Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra verður við afleysingar sem prestur í Hallgrímskirkju fram til loka september 2023. Hann kom til starfa við kirkjuna þann 1. maí sl. og mun starfa við hlið sr. Irmu Sjafnar Óskarsdóttur sóknarprests í sumar.
Jón Ásgeir lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1999 og var vígður til prests árið 2007 til afleysinga í Setbergsprestakalli. Hann var sóknarprestur í Borgar og Stafholtsprestaköllum árið 2018-2019 og hefur nú verið héraðsprestur frá árinu 2020.
Árið 2019 lauk Jón Ásgeir doktorsprófi í gamlatestamentisfræðum frá Háskóla Íslands. Hann hefur fengist við kennslu í háskólum og menntaskólum auk þess að vinna við skjalaþýðingar en hann er með löggildingu sem skjalaþýðandi úr ensku yfir á íslensku.
Jón Ásgeir er kvæntur sr. Elínborgu Sturludóttur, presti við Dómkirkjuna í Reykjavík.