Hallgrímskirkja er helguð minningu prestsins og listaskáldsins Hallgríms Péturssonar. Á árinu 2024, 27. október, eru 350 ár liðin frá dánardægri hans.
Til að heiðra minningu Hallgríms og arfleið 350 ára hefur verið boðið upp á veglega dagskrá í Hallgrímskirkju en dagskráin hófst í byrjun árs og lýkur í desember með dagskrá fyrir börn, Jólin hans Hallgríms. Dagskráin hefur verið í tónum, tali og myndlist, bókaútgáfu og fræðslu tengdri viðburðum ársins og fáum við brot af öllu í komandi viku.
HALLGRÍMUR PÉTURSSON 1614 - 1674
Hallgrímur er þekktasta sálmaskáld Íslands, en hann orti einnig mikið af veraldlegum ljóðum og vísum. Passíusálmarnir, hans helsta verk, hafa verið gefnir út oftar en nokkur önnuríslensk bók og þýddir á fjölda erlendra tungumála. Óháð trú og lífsskoðunum hefur fólk hrifist af þeim og notið þeirra. Enn þann dag í dag veita þeir ólíkum listamönnum innblástur til frekari sköpunar. Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni.
Hallgrímur er talinn fæddur á bæ afa síns og ömmu í Gröf á Höfðaströnd. Hann fluttist þaðan á biskupssetrið að Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans þjónaði sem hringjari. Hallgrímur gekk um hríð í Hólaskóla en fór ungur að heiman til Glückstad (nú í Norður-Þýskalandi) og þaðan til Kaupmannahafnar. Þar lærði hann í fyrstu til járnsmiðs en Brynjólfur Sveinsson, þá konrektor í Hróarskeldu, kom honum í Frúarskóla. Þegar Hallgrímur var á síðasta ári í náminu var hann fenginn til að hafa umsjón með hópi Íslendinga sem kominn var til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið leystur úr margra ára ánauð í Alsír.
Hátt í 400 Íslendingar voru herleiddir í Tyrkjaráninu svokallaða 1627 en aðeins um tíundi hluti þeirra átti afturkvæmt til Íslands. Meðal hinna útleystu var Guðríður Símonardóttir (1598ꟷ1682). Milli Hallgríms og hennar tókust ástir og fljótlega var Guðríður orðin barnshafandi. Í kjölfarið sigldu þau til Íslands án þess að Hallgrímur næði að ljúka námi. Í nokkur ár bjuggu þau við sára fátækt á Suðurnesjum uns Brynjólfur, sem þá var orðinn Skálholtsbiskup, tók aftur til sinna ráða og vígði Hallgrím til prests í Hvalsnesi árið 1644. Það ögraði sumum að snauðum manninum væri þannig lyft upp í raðir embættismanna, en með visku sinni, trú og ræðusnilld náði Hallgrímur að sýna hvað í honum bjó. Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem var gott brauð á þeirrar tíðar mælikvarða. Þar blómstraði Hallgrímur og orti flest af því sem hann er kunnastur fyrir. Þeim Guðríði fæddust nokkur börn en þó náði aðeins frumburðurinn Eyjólfur fullorðinsaldri, giftist og eignaðist afkomendur. Steinunn dóttir þeirra lést á
fjórða ári og það var Hallgrími mikill harmur eins og lesa má í ljóðum sem hann orti eftir barnið. Þekktur er einnig steinn sem hann hjó nafn hennar í og
er nú varðveittur í Hvalsneskirkju.
Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti var reist til að heiðra minningu Hallgríms Péturssonar og er stærsta kirkja á Íslandi. Hún er metnaðarfullur menningarvettvangur hvort heldur innan hefðbundinna kirkjuathafna eða listrænna viðburða.
Umbra Ensemble er hljómsveit sem spilar miðalda- og þjóðlagatónlist í eigin útsetningum. Á tónleikunum vinnur tónlistarhópurinn jöfnum höndum með trúarleg og veraldleg kvæði Hallgríms, meðal annars úr nýútkominni bók Hvað verður fegra fundið? Á efnisskrá Umbru eru einnig önnur verk. M.a. frumsamið efni.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangur 3.900 kr.
Viðburðurinn á Facebook
Sunnudaginn 27. október kl. 11 verður Hátíðarmessa vegna vígsluafmælis Hallgrímskirkju á dánardegi Hallgríms.
Prestar Hallgrímskirkju sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og sr. Eiríku Jóhannsson prédika og þjóna fyrir altari Kór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Steinars Loga Helgasonr
Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið
M.a. verða frumflutt tvö verk í hátíðarmessunni. Kór Hallgrímskirkju syngur Önd mín af öllum mætti eftir Þorvald Örn Davíðsson við texta Hallgríms Péturssonar og Björn Steinar Sólbergsson flytur nýtt orgelverk Daníels Þorsteinssonar - Toccata um sálminn Gefðu að móðurmálið mitt í lok messunnar.
Hátíðarmessu á vígsluafmæli Hallgrímskirkju verður útvarpað í beinni útsendingu á Rás 1
HALLGRÍMSPASSÍA eftir Sigurð Sævarsson
Sunnudagur 27. október kl. 17.00
Hallgrímshátíðinni lýkur síðan með stórtónleikum, Óratoríunni HALLGRÍMSPASSÍA á dánardegi skáldsins. Sigurður Sævarsson samdi hana árið 2007 og það er Kammersveit Reykjavíkur og Kór Hallgrímskirkju ásamt einsöngvurum sem flytja hana gestum. Konsertmeistari er Una Sveinbjarnardóttir en einsöngvarar eru Jóhann Smári Sævarsson, Fjölnir Ólafsson, Stefán Sigurjónsson, Þorsteinn Freyr Sigurðsson, Hildigunnur Einarsdóttir og Þorbjörn Rúnarsson. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason.
Fleiri upplýsingar um flytjendur og óratoríuna má finna á heimasíðu Hallgrímskirkju.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 5.400 kr.
Viðburðurinn á Facebook.
Við hlökkum til að taka á móti ykkur í Hallgrímskirkju og minnast 350 ára arfleiðar í Hallgríms Péturssonar alla vikuna!
HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐUR LJÓÐA OG LISTA!