Prédikun Kristnýjar Rósar djákna í útvarpsguðsþjónustu í Hallgrímskirkju Sumardaginn fyrsta 23. apríl 2020:
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Blessandi hendur Krists Lyftist yfir oss öll. Blessandi hendur Krists Helgi kirkjuna hans Blessandi hendur Krists Gefi heiminum líf og frið Amen.
Gleðilegt sumar!
Það boðar gott sumar þegar vetur og sumar frjósa saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta, ætli það hafi gerst í nótt? Örugglega einhvers staðar á landinu.
Verður sumarið gott? Já það verður gott, því bráðlega megum við aftur vera nærri fólki. Börnin mega aftur sækja skóla og hitta vini sína. Og vonandi verður Covid 19 í lágmarki hjá okkur í sumar. Sumarið verður gott sökum þessara ástæðna. Veðrið og allt annað verður aukaatriði.
Pistill dagsins er úr filíppibréfinu og þar segir: Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.
Jesús þarf ekki að segja okkur það tvisvar. Ég held að mörg okkar séu glöð, full af bjartsýni, það er stutt í brosið og okkur hefur aldrei þótt eins gaman að segja gleðilegt sumar!
Við erum örugglega öll meira en tilbúin í þetta sumar. Tilbúin í nýja árstíð og nýjan kafla.
Þriðjudagurinn eftir páska var mjög góður. En þann dag var fréttamannafundur í Safnahúsinu á Hverfisgötu og þar var okkur landsmönnum tilkynnt að það yrðu afléttingar takmarkana í samkomubanninu og skólastarf færi aftur í samt horf 4. maí nk. Og þeir sem sýkjast af Covid 19 fer fækkandi. Mjög gleðilegar fréttir!
Áfram við!
Á blaðamannafundinum talaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um fjallgöngu sem við værum að ganga. Hún sagði að það væri einn tindur eftir, sem við ættum eftir að ganga, og það væri freistandi að setjast niður, borða nestið sitt og fara svo bara niður aftur. En hún lagði áherslu á að við gætum ekki sleppt að ganga þennan síðasta tind, og við erum að ganga þann tind núna. Við klárum gönguna.
Í biblíunni er mikið og oft talað um fjöll. Í henni eru fjöll táknræn og þar er sagt frá heilögum fjöllum. Móses fór upp á fjall og kom niður af fjallinu með boðorðin tíu. Í 121. Davíðssálmi stendur: Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Jesús fór oft upp á fjöll til að tala við lærisveina sína eða til þess að biðja og tala við Guð. Jesús fór með Fjallræðuna á fjalli en hún er í matteusarguðspjalli í 5., 6. og 7. kafla. Fjallræðan er mjög innihaldsrík og í henni er margt mikilvægt sem Jesús kennir okkur. Til dæmis Faðir vorið og gullnu regluna, Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.
Þegar ég horfi á kvikmyndir í sjónvarpinu og það hefur nú verið eitthvað af því síðustu vikur, verð ég að viðurkenna, þá fylgist ég með nánd fólksins í bíómyndunum. Og ég finn að ég sakna hennar og ég hugsa líka til þess hversu sjálfsögð hún var fyrir okkur, og núna fundum við að ekkert er sjálfsagt í þessum heimi.
Nýfædd börn þurfa mikla snertingu og ást strax frá fæðingu. Breytist þörfin okkar eftir því sem við eldumst og verðum lífsreyndari? Já eðlilega, en þörfin fyrir að vera elskuð, fer aldrei. Guð elskar okkur skilyrðislaust. Jesús kennir okkur að elska náunga okkar eins og okkur sjálf. Því Guð veit að við getum ekki án kærleikans verið.
Það er gott að geta gleymt en það er líka gott að muna. Eins og langir og erfiðir veikindadagar barna okkar, þeir gleymast. Eða þjáningar móður við barnsburð, gleymast þegar móðirinn fær barnið í hendurnar. Það er gott að geta gleymt hlutum sem skipta ekkert endilega miklu máli. En þetta tímabil sem við erum að fara í gegnum núna, skiptir máli. Við stöndum saman og við munum komast í gegnum þetta saman. Íslendingar eru góðir í því að snúa bökum saman þegar á reynir.
Sjúklingarnir í guðspjallasögu dagsins voru með líkþrá. Líkþráin lýsti sér þannig að sjúklingarnir voru með hræðileg sár út um allan líkamann. Læknar gátu ekki hjálpað þeim og fólk vildi ekki umgangast þá af hræðslu við smit. 0g þeir biðja Jesú um hjálp og lækningu. Og Jesú læknar þá af sárum sínum. En aðeins einn af þeim tíu snéri tilbaka og þakkaði Jesú fyrir lækninguna.
Ekki vitum við af hverju hinir níu komu ekki tilbaka til Jesú og þökkuðu fyrir lækninguna. Voru þeir kannski svona spenntir að fara lifa lífinu aftur, heilbrigðir og gáfu sér ekki tíma til þess að þakka Jesú? Gleymdu þeir því kannski í gleðinni? Eða fundu þeir ekki fyrir neinu þakklæti? Þeir hljóta að hafa fundið fyrir þakklæti en bara ekki gefið sér tíma til þess að þakka.
Allsstaðar, hvert sem ég lít, sé ég og finn ég fyrir þakklæti fólks. Við erum öll þessi eini sem kom tilbaka. Við höfum margt að þakka fyrir, að veiran sé á niðurleið, að lífið er að verða betra, fyrir hversdagsleikann sem er í sjónmáli.
Jörðin okkar hefur fengið hvíld í faraldrinum. Mengunin hefur snarminnkað og á skömmum tíma. Í fyrsta sinn í 30 ár sést til Himalajafjalla frá Indlandi því mengunin er orðin svo lítil þar. En hvað gerum við svo, þegar öllu er óhætt á ný? Við höfum allavega fengið tíma og andrými til þess að hugsa um þessa hluti.
Sumardagurinn fyrsti er oft tileinkaður yngstu kynslóðunum. Oft hafa verið skátamessur hér í Hallgrímskirkju á þessum degi og í dag syngur lítill hópur stúlkna inn sumarið hér í Hallgrímskirkju.
Ég ætla að lesa fyrir okkur hluta úr sálmi sem Jónas Hallgrímsson samdi árið 1842 og heitir Á Sumardagsmorgun fyrsta:
Vorblómin, sem þú vekur öll
Vonfögur nú um dali og fjöll
Og hafblá alda og himinskin
Hafa mig lengi átt að vin
Gleðilegt sumar!
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.