Hér að neðan er ÁVARP Einars Karls Haraldssonar formanni sóknanefndar Hallgrímskirkju 22. 12. 2024
Kristinn söfnuður á að gera gott í nafni kærleikans. Það bauð Kristur okkur að gera. Hér í Hallgrímskirkju söfnum við meðal annars í Líknarsjóð sem er hjálparsjóður kirkjunnar. Prestar kirkjunnar styðja fólk í vanda með ýmsum hætti en aðallega biðjum við þá sem eru sérhæfðir í hjálparstarfi að koma söfnunarfé Hallgrímssafnaðar til þeirra sem mest þurfa á því að halda og þar sem það kemur að gagni til valdeflingar og sjálfshjálpar fólki í vanda.
Sóknarnefnd ákvað á jólafundi sínum að veita 6.5 milljónum króna til Hjálparstarfs kirkjunnar, Kristniboðssambands Íslands, Konukots og Kaffistofu Samhjálpar.
Hjálparstarfið sinnir margskonar hjálpar- og mannúðarstarfi í nafni Þjóðkirkjunnar bæði hér heima og erlendis. Kristniboðssambandið boðar kristna trú m.a. í Eþíópíu og Keníu og stundar margskonar fræðslu og uppbyggingarstarf. Konukot starfar hér á næstu grösum við Hallgrímskirkju og er opinn faðmur fyrir heimilislausar konur og kynsegin fólk, á vegum samtakanna Rótarinnar. Og loks er að nefna Kaffistofu Samhjálpar þar sem öll þau sem eru á hrakningi í okkar samfélagi geta hvern dag gengið að mat og hlýju. Miðvikudagsmessuhópurinn hér í kirkjunni hefur starfað í 30 ár og ávallt safnað fé til styrktar Kaffistofunni svo langt sem ég man.
Hér eru komnir góðir vinir okkar sem sinna ákaflega þýðingarmiklu starfi fyrir bágstadda, og hafa tekið að sér að koma söfnunarfé safnaðarins til skila. Þau sem taka við staðfestingu á framlagi eru Bjarni Gíslason fyrir Hjálparstarf kirkjunnar, Sigríður Schram fyrir Kristniboðssambandið, Kristín Pálsdóttir fyrir Konukot og Rótina, og Linda Magnúsdóttir fyrir Kaffistofu Samhjálpar. Við þökkum af alhug fyrir ykkar störf!