Tónleikar þeirra Hjörleifs Valssonar fiðluleikara og Jónasar Þóris orgelleikara verða haldnir í Hallgrímskirkju sunnudaginn 8. ágúst kl. 17:00.
Einungis 200 miðar eru í boði á tónleikanna, til þess að sóttvarnarskilyrðum sé fullnægt, og er miðaverð kr. 4500.
Dagskrá tónleikanna verður ferðalag í tónum, 400 ára ferðalag frá Heinrich Ignaz Franz von Biber (1644), í gegnum söguna, og fram til nokkurra höfuðtónskálda 20. og 21. aldarinnar.
Á meðal annarra höfunda eru J.S. Bach, Þorkell Sigurbjörnsson, Duke Ellington, Hjörleifur Valsson, Ennio Morricone, Jónas Þórir, John Williams og Vangelis, auk tónlistar sem sótt er í þjóðlega geymd.
Hjörleifur og Jónas hafa undanfarið ár haldið tónleika vítt um landið með fjölbreyttri efnisskrá, sem jafnan tekur mið af aðstæðum á hverjum stað. Nú heldur Hjörleifur af landi brott, en hann er búsettur og starfandi erlendis, og er þetta því í síðasta sinn sem hann leikur á Íslandi að sinni.
Nokkur orð um tónlistarmennina:
Hjörleifur er sjálfstætt starfandi fiðluleikari og kemur reglulega fram víða um Evrópu, en er búsettur í Noregi og kennir einnig fiðluleik þar í landi. Hann er alinn upp á Ísafirði, þar sem hann naut einstaks og uppbyggjandi umhverfis og náms við Tónlistarskóla Ísafjarðar, lærði síðan við tónlistarháskólann í Noregi og tók meistara- og Diplomnám í Prag og Þýskalandi. Hjörleifur hefur einnig samið, útsett og útfært tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir og sjónvarp. Hann elskar að koma heim til Íslands og spila fyrir frábæra áheyrendur.
Jónas Þórir er kantor í Bústaðakirkju, byrjaði ungur að spila á fiðlu en lauk síðan námi í orgel- og píanóleik á Íslandi áður en hann fór í framhaldsnám til Noregs. Hann hefur verið mikilvirkur í Íslensku tónlitarlífi um margra áratuga skeið og leikið með öllum helstu tónlistarmönnum landsins, unnið heilmikið fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.