Guð er guð litríkis og fjölbreytileika. Veröldin er alls konar og við erum allskonar. Kirkja Jesú Krists umber ekki aðeins slíkan heim heldur stendur með fjölbreytileikanum sem Guð hefur skapað og elskar. Því tekur Hallgrímskirkja þátt í Hinsegin dögum. Regnbogafáninn blaktir við hún og er líka hér á kórtröppunum þessa dagana og blasir við fólkinu sem sækir kirkju. Klukkur kirkjunnar hringdu inn hátíðina. Og það er merkilegt að fjólublái litur fánans táknar anda og þakklæti.
Stóru skrefin
Þetta er lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið sagði Neil Armstrong þegar hann steig fyrstur manna fæti á tunglið fyrir 50 árum síðan. En í ár fögnum við ekki bara 50 ára afmæli tunglgöngu heldur líka 50 ára afmæli Stone Wall uppþotanna í New York og 20 ára afmæli gleðigöngunnar hér á landi. Sannarlega stór afmæli.
Ég er nokkuð viss um, að það djarfa fólk, hommar, lesbíur, dragdrottningar, tvíkynhneigðir, transfólk og aðrir sem í júní árið 1969 risu upp gegn linnulausri kúgun og ofbeldi yfirvalda í New York gegn sér, hafi ekki gert sér grein fyrir þeim stórkostlegu breytingum sem mótspyrna þeirra leiddi til. Jafn risavaxið og skref Neil Armstrong var á tunglinu var uppreisnin á jörðu ekki síður risavaxið skref í baráttu milljóna fyrir að fá að lifa og vera eins og þau eru, að lifa í mannlegri reisn án ofbeldis og mismununar. Þessari baráttu er hvergi nærri lokið og við getum fræðst um hana og sögu hennar á næstu dögum í dagskrá Hinsegin daga.
Mannréttindi allra
Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur. Svo er ritað í fyrra Jóhannesarbréfi. Við lifum í heimi vaxandi öfga, sundurþykkju og einungrunarhyggju og niðurbrots á þeim gildum mannvirðingar, frelsis, jafnréttis og mannréttinda sem svo ötullega hefur verið barist fyrir - svo lengi af svo mörgum - alltof oft með blóði, en alltaf með svita og tárum. Þetta bakslag er sönnun þess að aldrei má segja að baráttunni sé lokið. Að fyrir engu sé lengur að berjast. Við stöndum öll í mikilli þakkarskuld við það hugrakka fólk sem af ótrúlegri fórnfýsi hefur barist fyrir sjálfsögðum mannréttindum minnihlutahópa bæði hér heima og erlendis. Sú barátta er barátta fyrir okkur öll. Mannréttindi eins verða ekki aðskilin frá mannréttindum annarra.
Frelsi og friður
Öll höfum við skoðanir hvert á öðru og rétt til að tjá þær skoðanir. En rétturinn til skoðana og málfrelsis gefur okkur hins vegar ekki rétt til að níða niður eða niðurlægja annað fólk. Það er misnotkun frelsisins. Ef við viljum búa í upplýstu og siðuðu samfélagi virðum við að frelsi fylgja ábyrgð og takmarkanir. Í Efesusbréfinu segir: Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. Allra síst ætti að nota Biblíuna til að réttlæta slæm verk, útskúfa, mismuna og valdbeita. Því miður vitum við, að svo hefur verið gert og er enn gert og alltof oft hafa alltof margir litið undan og þagað! Svo heilagt getur Guðs orð aldrei verið að það sé óátalið notað til ills. Þá myndast rof í sáttmála milli Guðs og manna. Regnboginn hefur verið rofinn.
Guðlegur fjölbreytileiki
Hér er hvorki hommi né lesbía, gagnkynhneigður né tvíkynhneigður, trans né pan né intersex, kynsegin eða hinsegin, hann, hún, hán, hé eða hín. Hér erum VIÐ í öllum okkar fjöbreytileika, ein fjölskylda í sköpun Guðs og mitt á meðal okkar Jesús Kristur.
