Hamborgarar eftir útför

03. desember 2021
Fréttir
Hamborgarar í erfidrykkju á Hallgrímstorgi

Engin erfidrykkja var eftir útför Ófeigs Björnssonar, gullsmiðs, sem gerð var frá Hallgrímskirkju 3. desember. Auðvitað voru sóttvarnasjónarmið ástæðurnar. Vini Ófeigs þótti miður að fjölskylda og félagar gætu ekki hist eftir athöfnina. Hann hringdi í Hildi Bolladóttur, eiginkonu Ófeigs, og baust til að sjá um veitingar á kirkjutorginu, Hallgrímstorgi. Hún sagði já takk – Ófeigur var jú lausnamiðaður og tilraunasækinn. Vinurinn var Tómas A. Tómasson, hamborgarakóngur og alþingismaður, og hann hóf undirbúninginn. Þegar kista Ófeigs hafði verið borin úr kirkju útdeildu vaskir grillarar hamborgurum. Steikarlyktin kitlaði nef allra. Einn vina Ófeigs sagði: „Frábær hamborgari. Þetta er algerlega ný tegund af veitingum eftir jarðarför. Og frábær valkostur.“ Sem sé brauðterturnar út og hamborgararnir inn. Takk Tommi. 

mynd sáþ