawn Small, stofandi og eigandi ferðaskrifstofunnar, hafði samband eftir áramótin síðustu til að biðja um móttöku fyrir hóp unglinga. Í dag komu þau svo í kirkjuna og fengu kynningu á trúarsögu Íslendinga, þjóðkirkjunni, safnaðarlífinu, arkitektúr kirkjunnar og heimsóknum pílagríma heimsins. Miklar umræður urðu og einn í hópnum sagði: „Þetta er áhrifaríkasta kirkja sem ég hef komið í. Ekki bara af því að hún er á Íslandi. Hún væri uppáhaldskirkja mín líka ef hún væri í Ameríku.“ Takk fyrir komuna Shawn Small og hópur ferðalanga frá Wonder Voyage.
Mynd og texti sáþ