Hann hefði orðið eitt hundrað ára 7. októer 2021. Hermann Þorsteinsson var afreksmaður í byggingu Hallgrímskirkju. Kirkjan er ekki aðeins verk Guðjóns Samúelssonar, Leifs Breiðfjörð, Sigurbjörns Einarssonar, Jakobs Jónssonar eða Sigurjóns Þ. Árnasonar heldur líka Hermanns Þorsteinssonar. Hann var ekki aðeins sóknarnefndarmaður og formaður sóknarnefndar í áratugi heldur einnig byggingastjóri kirkjunnar frá 1965 og allt þar til kirkjan var vígð árið 1986 og raunar lengur. Hermann gekk einbeittur til verka og þjónaði glaður Guði, kristni Íslands og Hallgrímssöfnuði. Hann fékk engin peningalaun fyrir öll þau störf en Hallgrímskirkja verður ávallt minnisvarði um hugsjónamanninn og afreksmanninn Hermann Þorsteinsson.
Sr. Birgir Ásgeirsson skrifaði árið 2014 þessi minningarorð um Hermann Þorsteinsson:
Það fór þytur um loftið, 1948, þegar börnin í Skólavörðuholtinu fengu þær fréttir að nú væri búið að opna nýja kirkju hjá styttu Leifs Eiríkssonar. Nú þyrfti ekki að hlaupa alla leið niður í Dómkirkju til að komast í barnaguðsþjónustu, eins og það hét þá. En þetta var bara kórkjallari verðandi Hallgrímskirkju, sem dugði reyndar býsna vel sem kirkja safnaðarins í rúman aldarfjórðung. Eftir opnun kórkjallarans gerðist allt ósköp hægt. En um 1960, þegar tæplega fertugur maður, Hermann Þorsteinsson, gaf kost á sér í sóknarnefnd Hallgrímssóknar, heyrðist nýr tónn á fundum. Við skulum halda áfram verkinu. Blásum í seglin, söfnum liði, gefumst ekki upp. Hallgrímskirkja verður stórkostleg bygging, guðshús, vegleg og rúmgóð, fögur og tignarleg. Þessi nýi andi hleypti smátt og smátt miklum þrótti í byggingarmálin. Braggar setuliðsins hurfu úr Holtinu og sökkullinn í kirkjuskipinu færðist eftir geislabandi morgunsólarinnar vestar og vestar. Þrátt fyrir úrtölur, rex og jafnvel skammir, fengu raddir framsýni og uppbyggingar æ meira svigrúm í hinni opinberu umræðu. Fólk sameinaðist um hinn mikla helgidóm. Hermann hafði ekki hátt, en þrekmikið verklag hans, seigla, starfsþol, útsjónarsemi og leiftrandi hugsjón efldu samtakamáttinn og turninn hækkaði og hækkaði. Það var virðuleg og tilkomumikil stund, þegar Hermann afhenti, þáverandi forseta Íslands Kristjáni Eldjárn, hornstein kirkjunnar, til að leggja á sinn stað undir blessunarorðum biskups, Hr. Sigurbjörns. Þá var suðursalur kirkjunnar vígður til afnota fyrir söfnuðinn, en þetta var 1974. Næstu skref urðu stór og 1986, var Hallgrímskirkja vaxin í fulla stærð og Guði helguð í nafni Drottins Jesú. Nafn Hallgríms Péturssonar og bænir hans hafði hún fengið að tannfé. Þjóðarhelgidómur.
Nafn Hermanns Þorsteinssonar er nátengt byggingarsögu Hallgrímskirkju. Sístarfandi hugur hans, óteljandi viðvik, samtöl, ráðstafanir, samningar, fundir, ákvarðanir og sterkur vilji til verka, vógu þungt í þessu mikla samræmda átaki landsmanna. Sem formaður sóknarnefndar og forstöðumaður byggingaframkvæmdanna varð hann að leysa úr ótal vandamálum og hafa þá framsýni til að bera sem stóðst mat samtíðar og reyndist síðan vel í framtíðinni. Þar fór hann farsælan veg, skarpur, harðduglegur, iðjusamur og fórnfús á tíma sinn og þrek. Hann náði háum aldri. Hann var glæsilegur á velli. Stóð upp úr meðalmennskunni. Hann var mikill kirkjusmiður. Vissi vel að hið eiginlega hús Guðs var reist á þremur dögum og ekki með höndum gert.
Við þökkum trúfesti Hermanns og fórnarlund. Við þökkum eiginkonu hans, Helgu Rakel, samfylgdina og biðjum henni blessunar Guðs og fjölskyldunni allri. Kærleikur Guðs í nafni Drottins Jesú kalli Hermann Þorsteinsson til eilífs lífs og friðar.
Fyrir hönd presta og starfsfólks Hallgrímskirkju, Birgir Ásgeirsson.
Hermann Þorsteinsson f. 7. október 1921 í Reykjavík. Hann lést 5. maí 2014.
Hermann starfaði hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í hálfa öld, eða frá 14. afmælisdegi sínum árið 1935 til sama dags árið 1985. Hann gegndi ýmsum störfum fyrir Sambandið og var um árabil á þess vegum í Kaupmannahöfn. Seinni hluta starfsævinnar veitti hann forstöðu Lífeyrissjóði SÍS. Hermann var virkur í félagsstörfum. Hann starfaði í KFUM og var einn af stofnendum Gideonfélagsins á Íslandi. Hann var ólaunaður framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags frá 1965 til ársins 1990 og kom að útgáfu Biblíunnar 1981. Hermann vann að endurreisn og eflingu þessa elsta félags á Íslandi, ásamt þáverandi biskupi Íslands, hr. Sigurbirni Einarssyni, og Ólafi Ólafssyni, kristniboða, en starfsemi Biblíufélagsins hafði þá legið niðri um árabil.
Eitt helsta hugðarefni Hermanns var bygging Hallgrímskirkju. Hann tók sæti í sóknarnefnd kirkjunnar árið 1960, og tók við forstöðu framkvæmdanna árið 1965. Hermann fór á eftirlaun 1985 og nýtti þá starfskrafta sína sem ólaunaður byggingarstjóri Hallgrímskirkju, þar til kirkjan var vígð, 26. október 1986.
Hermann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Ingibjörg (Inga) Magnúsdóttir, sem lést árið 1993. Eftirlifandi eiginkona Hermanns var Helga Rakel Stefnisdóttir.