Frobenius kórorgel Hallgrímskirkju verður helgað í hátíðarmessu á Hvítasunnudag

15. maí

Á hvítasunnudag, 19 maí 2024 verður hátíð í Hallgrímskirkju. Frobenius kórorgel kirkjunnar verður helgað í hátíðarmessu kl. 11 eftir gagngera endurbyggingu. Í stórum kirkjum eins og Hallgrímskirkju, þar sem fjarlægðir eru miklar, eru kórorgel afar mikilvæg í helgihaldinu og við athafnir. Við kórorgelið er organistinn nær altarinu og þannig í betra sambandi við söfnuð, kór og presta. Á undanförnum árum hefur yfirstjórn þjóðkirkjunnar lagt áherslu á að efla safnaðarsöng og hafa síðustu sálmabókaútgáfur miðast við það.

Við höfum öll upplifað hvað það er gefandi að horfa á kór syngja. Það hvetur líka söfnuðinn til þátttöku. Orgelið er einstaklega vel til þess fallið að styðja við almennan söng og auðga helgihaldið. Það er líka heillandi hljóðheimur út af fyrir sig. Með öllum sínum blæbrigðum litar það áherslur kirkjuársins og ólík stílbrigði tónlistarsögunnar.

Kl. 17 sama dag, verða haldnir Vígslutónleikar með fjölbreyttri efnisskrá þar sem Frobenius kórorgelið fær að sýna nýjar hliðar og ótal möguleika eftir endurbygginguna, bæði sem einleikshljóðfæri en einnig sem meðleikshljóðfæri með Kór Hallgrímskirkju og Klais orgelinu.

Flutt eru einleiksverk fyrir orgel eftir þýsku barokktónskáldin Friedrich Wilhelm Zachow og Johann Bernhard Bach. Einnig verk fyrir tvö orgel og kór eftir frönsku tónskáldin Louis Vierne og Yves Castagnet. Auk þess verður frumflutt nýtt verk eftir Báru Grímsdóttur tónskáld, Veni Sancte Spiritus fyrir kór og orgel sem samið er í tilefni af vígslu Frobenius kórorgelsins.

Tónleikarnir hefjast á partítu Zachow yfir sálmalagið Jesu meine Freude eða ´Jesú heill míns hjarta´ eins og Sigurbjörn Einarsson kvað. Partíta er í raun tilbrigðaform og þar gefst færi á að sína ótal litbrigði orgelsins og hvers Frobenius er megnugur eftir endurbygginguna!

Höfuðkirkjur Parísar skarta flestar tveimur orgelum. Stóru konsertorgeli í vesturenda og kórorgeli í austurenda við altarið.

Fluttir verða þættir úr messum fyrir tvö orgel og kór eftir tvo af organistum Notre Dame dómkirkjunnar í París. Kyrie og Gloria úr Messe Solennelle eftir Louis Vierne og Sanctus og Agnus Dei úr glænýrri messu eftir Yves Castagnet - Messe Salve Regina.

Lokaverk tónleikanna er svo Ciacona í B-dúr eftir Johann Bernard Bach frænda Johann Sebastian Bach. Þar leika organistar Hallgrímskirkju á bæði orgel kirkjunnar.

Tilkoma Klais orgelsins var stór viðburður og vendipunktur í íslenskri kirkjutónlistarsögu sem gjörbreytti orgeltónleikaflórunni á Íslandi. Öll sú framkvæmd lýsir miklum metnaði þeirra sem voru í fararbroddi.

Með vígslu Frobenius kórorgelsins sýnir starfsfólk og sóknarnefnd kirkjunnar enn og aftur stórhug og skipa þar með Hallgrímskirkju sess meðal helstu höfuðkirkna Evrópu.

Með endurgerð og stækkun kórorgelsins, vilja söfnuðurinn og gefendur heiðra minningu Hallgríms Péturssonar á 350 ára ártíð hans 2024.

Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju

 

Tekið verður á móti frjálsum framlögum í kirkjubúðinni og anddyri kirkjunnar fyrir tónleikana.

Stækkun og endurbætur á Frobenius orgeli Hallgrímskirkju var kostnaðarsöm aðgerð. Tilgangur hennar var að efla almenna þátttöku í helgihaldi og fjölga möguleikum við tónleikahald og kórsöng.

Þið sem viljið styðja metnaðarfullt starf Hallgrímskirkju á þessum sviðum getið gert það í gegn um þennan QR- kóða, í anddyri kirkjunnar fyrir tónleika og í kirkjubúðinni en einnig millifært og er reikningsnúmerið eftirfarandi: 0133-26-009422 Kt: 590169-1969  Mikilvægt er að skrifa "Orgelsjóður" í útskýringu.

Please scan this QR-code to support the rebuilding of our Frobenius Choir Organ.

 

Kærar þakkir, starfsfólk og sóknarnefnd Hallgrímskirkju.

Hallgrímskirkja – Þinn staður!