Fyrirlestur og tónleikar á vegum Tónskóla Þjóðkirkjunnar

06. apríl 2019


Sunnudaginn 7. apríl kl. 17 í Hallgrímskirkju, munu Eyþór Ingi Jónsson, organisti og Gregorskórinn Cantores Islandiae, flytja Messe pour les paroisses eftir franska barokktónskáldið François Couperin (1668-1733)

Verkið er jafnan álitið eitt allra vandaðasta orgelverk franska barokksins. Cantores Islandiae flytur gregorssöng tengdum orgelmessunni og boðunardegi Maríu.

Gregorskórinn Cantores Islandiae var stofnaður í Reykjavík sl. haust af Ágústi Inga Ágústssyni og Gísla Jóhanni Grétarssyni. Ágúst Ingi stjórnar kórnum, en hann hefur lagt stund á gregorsöng undanfarin ár. Hann stjórnaði m.a. Cantores Iutlandiae í Danmörku.
Á undand tónleikunum halda Eyþór Ingi og Ágúst Ingi fyrirlestur um hugmyndina að baki uppsetningar orgelmessu Couperin í víðara samhengi og uppbyggingu og val á söngvum fyrir þá messu sem flutt verður á sunnudaginn, með þá söngva í huga sem ekki koma við sögu í orgelmessunni. Einnig verður komið lauslega inn á stöðu gregorssöngsins á 17. öld. Auk þess verður fjallað um leiðbeiningar franskra barok - tónskálda um raddskipan orgelverka og túlkun þeirra. Fyrirlesturinn hefst kl 16 í Norðursal Hallgrímskirkju.
Aðgangur er ókeypis.