Hallgrímskirkjupálminn

28. mars 2021
„Af hverju er tré í kirkjunni?“ Barnsleg spurningin var skemmtileg. Ég mundi líka að ég spurði mömmu sömu spurningar þegar ég var í guðsþjónustu í Hallgrímskirkju á sjötta áratug síðustu aldar. Stórar pálmagreinar blöstu við okkur. Mamma sagði mér að þetta væri pálmi sem vinafólk hennar hefði gefið. Pálmar væru merkileg tré og það væri líka talað um pálma í Biblíunni. Fólk hefði lagt greinar á götuna þegar Jesús reið á asnanum inn í borgina. „Manstu eftir biblíumyndinni sem þú átt heima með mynd af fólkinu að setja greinar á jörðina?“

Carl og Guðrún Ryden gáfu Hallgrímskirkju pálmann þegar helgihald hófst í kór Hallgrímskirkju árið 1948. Guðrún og mamma voru vinkonur. Mamma talaði oft við Guðrúnu í síma og þegar hún talaði um hana bætti hún alltaf frú framan við Guðrúnarnafnið. Þau Rydenshjón studdu kirkjulíf af krafti, studdu byggingu Hallgrímskirkju og lögðu fé til tækjakaupa, t.d. til kaupa klukkuspilsins í turninum. Frú Ryden tók þátt í kvenfélagsstarfinu og einnig starfi kristniboðsfélags kvenna. Þar sem þau hjónin ráku kaffibrennslu, Rydenskaffi, gáfu þau gjarnan kaffi þegar eitthvað mikið stóð til og verið var að safna fé til framkvæmda eða útbreiðslu hins góða boðskapar í heiminum. Þegar mér var sagt að stofupálmi Hallgrímskirkju væri gjöf þeirra Rydenshjóna tengdi ég ilm af rjúkandi kaffi við pálmann.

Pálmi Hallgrímskirkju var í kórkapellunni frá 1948 og til 1974. Þá var Suðursalur kirkjunnar tekinn í notkun sem guðsþjónustusalur og pálminn var færður þangað. Þar var hann til 1986 er kirkjan var vígð og farið var að nota kirkjuskipið. Þá fór Hallgrímskirkjupálminn í enn eitt ferðalagið og var komið fyrir í kirkjunni. Þar hefur hann verið síðan.

Á síðari öldum hafa pálmar og greinar þeirra verið tákn um frið og velsæld. Í frumkristninni voru pálmagreinar tákn um píslarvætti trúmanna. Meðal Gyðinga voru pálmagreinar tákn um sjálfstæði og sjálfræði. Þess vegna lagði fólk sem þráði pólitískt frelsi frá Rómverjum greinar fyrir fætur Jesú. Þau vonuðu að hann færði þjóð sinni hernaðarsigur. En velsæld er marglaga og margs konar. Hernaður er sjaldan trygging friðar.

Ég sá einu sinni mynd af rómverskum peningi sem er táknrænn fyrir harmsögu Gyðinga. Rómverjar slógu mynt eftir að gyðingauppreisn hafði verið barin niður. Á peningnum er mynd af stórum pálma sem var táknmynd Palestínu og hluti hins frjósama hálfmána. Pálmar voru einkennistré og allt svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs var kallað Pálmaland – Fönikía. Þetta var Palm Beach þeirra Rómverja!

Á rómverska pálmapeningnum var öðrum megin við tréð mynd af konu í hnipri. Hinum megin var mynd af stórum og ábúðarmiklum hermanni sem gætti konunnar. Konan var tákn um Gyðingaþjóð sem var ekki aðeins hersetin heldur líka kúguð. Hermaðurinn var fulltrúi þess valds sem líður ekki uppreisn. Þannig varð pálmapeningurinn tákn um gjaldþrot uppreisnarstefnu sem aðeins ól hörmungar en enga von. Fólkið með pálmagreinarnar í höndum vænti herkonungs. Það varpaði eigin hugmyndum og þrá yfir á Jesú og vildi að hann uppfyllti sínar vonir. Það gerði hann ekki, því voru þessir pálmamenn tilbúnir að æpa hann til dauða nokkrum dögum síðar.

Líf okkar er val. Flestir hafa tilhneigingu til að varpa eigin draumum á tilveru sína, og vilja að allt gangi upp samkvæmt eigin skilningi. Þegar illa fer verða til ofbeldismenn til að neyða fram eigin hugmyndir um tilveruna. Það er ekki leið trúarinnar. Trúmaðurinn gengur ekki neinna annarra erinda en Guðs. Á pálmasunnudegi ættum við að leggja niður okkar eigin pálma, okkar eigin blekkingar og opna augun fyrir hvað Guð vill segja okkur. Nú hefst tími íhugunar á lífsdrama kristninnar sem eiginlega er um okkur, líf okkar og val. Ekkert okkar er án vanda og áfalla, en sagan er þó um að lífið er gott, Guð er nærri og sagan endar gæfulega.

Hallgrímskirkja hefur elst vel og nýst dásamlega. Mér hefur alltaf þótt pálmi kirkjunnar fallegur. Hann er líka vitnisburður um elskusemi fólks í garð guðsríksins. Hann er eldri en kirkjuhúsið. Hann var þegar kominn til ára sinna þegar hann kom fyrst í kirkjuna. Hann er líka eldri en kirkjumunirnir. Að pálminn hefur lifað af flutninga, ryk og hitabreytingar er vitnisburður um að gott fólk hefur gætt pálmans vel og hlúð að honum.

Ég á mér persónulegar minningar tengdar pálmanum. Enn hugsa ég um Rydenshjónin þegar ég sé hann í kirkjunni. Þegar ég kem að honum finnst mér ég finna daufan kaffilm af honum. En þegar ég hugsa um pálmann finnst mér mikilvægast að hugsa um hann sem Jesútákn. Ekki sem sigurtákn heldur tákn um gott líf. Af hverju tré í kirkju? Til að minna okkur á að Guð elskar veröldina, lífríkið og mannfólkið.

Gleðilegan pálmasunnudag.

Íhugun SÁÞ á vef Hallgrímskirkju 28. mars, 2021