Englar

24. nóvember 2020
Löng ferð síðustu mánuði.  Við þreytumst á langri göngu og nú liggur leiðin inn í aðventuna bráðum og alla stemninguna í kring um jólin.   Hugsa þetta meðan ég rölti  inn gólfið í Hallgrímskirkju. Tel bekkina í huganum.  Þeir rúma hundruði  og í huganum verða  andlitin  ljóslifandi, söfnuður, tónleikagestir eða ferðamenn í brakandi útivistargöllum sem dást að kirkjunni.
Hugsa um alla undursamlegu tónlistina sem hefur verið flutt, öll orðin sem hafa hljómað frá prédikunarstóli sunnudag eftir sunnudag, bænir sem hafa verið beðnar bæði frá altari og við hlið skírnarfonts.  Sakna messuþjóna og sjálfboðaliða, safnaðarfólks og kliðsins af lágstemmdum röddum í kirkjunni.

Nem staðar við kórtröppur með augun á kertum á altari þar sem ekki lengur er undirbúin heilög kvöldmáltíð með glansfínu silfri kirkjunnar og einfaldur kostur, brauð og örlítið vín sem fær merkingu í orðum Krists.  Gjörið þetta í mínu minningu.

 

Svo þarna útundan mér sé ég smáa englafætur á mynd.
Englamyndir eða íkonar Kristínar Gunnlaugsdóttur sem hanga í kórdyrum Hallgrímskirkju.  Gabríel, sendiboðinn og Mikael yfirengill  – með rauðu fallegu skikkjuna sína.  Kannski full glyslegir í yfirlætislausri Hallgrímskirkju en þeir minna okkur á englavernd og hlutverk engla í sögu kristni og trúar.
Þessir nafngreindu englar Biblíunnar og höfðingjar.




Englavernd, englar sem með sínum ójarðnesku fótum í myndlist aldanna reyna að finna fótfestu með smágerðum fótum.

Og fæturnir þeirra skilgreina þessa óræðu tilfinningu þegar enga fótfestu er að hafa.  Þá þurfum við viðspyrnu sem svo oft hefur verið nefnd upp á síðkastið.
Þar er átt við fjárhagslega viðspyrnu trúlega en við þurfum þessa andlega, innri viðspyrnu  – hvert leitum við þá ?

Listamenn aldanna hafa mótað í huga okkar englaverndina bæði með myndum og orðum.

Kannski hafa englar bara horfið úr lífinu og samtíma ?
Vð trúum ekki að bústnir englar fljúgi um himin hvolfin með smágerða fætur.  En þeir eru þarna enn og  túlka trú og traust á Guð. Sinna verkefnum og eru ...

Englar eru hvað þú skynjar í eigin lífi  og þá hvað þeir vinna og gera, verkefni,  en ekki eðli þeirra sagði Ágústínus kirkjufaðir.

Eru nærvera Guðs í lífi okkar og mæta okkur í samferðafólki eða í viðspyrnu þegar djúpið reynir og ætlar að gleypa okkur.

 



Englarnir hennar Kristínar  í kórdyrum minna á fótfestuna, viðspyrnuna, bænir um betra líf og framtíð.   Hvernig það smágerða táknar hið trausta sem leitar að vernd og veitir vernd.  Englavernd Guðs.

Svo röltir maður til baka með altari og englana að baki. Treystir og biður um englavernd og að höndin helg okkur leiði og úr hættu allri greiði.

 

Uppsprettan að íhuguninni var úr 62. sálmi Gamla testamentisins:
Hjá Guði einum hlýtur sál mín hvíld,
frá honum kemur hjálpræði mitt.
Hann einn er klettur minn og hjálpræði,
vígi mitt, mér skrikar ekki fótur.

....Hjá Guði einum hlýtur sál mín hvíld
því að frá honum kemur von mín.
Hann einn er klettur minn og hjálpræði,
vígi mitt, mér skrikar ekki fótur.
Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd,
minn örugga klett og athvarf mitt hef ég í Guði.

Guð
Við leggjum eftirvæntingu árstíðanna í þínar hlýju hendur og þökkum þessa tilfinningu eftirvæntingar.  Við leggjum ótta okkar og lífsins hættur í englaverndina þína, Guð.  Vermdu lífið okkar allt, lífgaðu huga okkar, og haltu okkur í hendi þinni, fast.  Gefðu okkur bjarg að tyllla fótum okkar á eða gefa okkur viðspyrnu þegar okkru finnst við missa fótfestu.
Takk Guð fyrir drauma og veruleika, framtíð og gjafir þínar.  Amen