Kvöldkirkjan er nýjung í grósku helgihalds í kirkjum höfuðborgarsvæðisins. Kvöldkirkjan er óhefðbundin stund að formi og innihaldi. Andrúmsloftið er óformlegt og afslappað. Lýsing, tónlist og stuttar íhuganir blandast við alltumliggjandi kyrrð og ró rýmisins. Við bjóðum þér að hugleiða, biðja, kveikja á kertum, fara á milli mismunandi stöðva í kirkjunni, skrifa niður hugsanir þínar eða bænir eða bara sitja í bekkjunum eða hvílast á dýnum í kirkjunni.
Kvöldkirkjan er samstarfsverkefni Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík. Verkefnið hófst haustið 2019. Í boði eru tvær stundir í mánuði, ein í hvorri kirkju, frá lokum september til loka apríl.
Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundið helgihald. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur getur hreyft sig um kirkjurýmið setst niður eða lagst.
Kyrrð, ró og íhugun ásamt óhefðbundinni tónlist fyrir kirkju, eru helstu einkenni kvöldkirkjunnar. Í kvöldkirkjunni er slökkt á símanum og samtölin eru látin bíða þar til út er komið. Lesinn texti er á hálfímta fresti og tónlistarflutningur stiður við íhugun og slökun. Öllum er frjálst að ganga hljóðlega um kirkjuna, setjast eða liggja í kirkjubekkjunum eða á dýnum á gólfinu, kveikja á kertum, færa sig á milli stöðva og skrifa það sem þeim liggur á hjarta á miða og setja í körfur.
Prestar Hallgrímskirkju, Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sr. Eiríkur Jóhannsson, Grétar Einarsson, kirkjuhaldari og Dómkirkjuprestarnir, Sr. Elínborg Sturludóttir og Sr. Sveinn Valgeirsson sjá um Kvöldkirkjuna.
HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR, ÞÍN KIRKJA!
--ENGLISH--