Ferðafólkið er hjálparhella kirkjunnar!

17. júlí 2023
Fréttir

Hallgrímskirkja tekur þátt í því verkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar sem nefnist Góðir gestgjafar. Kirkjan er opið hús þar sem reynt er að taka vel á móti öllum. Hún er eins alþjóðlegt torg þar sem öll tungumál eru töluð. Oftast er krökkt af fólki í kirkjunni og móttakan reynir verulega á starfsfólk og þrengir stundum að kjarnastarfseminni sem er helgiþjónusta og safnaðarstarf. Samt dettur okkur, sem tökum þátt í starfi Hallgrímssafnaðar, ekki í hug að amast við ferðafólkinu. Með svolitlum ýkjum má í raun segja að straumur ferðafólks haldi kirkjunni opinni.

Á undanförnum árum hefur Hallgrímskirkja verið í endurbyggingu jafnt utan sem innan, jafnframt því sem unnið hefur verið á leka og myglu víða í hinni miklu byggingu. Stöðugar múrviðgerðir, endurnýjun á lýsingu utan sem innan, ný lyfta í turni, bæting á aðstöðu starfsfólks og varanlegar lausnir á ýmsu sem gert var til bráðabirgða á löngum byggingartíma kirkjunnar, eru óhemju dýrar framkvæmdir. Sóknargjöld hrökkva hvergi nærri til þess að standa undir þeim. Og ekkert lát er fyrirsjáanlegt á nauðsynjaverkum sem ráðast verður í. Né heldur á draumum um ýmis stórræði og menningarverkefni sem þyrftu að rætast. Ferðafólkið sem greiðir fyrir útsýnisferð í turn og klukkuport Hallgrímskirkju er okkar hjálparhella í þessum efnum.

Þó nokkur hluti gesta lítur við sem snöggvast til þess að skoða í sjónhendingu háreist form kirkjuskipsins böðuð dagsbirtunni og dást að Klais-orgelinu. En það vekur ekki síður athygli okkar að meðal hinna fjölmörgu sem leggja leið sína í kirkjuna eru mjög margir sem hugleiða, sækjast eftir andakt, kveikja á bænakertum, og leggja með því til hjálparstarfs, skrifa bænir sem bornar eru upp að altari í hverri viku, koma á tónleika og njóta helgihalds með okkur. Allt eykur þetta á fjölbreytni og þrótt í starfi og umsvifum.

Einar Karl Haraldsson,

formaður sóknarnefndar