Jósefína frá Nauthól var minnistæð kona á Grímsstaðaholtinu þegar ég var að slítabarnsskóm mínum þar. Eitt sinn var henni misboðið og hljóp hún út á Fálkagötuna og steytti hnefann upp í himininn og hélt þrungna reiðiræðu í garð Guðs.
Að tjá Guði sterkar tilfinningar, mögla eða hella úr skálum reiði sinnar yfir Guð hafa menn allra alda iðkað, í bænum sínum en líka í annarra áheyrn og augsýn annars fólks. Í þjóðsögum Íslendinga er sagt frá konu sem reiddist Guði þegar rigndi í flekkinn. Hún skók hrífuhausinn upp í himininn og sagði: Þú nýtur þess, guð, ég næ ekki til þín. Guðsmöglið kemur víða fram í samtölum, í gerningum og auðvitað á samfélagsmiðlunum.
Stephen Fry, breski leikarinn, var nýlega spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja við Guð ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Og í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Hann nefndi ýmis dæmi um böl og hrylling. Og niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður, sjálfselskur og virðingarlaus.
Þegar ég heyri svo blóðríka ræðu hlusta ég og tek mark á. Stephen Fry, sem hefur glatt kvikmynda- og sjónvarps-áhorfendur í áratugi, var allt í einu í nýju hlutverki, í nýrri senu við Gullna hliðið og ruddi þar úr sér yfir Guð.
Er þetta Guð sem Fry hreytir í? Er Guð svona illur?
Hverjum að kenna?
Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar varstu Guð þegar .. ? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir snjóflóði af stað og fjöldi fólks deyr? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip eða flóðbylgjur yfir mannabústaði og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.
Í meira en áratug hef ég spurt nær þúsund fermingarungmenni í vesturhluta borgarinnar spurninga um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fá fermingarbörn í Reykjavík. Þau hafa greinilega annan kristindómsskilning og það er merkilegt og gæfulegt. (Áhugasamir geta snarlega fundið viðtal við Stephen Fry og viðbrögð með því að gúgla. Russel Brand ræddi um orð Fry með hjartahlýjum og fyndnum hætti í Trews hugleiðingu: https://www.youtube.com/watch?v=1Run1jpZvS4 )
Þjónandi vald
Það er kraftur í ákæru Fry en ég held að hann misskilji kristindóminn og guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er röng túlkun á valdi Guðs. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð.
En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð, túlkar bókstaflega og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En orðið almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti eða vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning.
Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru elskunnar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir ryðja úr sér gífuryrðum elskunnar. Börn tala oft með því jákvæða og hrífandi móti. Það megum við læra af börnunum. Orðið almætti er ekki um hver lyfti stærstu vetrarbrautunum heldur tjáir hrifningu á stórkostlegum og máttugum Guði sem aldrei bregst, ekki í neinu.
Þjónandi, elskandi vald
Margir heillast af ytra valdi. Og það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Og þeir töluðu um þetta sín í millum, voru í samkeppni um vald. Og þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar, sem nýtir allan mátt sinn í að lífga, frelsa og blessa.
Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið almætti þar eða hvað?
Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beyja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.
Guðsmyndir
Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job, sem sagt er frá í Jobsbók, og höfundar sálma biblíunnar hafa m.a. möglað og mótmælt allsráðandi Guði. Biblían molar því sjálf úr slíkri guðsmynd. Jósefínur heimsins í okkur öllum hafa skekið hnefa upp í himininn. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.
Margar guðsmyndir manna eru tjáning á þrá fólks og því einhvers konar klisjur. Guð er stundum andlag drauma og óttaefna mennskunnar. Og Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Guð virðir hið algera frelsi sem Guð hefur gefið sköpun sinni. Guð virðir frelsi ástvina sinna, mannfólksins í veröldinni. Það er myndin sem Jesús Kristur gefur okkur.
Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð og geta síðan réttlætt eigin vald, eigin grimmd og eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda, þ.m.t. Fry, hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur. Fermingarungmennin samsinna flest að það sé ekki Guð kristninnar sem ýtir af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini.
Alveldi Guðs í barni og á krossi
Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald, sem bara skiptir sér af veröldinni þegar Guð er í stuði eða reiður. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: Ég er með þér, nærri þér. Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki sá sem skipar eða veldur heldur er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum beitir Guð áhrifavaldi sínu í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar (ég hef í ýmsum prédikunum fjallað um Guð sem skapandi ástvin fremur en einræðiskonung og vísa til þeirra um skýringu eða túlkun þessa sem hér er sagt).
Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir í guðspjalli dagsins: En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.
Amen.
Prédikun í Hallgrímskirkju, 1. sunnudag í föstu, 2015, 22. mars.
Lexía: 1Mós 4.3-7
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.
Pistill: Jak 1.12-16
Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: Guð freistar mín. Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.?Villist ekki, elskuð systkin.
Guðspjall: Lúk 22.24-32
Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.?En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.?Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.