Einar Karl Haraldsson skrifar um íbúaþróun og breytingar í Hallgrímssókn:
Litlar breytingar hafa verið í heildarfjölda íbúa á síðustu árum en á hinn bóginn er að verða róttæk umskipti í samsetningu íbúa og aldursdreifingu.
Mrgar tölfræðilegar staðreyndir sýna að viðfangsefni Hallgrímssóknar eru býsna sérstök. Á árunum 2012 til 2015 fluttust til dæmis 3794 búferlum úr sókninni og 3745 settust hér að, en 3823 héldu kyrru fyrir. Helmingur 7600 íbúa er semsagt tiltölulega nýkominn í sóknina og hyggur ef til vill ekki á langvistir.
Meðalaldur íbúa á miðborgarsvæðinu hefur farið hækkandi undanfarin 10- 15 ár en þó hefur fækkað í hópi þeirra sem eru 70 ára og eldri. Á sama tíma hefur fjölgað í aldurshópnum 50 70 ára sem gæti bæði skýrst af því að rótgrónir íbúar séu að eldast og af aðflutningi ráðsetts fólks.
Aldurspýramídinn svokallaði í miðborginni, og þar með Hallgrímssókn, er frábrugðinn því sem gerist í öðrum hverfum. Fólki á aldrinum 25 til 40 ára hefur fjölgað talsvert í sókninni, fólki sem almennt telst vera á besta barneignaaldri. Engu að síður sýna tölur að á undanförnum 20 árum virðist börnum og ungmennum hafa fækkað þó nokkuð í sókninni. Athyglisvert er í þessu sambandi að ekki er gert ráð fyrir því í spá um nemendur í Austurbæjarskóla að þeim fjölgi nema úr 442 árið 2015 í 458 árið 2020.
Þétting byggðar við Barónsreit, Hljómalindarreit og Brynjureit mun hafa áhrif frá 2019 2020 en óljóst er hver þau verða á barnafjölda eða fjölgun sóknarbarna vegna hótelrýmis og smáíbúða sem sóst er í að leigja til ferðamanna.. Hvað Hallgrímssókn varðar þá er ljóst að 500 til 800 íbúðir bætast við í sóknina fram til 2024 þegar Hlíðarendabyggð Valsmanna ehf. rís við Öskjuhlíð. Um helmingur íbúðanna þar verður 2ja herbergja og einkum ætluð stúdentum og ungu fólki sem er að hefja eigin búskap.
Samkvæmt úttekt starfshóps á vegum Reykjavíkurprófastsdæmis vestra er áætlað að íbúum í Hallgrímssókn fjölgi um 1664 á næstu tíu árum.
Í Hallgrímssókn voru 7580 skráðir íbúar 1. desember 2015. Af þeim voru 969 yngri en 16 ára en 6611 eldri. Af eldri en 16 ára voru 3123 skráðir í þjóðkirkjuna, eða 47%, og er það lægsta hlutfall í sóknum landsins. Hlutfallið lækkar í takt við almenna þróun í samfélaginu en samsetning íbúanna í Hallgrímssókn er með öðrum hætti en gengur og gerist, auk þess sem um helmingur húsnæðis í sókninni fer undir verslun, þjónustu, hótelstarfsemi og skrifstofur.
Hlutfall innflytjenda er hærra í Austurbænum, sem Hallgrímssókn telst til að hluta, samanborið við Reykjavík í heild sinni, og í sókninni dvelja margir erlendir ríkisborgarar. Það skýrir að hluta lágt hlutfall skráðra í þjóðkirkjuna.
Hátt íbúðaverð í miðborginni á örugglega sinn þátt í því að barnafjölskyldur og fólk yfir 70 ára aldri leitar í stærra eða hentugra húsnæði utan sóknar. Hótelbyggingar og breytingar á íbúðahúsnæði í leiguíbúðir fyrir ferðafólk hafa veruleg áhrif á íbúaþróun.
Hallgrímskirkja dregur að sér um hálfa milljón ferðamanna á ári enda er hún eitt helsta kennleiti borgarinnar og talin í hópi eftirtektarverðustu kirkjubygginga og meðal tíu bestu íhugunarstaða í heiminum. Láta mun nærri að í helgihaldi og á tónlistarviðburðum í kirkjunni sé röskur þriðjungur kirkjugesta af erlendu bergi brotinn.
Hallgrímskirkja fæst nú við það verkefni að hæfa þjónustu sína að þeim veruleika sem birtist í þeirri tölfræði sem hér hefur verið tíunduð lítillega.