Frá upphafi hefur mannkyn verið alls konar og fjölbreytilegt, Guðs góða sköpun. Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar sem byrjað var að skilgreina kynhneigð á þann þátt sem við þekkjum í dag og síðan þá hefur þeim skilgreiningum fjölgað. Vissulega stafar af þessu sú hætta, að við hólfum fólk niður, en við þurfum þó orð til að geta tjáð okkar um það hvernig við upplifum okkur sjálf og þessar skilgreiningar hjálpa okkur til þess. Samfélagið þarf líka þessi sömu orð til að skilja þá tjáningu. Nýsamþykkt lög um kynrænt sjálfræði eru gleðitíðindi í samfélagi okkar. Lögin eru viðurkenning á frelsi einstaklingsins til þess fá samþykkt hvernig hann skilgreinir sjálfan sig en ekki hvernig kerfið, hefðin og venjan ætlast til að sú skilgreiningin sé. Það er aldrei hægt að taka frá þér hvernig þú upplifir eða skilgreinir þig fyrir sjálfum/sjálfri þér, en það er hægt að taka frá þér réttin til þess innan samfélagsins með því að skrá þig í kerfi fyrirfram ákveðinna staðla og íminda um hið rétta þar sem hitt eða hinsegin er ekki til. Hvernig mundi Jesús skrá sig í dag? Hán kom ekki til að festa í sessi samfélag síns tíma heldur boða nýtt og berjast gegn óréttlæti, mismunun og kúgun. Hán kom til að rétta hlut þeirra sem voru ofsóttir og undirokaðir. Hán kom til að frelsa. Og ef Guð getur verið hann eða hún hví ekki hán, hé eða hín? Það er þitt að velja hvernig þú ávarpar Guð. Guð breytist ekki en sjálf okkar getur nálgast Guð með innilegri og persónulegri hætti.
Að elska
Heima er ekki landfræðilegt hugtak heldur er það inni í manni sjálfum sagði rússneski rithöfundurinn og andófsmaðurinn Andrej Sinjawski. Í Lúkasarguðspjalli stendur: Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það því að Guðs ríki er innra með yður. Kannski erum við öll flóttamenn í sífelldri leit að okkar eigin Eden-aldingarði guðsríkisins? Hvar er þitt Eden? Hvar er þitt heima? Í húsi Guðs eru margar vistarverur og það er ekki öllum gefið að vera í réttu vistarverunni alveg frá upphafi. Sum okkar skipta um vinstarverur, jafnvel oftar einu sinni, en flest okkar finna hinu réttu að lokum. Í leitinni er Kristur bæði förunautur okkar og leiðsögumaður. Í Galatabréfinu er ritað: Allt lögmálið felst í þessu eina boðorði: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Er Eden kannski elskan? Kærleikurinn? Fullkomnað í Jesú? Er heima nákvæmlega það að fá að elska og vera elskaður? Og er það þá ekki höfuðsynd að banna náunganum að elska bara vegna þess að hán elskar ekki eins og flestir aðrir eða eins og venjan og hefðin segja til um?
Manneskjan er heilög
Hver manneskja er heilög og er svo sannarlega undursamlega alveg sama hvort afstaða okkar til hennar er trúarleg eða ekki. Í sálmunum segir: Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Í skírninni erum við skráð í lífsins bók. Skírnin er heilög og óbreytanleg og enginn tekur hana frá okkur. Hún er leyndardómur og þar hefst þroskaferli og hið órjúfanlega samband með Guði, hvort heldur það er meðvitað hjá hinum skírða eða ekki. Það er ekki hið áþreifanlega, sem er skráð í lífsins bók, heldur hið óáþreifanlega. Hin ytri ásýnd er breytileg en hið innra sjálf þekkir Guð og hefur verið skráð niður, viðurkennt í vitund Guðs. Musteri manneskjunnar er ekki hið ytra heldur hið innra. Það er musterið, sem við eigum að varðveita og rækta með okkur sjálfum og með öðrum. Skírnin gefur okkur ekkert vald yfir annarri manneskju en leggur á okkur skyldur um kærleika og umhyggju.
Að vera manneskja
Komdu fram við aðra sem væru þau það sem þau ættu að vera, og þú hjálpar þeim að verða það sem þau gætu orðið. sagði Johann Wolfgang von Goethe. Þannig ættum við að kosta kapps um að vera hvert við annað. Styðja og leiða svo við getum öll orðið að því besta sem Guð hefur ætlað okkur að verða. Í Efesusbréfinu segir: Við erum smíði Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.
Það er enginn skortur á leiðbeiningum um það hvernig við ættum að koma fram hvert við annað svo betur fari. En enginn er betri en það sem stendur í Kólossusbréfinu og þau orð skulum við festa í hjarta okkar og minni og framkvæma í verki:
Íklæðumst því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
Í Jesú nafni amen.
Prédikun Grétars Einarssonar í regnbogamessu Hallgrímskirkju, 11. ágúst 2019